Fara beint í efnið

Erlendir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, geta sótt um íslenskan ríkisborgararétt með rafrænum hætti fyrir sig og börn sín, sem eru yngri en 18 ára, í einni umsókn.

Nauðsynlegt er að vera með rafræn skilríki til að fylla út umsóknina, sjá upplýsingar um afgreiðslustaði rafrænna skilríkja. Ekki þarf að klára umsóknina í einni lotu, hægt er að gera hlé á útfyllingu og halda áfram þegar hentar innan næstu 60 daga.

Svar við umsókninni mun berast í þitt stafræna pósthólf hjá Ísland.is. Þú finnur stafræna póstinn þinn með því að skrá þig inn á Mínar síður á Ísland.is og velja "Pósthólf".

Áður en sótt er um

Nauðsynlegt er að þú byrjir á að kynna þér:

Hverjir þurfa mögulega ekki að sækja um

Ef þú ert norrænn ríkisborgari, barn íslensks ríkisborgara, fyrrum íslenskur ríkisborgari eða ungmenni á aldrinum 18 til 20 ára nægir hugsanlega að senda Útlendingastofnun tilkynningu eða beiðni í stað umsóknar til að öðlast íslenskt ríkisfang.

Tilkynningar og beiðnir eru einfaldari í afgreiðslu en almennar umsóknir og því mælum við með því að þú kannir fyrst hvort það eigi við um þig.

Kostnaður

Gjald fyrir umsókn um íslenskan ríkisborgararétt er 27.000 kr.

Greiða þarf fyrir umsóknina í síðasta skrefi stafræna umsóknarferlisins til þess að geta sent inn umsóknina.

Aðeins þarf að greiða eitt gjald þótt einnig sé sótt um fyrir börn.

Ferli

Ef þú uppfyllir öll skilyrði sem sett eru í lögum um íslenskan ríkisborgararétt er gefið út ríkisfangsbréf sem þú færð sent í bréfpósti. Þú færð einnig tilkynningu um að þú getir sótt frumrit vottorða, sem þú lagðir fram með umsókn, til Útlendingastofnunar.

Eftir að þú hefur fengið íslenskt ríkisfang geturðu sótt um íslenskt vegabréf. Sótt er um vegabréf hjá sýslumannsembættum.

Ef þú uppfyllir ekki skilyrði fyrir veitingu verður þér synjað um íslenskt ríkisfang. Þú færð ákvörðunina senda í ábyrgðarpósti.

Lög og reglugerðir

Lög um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952
Reglugerð um próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 1129/2008

Sækja um ríkisborgararétt

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun