Fara beint í efnið

Þegar þú sækir um íslenskan ríkisborgararétt vinnur Útlendingastofnun með þær upplýsingar sem þú veitir. Upplýsingarnar eru notaðar í þeim tilgangi að meta hvort þú uppfyllir skilyrði íslensks ríkisborgararéttar samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt.

Útlendingastofnun kann að afla frekari upplýsinga um þig hjá innlendum og/eða erlendum aðilum sé það nauðsynlegt vegna umsóknarinnar til þess að tryggja að upplýsingar séu réttar og/eða sannreyna gildi vottorða. Ávallt er gætt að lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga við upplýsingaöflun.

Gögn og upplýsingar sem Útlendingastofnun aflar eða kann að afla frá þriðju aðilum

  • CreditInfo - Hafi árangurslaust fjárnám verið gert hjá umsækjanda á síðastliðnum 3 árum, bú hans tekið til gjaldþrotaskipta eða hann er í vanskilum með skattgreiðslur, kemur það í veg fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar. Útlendingastofnun sækir upplýsingar til Creditinfo til staðfestingar á þessu skilyrði.

  • Skatturinn - Útlendingastofnun sækir upplýsingar til Skattsins til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði um að geta framfleytt sér. Ef framfærsla umsækjanda er ekki fullnægjandi samkvæmt framlögðum gögnum kann Útlendingastofnun að afla upplýsinga um hjúskaparmaka umsækjanda úr staðgreiðsluskrá Skattsins. Sé það gert er maka umsækjanda tilkynnt um þá skoðun.

  • Lögreglan - Útlendingastofnun ber að afla umsagnar lögreglu við vinnslu umsóknar um íslenskan ríkisborgararétt.

  • Þjóðskrá - Útlendingastofnun sækir upplýsingar til að staðfesta lögheimilisskráningu og hjúskaparstöðu og skráningu barna á sama heimili. 

  • Menntamálastofnun - Útlendingastofnun kann að afla upplýsinga um skráningu og niðurstöðu íslenskuprófs.

Verði ríkisborgararéttur veittur, áframsendir Útlendingastofnun upplýsingar til Þjóðskrár Íslands sem eru nauðsynlegar vegna skráningar í þjóðskrá .

Upplýsingar um þig kunna að vera notaðar við vinnslu seinni umsókna og/eða umsókna fjölskyldumeðlima til að tryggja að upplýsingar séu réttar.

Röng upplýsingagjöf til Útlendingastofnunar er brot á lögum um útlendinga og refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum og lögum um íslenskan ríkisborgararétt.

Nánari upplýsingar um réttindi samkvæmt persónuverndarlögum má finna í persónuverndarstefnu Útlendingastofnunar.

Sækja um ríkisborgararétt

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun