Skurðlækningar
Sjúklingar á skurðlækningadeild eru annað hvort innkallaðir - þ.e. vitað er um komu þeirra, eða mæta fyrir innlögn á innritunarmiðstöð þar sem þeir fara í undirbúningsrannsóknir og fá fræðslu.
Hluti sjúklinga leggst inn brátt, t.d. eftir slys, áverka eða skyndilega versnun á sjúkdómi.
Gengið er inn um inngang B.
Þjónusta skurðlækninga
almennar skurðlækningar
augnlækningar
bæklunaskurðlækningar
háls-, nef- og eyrnalækningar
kvensjúkdómar – skurðsvið og bráðar aðgerðir og sjúkdómar sem ekki tengjast meðgöngu
meðferð sjúklinga sem verða fyrir höfuðhöggum eða brjóstholsáverkum
minni áverkar vegna bruna
stærri lýtaaðgerðir
þvagfæraskurðlækningar
æðaskurðlækningar
Innritunarmiðstöð er starfandi í tengslum við deildina. Þar koma sjúklingar sem eru innkallaðir til aðgerða til undirbúnings, rannsókna og fræðslu fyrir aðgerð.
Markmið með innköllun í aðgerðir:
að hjúkrunarfræðingur boði sjúklinga í aðgerð og hefji strax undirbúning og fræðslu s.s. um áætlaðan legutíma og fyrirhugaða útskrift
að tryggja að sjúklingur sé heilsufarslega tilbúinn í aðgerð. Farið yfir nauðsynlegar rannsóknir/eftirlit.
gæta jafnræðis við biðtíma sjúklinga eftir skurðaðgerðum
Á svæfingadeild starfa svæfingahjúkrunarfræðingar og svæfingalæknar, sem í sameiningu sjá um líðan aðgerðasjúklinga. Markmiðið er að veita bestu þjónustu sem kostur er á og tryggja velferð og öryggi sjúklinga í aðgerðaferlinu.
Auk skurðstofanna sinnir svæfingadeildin bráðamóttöku, myndgreiningardeild, geðdeild og fæðingadeild. Einnig kemur svæfingadeildin að sérhæfðari verkefnum eins og ísetningu æðaleggja, endurlífgun og verkjaþjónustu á öðrum deildum.
Starfsfólk deildarinnar tekur virkan þátt í kennslu læknanema, hjúkrunarnema, þjálfun sjúkraflutningafólks og kennslu í endurlífgun fyrir lækna og hjúkrunarfræðinga.
Umsjón biðlista er í höndum hjúkrunarfræðinga á innritunarmiðstöð. Innlögn er skipulögð þegar innlagnarbeiðni hefur borist frá viðkomandi sérfræðingi. Hringt er í sjúkling þegar dagsetning aðgerðar liggur fyrir og sjúklingur er þá boðaður á innritunarmiðstöð í undirbúning fyrir aðgerðina.
Sjúklingar sem eru á biðlista eftir skurðaðgerð geta hringt á innritunarmiðstöðina í símatíma mánudaga, miðvikudaga og föstudaga frá kl.13-14 og fengið upplýsingar um biðtíma.
Sími: 463-0225
Meinafræðideildin ber ábyrgð á greiningu hverskonar vefjasýna sem berast SAk. Þjónustusvæði deildarinnar er Norðausturland.
Vefjasýni sem berast deildinni fara í ákveðið vinnsluferli áður en þau eru tilbúin til smásjárskoðunar og greiningar. Allar vefjasneiðar eru t.a.m. litaðar með grunnlit (H&E litun) sem litar kjarna, umfrymi og millivefjagerð vefsins. Auk þess eru litaðar margvíslegar sérlitanir sem sýna fram á ólíka eiginleika og efnisþætti fruma og millifrumuefnis og eru því mikilvæg hjálpartæki við sjúkdómsgreiningu.
Meðalvinnslutími vefjasýna er 18-24 klukkustundir. Þau sýni sem njóta forgangs eru þó unnin þannig að svör berist innan nokkurra klukkustunda eða eins fljótt og hægt er.
Þá er deildin skurðlæknum sjúkrahússins til taks þegar gera þarf frystiskurði meðan að á aðgerð stendur. Þá er snöggfrystandi úða (-50°C) úðað yfir ferskan vefinn, sem síðan er skorinn í örþunnar sneiðar í frystiskurðartæki og litaður með H&E litun. Í flestum tilfellum berst svar á um innan við 15-20 mínútum frá því að sýnið berst deildinni.
Allar ónæmisfræðilegar litanir eru sendar á Rannsóknarstofu HÍ (RHÍ) í vefjameinafræði í Reykjavík en meinafræðideildin leggur áherslu á gott samráð og samvinnu við RHÍ sem og rannsóknarstofur víðsvegar í heiminum.
Meinafræðingar RHÍ sjá um allar krufningar, fósturkrufningar og fylgjugreiningar fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri.
Á deildinni starfa meinafræðingur, tveir lífeindafræðingar og ritari lækna.