Innlögn á sjúkrahús
Þegar einstaklingur leggst inn á sjúkrahús er það eftir aðstæðum hvers og eins. Hægt er að leggjast inn á:
Göngudeild: einstaklingur á bókaðan tíma, en dvelur ekki yfir nótt.
Dagdeild: einstaklingur fær sjúkrarúm fyrir rannsóknir eða skurðaðgerðir en dvelur ekki yfir nótt. Þetta getur falið í sér meðferðir eins og minniháttar skurðaðgerðir, skilun eða lyfjameðferð.
Legudeild: dvalið er á sjúkrahúsi í 1 nótt eða lengur vegna rannsókna, læknismeðferðar eða skurðaðgerðar.
Frá innlögn að útskrift
Við innlögn á Sjúkrahúsið á Akureyri biðjum við sjúklinga að hafa með sér:
lyf sem viðkomandi notar, lyfjakort eða yfirlit yfir lyf úr lyfjaskömmtun
snyrtivörur: tannbursta, tannkrem, greiðu og rakvél
góða inniskó sem styðja vel við fætur
náttslopp. Þó er hægt að fá lánaðan slopp á sjúkrahúsinu
hjálpartæki eins og heyrnartæki eða gleraugu
hjálpartæki eins og staf, göngugrind eða hjólastól
peninga eða greiðslukort til dæmis fyrir símakorti eða til að nota í sjálfsala
léttan fatnað sem þægilegt er að klæðast
Það er gott að hafa með sér mat eða drykki til að borða á milli mála.
Sjúklingar geta haft með sér eigin farsíma og fartölvur.
Ekki er tekin ábyrgð á persónulegum munum sjúklinga sem geymdir eru á sjúkrastofum. Við viljum benda þér á að fá verðmæti geymd í læstum skáp á vaktherbergi.
Vinsamlegast skiljið verðmæti eins og peninga og skartgripi eftir heima eins og unnt er.
Lyflækninga-, skurðlækninga- og geðdeild frá kl. 16-17 og 19-20
Barnadeild: Aðrir en foreldrar og forráðamenn frá kl. 14-20
Gjörgæsludeild eftir samkomulagi
Kristnesspítali frá kl. 16-18
Fæðingadeild: Heimsóknir ekki leyfðar nema í undantekningartilfellum.
Tveir gestir eru leyfðir í hverjum heimsóknartíma nema í undantekningartilfellum og í samráði við starfsfólk deilda.
Gestir með einkenni öndunarfærasýkinga mega ekki koma í heimsókn.
Það er mikilvægt fyrir sjúklinga að nærast vel. Líkaminn þarf orku til að jafna sig starfsfólk eldhússins á SAk gerir sitt besta til að svo megi verða. Flestir sjúklingar ættu að geta fengið mat við sitt hæfi.
Við gerð matseðla er hugað að samspili næringar, bragðs, útlits, gæða og kostnaðar.
Allir matseðlar eru næringaútreiknaðir.
Ekki eru notuð nein matvæli í eldhúsinu nema fyrir liggi innihald og næringagildi þeirra.
Við gerð matseðla er tekið tillit til hátíðisdaga.
Passa þarf að rétt fæðisgerð sé valin fyrir sjúklinga með tilliti til sérþarfa t.d vegna sjúkdóms, ofnæmis og þess háttar og ákvarða þarf skammtastærð út frá orkuþörf og getu einstaklingsins til að borða. Staðlaðar skammtastærðir eru 1500 kkal/dag, (lítill skammtur) 2000 kkal (meðalstór skammtur) og 2700 kkal (stór skammtur)
Á sjúkrahúsinu eru 5 máltíðir á dag og er skammtað í eldhúsi fyrir morgunverð, hádegisverð og kvöldverð, skv. valinni skammtastærð og einstaklingsbundnu vali.
Hægt er að velja breytta áferð á allar fæðisgerðir.
Tvær aðalfæðisgerðir eru í boði: Sjúkrahúsfæði og heilsufæði.
Sjúkrahúsfæði
Ætlað þeim sjúklingum sjúkrahússins, sem eru í hættu á vannæringu, lystarlausir, eiga í erfiðleikum með að nærast og þurfa af einhverjum ástæðum orku- og próteinríkara fæði en almennar ráðleggingar fyrir fríska segja til um. Fæðið hentar flestum sjúklingum á lyf-, skurð- og öldrunarlækningadeildum.
Heilsufæði
Ætlað þeim sjúklingum sjúkrahússins frá 1 árs aldri, sem ekki hafa sérstakar þarfir varðandi samsetningu fæðisins, vegna sjúkdóma eða annarra ástæðna, eru í lítilli hættu á vannæringu, hafa góða matarlyst og getu til að borða. Fæðið hentar flestum sjúklingum á geðdeild, fæðingadeild og í endurhæfingu.
Ekki er afgreitt sérstakt fæði fyrir sykursjúka, en samsetning Sjúkrahússfæðis og Heilsufæðis hentar sykursjúkum með einstaklingsbundnu vali. Kolvetnamagni er haldið innan ákveðinna marka í öllum máltíðum, en breytilegt eftir vali hvers og eins.
Ósætt kaffibrauð og ósætir eftirréttir eru í boði fyrir þá sem það þurfa eða vilja.
Á Sjúkrahúsinu á Akureyri er leitast við að búa öllum sjúklingum og aðstandendum eins góða aðstöðu og unnt er hverju sinni.
Útvarp, sjónvarp og tölvur
Útvarp er við hvert rúm og sjónvörp eru ýmist við hvert rúm eða sameiginleg á hverri sjúkrastofu. Þá eru sjónvörp í dagstofu hverrar deildar. Einnig er hægt að hafa með sér tölvur ef fólk vill. Á flestum deildum er aðgengi að nettengdri tölvu fyrir sjúklinga og hægt er að tengjast þráðlausu neti.
Túlkaþjónusta
Ef þú þarft á túlkaþjónustu að halda skalt þú ræða við þinn hjúkrunarfræðing eða lækni.
Félagsráðgjöf
Félagsráðgjafi er starfandi alla virka daga á öllum deildum sjúkrahússins. Hægt er að óska eftir þjónustu félagsráðgjafa beint eða í gegnum vakthafandi hjúkrunarfræðinga og lækna. Markmið félagsráðgjafaþjónustu sjúkrahússins er að veita sjúklingum og fjölskyldum þeirra stuðning í persónulegum málum, þannig að þeim verði auðveldara að fást við daglegt líf, oft út frá breyttum forsendum, til dæmis varðandi
félagsleg réttindi og þjónustu, almannatryggingar og fjárhag
tilfinningalega líðan og upplifanir af breytingum sem sjúkdómar og áföll hafa í för með sér
Boðið er uppá einkaviðtöl sem og viðtöl við aðstandendur sjúklings, hjóna- og fjölskylduviðtöl.
Tvær raðhúsaíbúðir eru til útleigu fyrir sjúklinga og aðstandendur Sjúkrahússins á Akureyri við Heilsuvernd - hjúkrunarheimili Hlíð í í Austurbyggð 21G og 21H.
Íbúðirnar eru útbúnar:
svefnherbergi með tvíbreiðu stillanlegu rúmi
stofu með stækkanlegum svefnsófa
sængur, koddar og lín fyrir 4
eldhús með helstu eldhústækjum og búnaði
baðherbergi með hjólastólaaðgengi
borðstofa með borðstofuborði og stólum fyrir 6
sjónvarp
nettenging
þvottavél og þurrkari
Íbúðirnar eru reyklausar og gæludýr eru ekki leyfð.
Dvalargestir eru beðnir um að ganga snyrtilega um og taka lín af rúmum og setja í sérstaka poka, þegar dvöl lýkur.
Tekið er á móti bókunum í síma 460 9100. Einnig er hægt að senda tölvupóst á ibud@hlid.is.
Afhenda þarf undirritaða tilvísun frá lækni, hjúkrunarfræðingi eða ljósmóður við komu.
Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu Heilsuvernd - hjúkrunarheimili Hlíð mánudaga til fimmtudaga frá kl. 8-15 og föstudaga frá kl. 8-13 í síma 4609100.
Sjúkratryggingar Íslands hafa gert rammasamning um kaup á gistiþjónustu á Akureyri fyrir sjúkratryggða einstaklinga.
Tveir gististaðir hafa gerst aðilar að samningum.
Hótel Akureyri
Hótel Akureyri er 17 herbergja vel búið hótel þar sem rík áhersla er lögð á persónulega þjónustu. Herbergin eru með sér baðherbergi, sjónvarpi og þráðlausri nettengingu.
Hótel Akureyri, Hafnarstræti 67
Sími 462 5600
Gistihúsið Hrafninn
Gistihúsið Hrafninn er með 7 herbergi, öll búin með sér baðherbergjum, heilsurúmum, sjónvarpi og þráðlausri nettengingu. Sameiginlegt eldhús er til afnota fyrir gesti.
Gistihúsið Hrafninn, Brekkugötu 4
Sími 462 5600
Framboð herbergja á gististöðunum er háð bókunarstöðu hverju sinni.