Fara beint í efnið

Umsókn um að halda íslenskum ríkisborgararétti

Umsókn um að halda ríkisborgararétti

Íslenskur ríkisborgari getur misst íslenskt ríkisfang sitt við 22 ára aldur ef hann er fæddur erlendis og hefur aldrei átt lögheimili hér á landi né dvalist hér að því marki að af því megi ráða að hann vilji vera íslenskur ríkisborgari.

Útlendingastofnun getur heimilað að einstaklingar í þessum aðstæðum haldi íslensku ríkisfangi sínu, ef sótt er um það innan þess tíma.

Skilyrði

  • Umsækjandi er yngri en 22 ára og

  • hefur búið eða dvalið á Íslandi eða átt samskipti við landið sem talin eru nægja til að halda íslensku ríkisfangi

Sérstök skilyrði gilda fyrir íslenska ríkisborgara sem hafa lögheimili í Danmörku, Noregi, Finnlandi eða Svíþjóð samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Þar kemur fram að meta skuli lögheimili í norrænu samningsríki í minnst sjö ár til jafns við lögheimili hér á landi.

Umsókn

Umsóknir er aðeins hægt að leggja fram á pappírsformi.

Þeim má skila í þar til gerðan póstkassa í anddyri Útlendingastofnunar að Dalvegi 18 í Kópavogi eða með því að senda umsókn í bréfpósti á sama heimilisfang. Einnig er hægt að leggja inn umsókn í afgreiðslu Útlendingastofnunar.

Kostnaður

Ekkert gjald er tekið fyrir umsóknir um að halda íslenskum ríkisborgararétti.

Fylgigögn

Sjá nánari leiðbeiningar varðandi kröfur til skjala. Ekki þarf vottun á íslensk vottorð.

  1. Umsókn í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.

  2. Afrit af vegabréfi ásamt rithandarsýnishorni.

  3. Afrit af vegabréfi íslensks foreldris.

  4. Staðfest afrit af frumriti fæðingarvottorðs.

    Frumritið skal vera vottað með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af því staðfest afrit.

  5. Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á fæðingarvottorði.

    Á aðeins við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli.

  6. Staðfest afrit fæðingarvottorðs íslensks foreldris.

  7. Staðfest afrit af hjúskaparvottorði íslensks foreldris, ef við á.

  8. Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á hjúskaparvottorði íslensks foreldris, ef við á
    Á aðeins við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli.

  9. Yfirlýsing íslensks foreldris um hvort tekið hafi verið upp erlent ríkisfang.

    Óskað er eftir upplýsingum um hvort, hvenær og með hvaða hætti íslenskt foreldri tók erlent ríkisfang.

  10. Búsetuvottorð frá norrænu ríki, ef við á.

  11. Upplýsingar frá tveimur einstaklingum búsettum á Íslandi um tengsl umsækjanda við landið.

    Í fylgibréfunum ber að tilgreina eins nákvæmlega og kostur er tímabil dvalar og ástæður (svo sem frí, nám, atvinnu) ásamt upplýsingum um dvalarstað. Tilgreina ber einnig hjá hverjum var dvalið og tengsl við umsækjanda.

  12. Önnur gögn sem staðfesta tengsl umsækjanda við landið.

    Staðfesting á skólagöngu eða vinnu á Íslandi getur til dæmis átt við hér.

Fylgigögn umsókna fyrir börn

Viðbótargögn sem gætu þurft að fylgja umsókn ef forsjárforeldri sækir um að barn yngra en 18 ára haldi íslenskum ríkisborgararétti.

  1. Samþykki forsjáraðila.

    Á aðeins við ef báðir foreldrar fara með forsjá barns.

  2. Forsjárgögn.

    Á aðeins við ef annað foreldri fer með forsjá barns. Frumrit gagna skulu vera vottuð með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af þeim staðfest afrit. Ef gögnin eru á öðru máli en ensku eða Norðurlandamáli skal fylgja staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda.

  3. Samþykki barns á aldrinum 12-18 ára.

Lög

Hægt er að heimila að íslenskur ríkisborgari haldi ríkisfangi sínu eftir 22 ára aldur þótt hann sé fæddur erlendis og hafi aldrei átt lögheimili á Íslandi samkvæmt 12. grein laga um íslenskan ríkisborgararétt númer 100/1952.

Umsókn um að halda ríkisborgararétti

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun