Fara beint í efnið

Mannauðstorg ríkisins: Heilsa, öryggi og vinnuumhverfi

Viðbrögð ef meintur gerandi er forstöðumaður stofnunar

Almennt er það hlutverk forstöðumanns ríkisstofnunar að taka á kvörtun um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, kynbundnu ofbeldi og öðru ofbeldi.

Í þeim tilfellum þar sem meintur gerandi er forstöðumaður, ber viðkomandi fagráðuneyti að grípa inn í og gera nauðsynlegar ráðstafanir á grundvelli vinnuveitandahlutverks síns.

Eftirfarandi eru verklagsreglur fyrir ráðuneyti og stofnanir til að fylgja þegar upp koma slík mál: Virkja þarf starfsmannastjóra eða eftir atvikum þann sem fer með starfsmannamál auk öryggistrúnaðarmanns eða vinnuverndarfulltrúa stofnunar. Í smærri stofnunum þar sem forstöðumaður fer með starfsmannamál er eðlilegt að starfsmaður sem telur sig vera þolanda eineltis, áreitis eða ofbeldis leiti sjálfur til viðkomandi ráðuneytis.

  1. Starfsmannastjóri eða starfsmaður leitar til viðkomandi ráðuneytis.

  2. Ráðuneyti hefur formlegt rannsóknarferli.

    1. Hægt er að leita til þjónustuaðila í vinnuvernd til að annast rannsóknarferlið en listi er til á síðu Vinnueftirlitsins yfir viðurkennda þjónustuaðila.

    2. Ráðuneytið getur sjálft rannsakað málið með formlegum hætti:

      • Mikilvægt er að fara vandlega yfir málið og upplýsa atvik þess eftir bestu getu. Fara þarf yfir málið með starfsmanni sem kvartar og því næst að ræða við meintan geranda sem og aðra sem geta veitt upplýsingar um málið. Rétt er að ræða við einn aðila í senn.

      • Upplýsingar úr viðtölum og aðrar upplýsingar sem fengnar eru munnlega ber að skrá.

      • Í einhverjum tilvikum getur verið nauðsynlegt að afla gagna s.s. tölvupósta.

      • Ekki skal draga fleiri inn í málið en nauðsynlegt þykir.

      • Á meðan unnið er að lausn málsins skal leitast við að halda málsaðilum upplýstum um framvindu þess.

  3. Þegar málið hefur verið upplýst er hlutaðeigandi aðilum kynnt niðurstaðan, það er hvort
    ráðuneytið telji að um einelti sé að ræða eða ekki.

  4. Sé talið að meintur gerandi hafi beitt þolanda einelti þarf að huga að afleiðingum þess. Sem dæmi má nefna áminningu eða í undantekningartilfellum frávikningu eða lausn frá embætti um stundarsakir og eftir atvikum síðar að fullu.

Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?

merki

Mannauð­s­torg ríkisins

Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðs- og launasvið Fjársýslu ríkisins.