Þú þarft að hafa fasta búsetu hér á landi þegar umsókn er lögð fram og þegar ákvörðun er tekin. Með fastri búsetu er átt við að þú eigir lögheimili á Íslandi samkvæmt þjóðskrá.
Lengd búsetu
Þú getur sótt um íslenskt ríkisfang þegar þú hefur haft lögheimili og samfellda búsetu á Íslandi í sjö ár.
Umsókn eftir styttri búsetu
Þú getur sótt um íslenskt ríkisfang eftir styttri búsetu en sjö ár ef:
Þú ert maki íslensks ríkisborgara og hefur átt lögheimili á Íslandi síðastliðin 4 ár frá giftingu. Maki þinn þarf að hafa verið íslenskur ríkisborgari í að lágmarki 5 ár.
Þú ert í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og hefur átt lögheimili á Íslandi síðastliðin 5 ár frá skráningu sambúðar. Sambúðarmaki þinn þarf að hafa verið íslenskur ríkisborgari í að lágmarki 5 ár.
Þú ert barn íslensks ríkisborgara og hefur átt lögheimili á Íslandi síðastliðin 2 ár. Foreldri þitt þarf að hafa verið íslenskur ríkisborgari í að lágmarki 5 ár.
Þú ert ríkisborgari Norðurlanda og hefur átt lögheimili á Íslandi síðastliðin 4 ár.
Þú ert flóttamaður eða með dvalarleyfi af mannúðarástæðum og hefur átt lögheimili á Íslandi síðastliðin 5 ár eftir að hafa fengið stöðu sem flóttamaður eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
Þú ert ríkisfangslaus einstaklingur samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga og hefur átt lögheimili á Íslandi síðastliðin 5 ár.
Þú ert fyrrum íslenskur ríkisborgari og hefur átt lögheimili á Íslandi síðastliðið 1 ár. Þú misstir íslenskt ríkisfang vegna umsóknar og veitingar erlends ríkisfangs.
Samfelld búseta
Búseta telst samfelld hér á landi ef þú dvelur ekki lengur en 90 daga samtals erlendis á hverju 12 mánaða tímabili.
Ef samfelld dvöl erlendis er lengri en 90 dagar á 12 mánaða tímabili þá dregst hún öll frá búsetutímanum sem þú þarft að uppfylla til að mega sækja um.
Undanþágur frá skilyrði um samfellda búsetu
Hægt er að veita undanþágu frá skilyrðinu um samfellda búsetu hér á landi ef þú hefur dvalið erlendis:
Í allt að eitt ár samtals á tímabilinu.
Í allt að tvö ár samtals á tímabilinu vegna tímabundinnar atvinnu erlendis eða óviðráðanlegra aðstæðna, til dæmis veikinda þinna eða nákomins ættingja
Í allt að þrjú ár samtals á tímabilinu vegna náms.
Vegna atvinnu maka eða forsjárforeldris, sem er íslenskur ríkisborgari og gegnir störfum erlendis á vegum íslenska ríkisins eða er starfsmaður alþjóðastofnunar sem Ísland er aðili að.
Ef þú telur að einhver þessara undanþága eigi við um þig, verður þú að leggja fram gögn því til stuðnings, til dæmis gögn varðandi veikindi, ráðningarsamning eða vottorð frá skóla.
Athugið að umsækjandi verður að fullnægja viðeigandi skilyrði um lengd búsetu, þrátt fyrir að fá undanþágu frá skilyrðinu um samfellda búsetu.
Dæmi: Umsækjandi hyggst leggja fram umsókn um ríkisborgararétt á grundvelli sjö ára búsetu á Íslandi.
Eftir sex ára búsetu hér á landi dvaldi umsækjandi í eitt ár við störf erlendis og flutti í framhaldinu aftur til Íslands. Þrátt fyrir að hafa verið fyrst skráður með lögheimili á Íslandi sjö árum fyrr og möguleikann á að fá undanþágu frá skilyrðinu um samfellda búsetu vegna atvinnu erlendis þá verður viðkomandi að dveljast hér á landi í eitt ár til viðbótar áður en hann getur sótt um íslenskan ríkisborgararétt.
Skilyrðið um sjö ára dvöl hér á landi þarf að uppfylla þrátt fyrir að umsækjandi falli undir undanþágu frá skilyrðinu um samfellda búsetu.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun