Ríkisborgararéttur fyrir norræna ríkisborgara
Danskur, finnskur, norskur eða sænskur ríkisborgari, sem orðið hefur slíkur sjálfkrafa, getur að ákveðnum skilyrðum uppfylltum fengið íslenskt ríkisfang með því að óska eftir því við Útlendingastofnun.
Að öðlast ríkisfang sjálfkrafa þýðir að viðkomandi hafi ekki verið veittur ríkisborgararéttur með lögum eða samsvarandi heldur hafi fengið hann til að mynda við fæðingu.
Skilyrði
Umsækjandi skal hafa náð 18 ára aldri,
hafa átt lögheimili hér á landi síðustu þrjú árin og
hafa ekki á því tímabili verið dæmdur í fangelsi, til að sæta öryggisvist eða hælisvist samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga.
Ef norrænn ríkisborgari uppfyllir ekki skilyrðin hér að ofan, getur hann lagt inn almenna umsókn um íslenskan ríkisborgararétt og þarf þá að hafa verið búsettur hér á landi í fjögur ár. Sjá stafræna umsókn um íslenskan ríkisborgararétt.
Umsókn
Umsóknir er aðeins hægt að leggja fram á pappírsformi.
Þeim má skila í þar til gerðan póstkassa í anddyri Útlendingastofnunar að Dalvegi 18 í Kópavogi eða með því að senda umsókn í bréfpósti á sama heimilisfang. Áður en það er gert er nauðsynlegt að greiða fyrir umsókn með millifærslu í banka og þarf greiðslukvittun að fylgja umsókn til staðfestingar. Einnig er hægt að leggja inn umsókn og greiða fyrir í afgreiðslu Útlendingastofnunar.
Kostnaður
Afgreiðslugjald er 13.500 krónur, sjá upplýsingar um greiðslu afgreiðslugjalds. Umsókn er ekki tekin til vinnslu fyrr en greiðsla hefur borist.
Afgreiðslutími
Hægt er að fylgjast með því hvaða umsóknir hafa verið teknar til vinnslu á síðunni staða mála og afgreiðslutími dvalarleyfa.
Fylgigögn
Sjá nánari leiðbeiningar varðandi kröfur til skjala. Ekki þarf vottun á íslensk vottorð.
Umsókn í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.
Búsetutímavottorð frá Þjóðskrá. Vottorðið tilgreinir í hvaða landi eða löndum umsækjandi hefur átt lögheimili frá upphafi lögheimilisskráningar á Íslandi til dagsins í dag.
Afrit úr vegabréfi og öllum stimpluðum síðum vegabréfs.
Staðfest afrit af frumriti fæðingarvottorðs. Frumritið skal vera vottað með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af því staðfest afrit.
Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á fæðingarvottorði. Á aðeins við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli.
Fylgigögn umsókna fyrir börn
Viðbótargögn fyrir umsækjanda, sem sækir einnig um að barn hans yngra en 18 ára hljóti ríkisborgararétt með foreldri.
Afrit úr vegabréfi barns og öllum stimpluðum síðum vegabréfs.
Staðfest afrit af frumriti fæðingarvottorðs barns. Frumritið skal vera vottað með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af því staðfest afrit.
Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á fæðingarvottorði barns. Þetta á við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli.
Forsjárgögn. Á aðeins við ef annað foreldri fer með forsjá barns. Frumrit gagna skulu vera vottuð með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af þeim staðfest afrit. Ef gögnin eru á öðru máli en ensku eða Norðurlandamáli skal fylgja staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda.
Samþykki forsjáraðila. Á aðeins við ef báðir foreldrar fara með forsjá barns.
Lög
Íslenskur ríkisborgararéttur er veittur norrænum ríkisborgurum samkvæmt 14. grein B laga um íslenskan ríkisborgararétt númer 100/1952.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun