Fara beint í efnið

Atvinnuleysisbætur

Umsókn um atvinnuleysisbætur

Þeir sem eru atvinnulausir geta skráð sig á atvinnuleysisskrá hjá vinnumiðlunum Vinnumálastofnunar og átt rétt á atvinnuleysisbótum. Þeir fá jafnframt ráðgjöf og aðstoð við atvinnuleit.

Umsókn um atvinnuleysisbætur

Umsóknarferli um atvinnuleysisbætur er í tveimur skrefum. Fyrst skráir umsækjandi nauðsynlegar upplýsingar um sig. Síðan þarf umsækjandi að kynna sér mikilvægar upplýsingar og staðfesta umsóknina.

Greiðslur atvinnuleysisbóta taka í fyrsta lagi mið af þeim degi sem umsækjandi staðfestir og sendir umsókn. Þegar umsækjandi hefur lokið við að sækja um, birtist listi yfir þau gögn sem þurfa að berast til Vinnumálastofnunar. Því fyrr sem umsækjandi skilar öllum gögnum, því fyrr er unnt að afgreiða umsóknina.

Umsókn um varðveislu réttar til atvinnuleysisbóta meðan leitað er að vinnu í öðru EES-landi

Skilyrði atvinnuleysisbóta

Sótt er um atvinnuleysisbætur hjá þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar sem starfa í öllum landshlutum. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur skráir sig jafnframt í atvinnuleit.

Atvinnuleysisbætur eru greiddar út mánaðarlega af Greiðslustofu atvinnuleysistrygginga.

Sá sem nýtur atvinnuleysisbóta þarf meðal annars að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • vera virkur í atvinnuleit og reiðubúinn að ráða sig til almennra starfa,

  • tilkynna til Vinnumálastofnunar einu sinni í mánuði hvort atvinnuleit hafi borið árangur,

  • tilkynna til Vinnumálastofnunar þegar vinna er fengin og gefa upp allar tekjur.

Allir umsækjendur um atvinnuleysisbætur gera starfsleitaráætlun í samráði við starfsráðgjafa sem einnig veitir ráðgjöf um atvinnuleit og úrræði sem atvinnulausum standa til boða.

Það getur valdið missi bóta ef atvinnuleitandi fylgir ekki starfsleitaráætlun eða hafnar úrræðum sem honum bjóðast.

Telji umsækjendur um atvinnuleysisbætur að afgreiðsla Vinnumálastofnunar hafi verið ófullnægjandi geta þeir skotið máli sínu til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.

Bótaupphæð

Fyrstu tíu daga atvinnuleysis eru greiddar grunnbætur en síðan eru bætur tekjutengdar í þrjá mánuði ef skilyrði um tekjutengingu bóta eru uppfyllt.

Sá sem fær fullar atvinnuleysisbætur og hefur börn undir 18 ára aldri á framfæri sínu fær greidd 4% af grunnbótum með hverju barni.

Greiða þarf lögbundið lífeyrissjóðsgjald af atvinnuleysisbótum en Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir mótframlag sem atvinnurekandi greiðir ella. Vinnumálastofnun sér um greiðslu stéttarfélagsgjalds af bótum sé þess óskað.

Lög og reglugerðir

Umsókn um atvinnuleysisbætur

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun