Fara beint í efnið

Reglurnar sem ráða því hver á rétt á íslensku ríkisfangi frá fæðingu hafa oft breyst í gegnum árin. Í grunninn gildir sú regla að barn sem fæðist íslenskum foreldrum öðlast sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu.

Þjóðskrá Íslands skráir íslenskt ríkisfang þess sem við fæðingu á sjálfkrafa rétt á íslensku ríkisfangi. Viðkomandi einstaklingur þarf meðal annars að leggja fram fæðingarvottorð hjá Þjóðskrá.

Rétturinn til íslensks ríkisfangs frá fæðingu byggir á því að íslenskt foreldri hafi sjálft haft íslenskt ríkisfang við fæðingu barns síns. Ísland heimilaði tvöfalt ríkisfang hinn 1. júlí 2003 en fyrir þann tíma misstu íslenskir ríkisborgarar íslenskt ríkisfang sitt þegar þeir sóttu um erlent ríkisfang. Ef foreldri hefur misst íslenskt ríkisfang fyrir fæðingu barns, þá á barn þess ekki lengur sjálfkrafa rétt á íslensku ríkisfangi, nema íslenska foreldrið sæki um endurveitingu íslensks ríkisfangs.

Barn sem fæðist einu íslensku og einu erlendu foreldri

Ef barn fæðist einu íslensku og einu erlendu foreldri þá eru það lögin sem voru í gildi við fæðingu barnsins sem skera úr um hvort það eigi eða hafi átt rétt á íslenskum ríkisborgararétti frá fæðingu. Máli skiptir hvenær barnið fæddist, hvort faðir eða móðir er íslenskur ríkisborgari, hver hjúskaparstaða foreldranna er og var við fæðingu barnsins sem og hvort barnið fæddist á Íslandi eða erlendis.

Börn fædd eftir 1. júlí 2018

Barn fætt eftir 1. júlí 2018 öðlast sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu, ef annað foreldri þess er íslenskur ríkisborgari.

Þjóðskrá Íslands sér um skráningu barna sem öðlast sjálfkrafa íslenskt ríkisfang, sjá leiðbeiningar Þjóðskrár.

Börn fædd fyrir 1. júlí 2018

  • Íslensk móðir og erlendur faðir

  • Íslenskur faðir og erlend móðir

Barn foreldris sem varð íslenskur ríkisborgari eftir fæðingu þess

Einstaklingur sem á foreldri sem varð íslenskur ríkisborgari eftir að viðkomandi fæddist getur sótt um íslenskan ríkisborgararétt með almennri umsókn. Skilyrði er að viðkomandi hafi átt lögheimili á Íslandi síðastliðin tvö ár og að foreldrið hafi verið íslenskur ríkisborgari í að lágmarki fimm ár.

Íslenskir ríkisborgarar fæddir erlendis

Hafa þarf í huga að íslenskir ríkisborgarar, sem fæddir eru erlendis og hafa aldrei átt lögheimili á Íslandi né búið eða dvalið hér á landi, geta misst ríkisfangið við 22 ára aldur. Hægt er að óska eftir því að halda íslenska ríkisfanginu með því að leggja fram umsókn hjá Útlendingastofnun.

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun