Ríkisborgararéttur fyrir börn íslenskra ríkisborgara
Gift íslensk móðir, barn fætt 1964-1982
Barn fætt fyrir 1. júlí 1982 í hjúskap móður sem er íslenskur ríkisborgari og föður sem er erlendur ríkisborgari öðlaðist ekki sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu.
Þann 1. júlí 1982 var sett ákvæði í lög um íslenskan ríkisborgararétt sem gerir fólki, fæddu á tímabilinu 1. júlí 1964 til 30. júní 1982, kleift að öðlast íslenskan ríkisborgararétt með því að óska eftir því skriflega við Útlendingastofnun.
Skilyrði
Umsækjandi skal vera fæddur á tímabilinu 1. júlí 1964 til 30. júní 1982.
Umsækjandi á íslenska móður og erlendan föður sem voru í hjúskap við fæðingu hans.
Móðir umsækjanda var með íslenskt ríkisfang frá fæðingu barns til 1. júlí 1982 hið minnsta.
Umsækjandi uppfyllir skilyrði laga um að halda íslenskum ríkisborgararétti eftir 22 ára aldur, sjá nánar hér.
Umsókn
Umsóknir er aðeins hægt að leggja fram á pappírsformi.
Þeim má skila í þar til gerðan póstkassa í anddyri Útlendingastofnunar að Dalvegi 18 í Kópavogi eða með því að senda umsókn í bréfpósti á sama heimilisfang. Áður en það er gert er nauðsynlegt að greiða fyrir umsókn með millifærslu í banka og þarf greiðslukvittun að fylgja umsókn til staðfestingar. Einnig er hægt að leggja inn umsókn og greiða fyrir í afgreiðslu Útlendingastofnunar.
Kostnaður
Afgreiðslugjald er 13.500 krónur, sjá upplýsingar um greiðslu afgreiðslugjalds. Umsókn er ekki tekin til vinnslu fyrr en greiðsla hefur borist.
Fylgigögn
Sjá nánari leiðbeiningar varðandi kröfur til skjala. Ekki þarf vottun á íslensk vottorð.
Umsókn í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.
Afrit vegabréfs umsækjanda. Rithandarsýnishorn vegabréfs skal fylgja með.
Afrit vegabréfs móður umsækjanda. Rithandarsýnishorn vegabréfs skal fylgja með.
Staðfest afrit af frumriti fæðingarvottorðs. Frumritið skal vera vottað með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af því staðfest afrit.
Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á fæðingarvottorði. Þetta á við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli.
Staðfest afrit af frumriti fæðingarvottorðs móður umsækjanda. Frumritið skal vera vottað með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af því staðfest afrit.
Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á fæðingarvottorði móður umsækjanda. Þetta á við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli.
Staðfest afrit af frumriti hjúskaparvottorðs móður umsækjanda. Frumritið skal vera vottað með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af því staðfest afrit.
Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á hjúskaparvottorði móður umsækjanda. Þetta á við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli.
Yfirlýsing móður um hvort hún hafi tekið upp erlent ríkisfang. Erlent ríkisfangsvottorð fylgi ef við á. Óskað er eftir upplýsingum um hvenær og með hvaða hætti móðir tók erlent ríkisfang.
Upplýsingar frá tveimur einstaklingum búsettum á Íslandi um samskipti umsækjanda við landið.
Búsetutímavottorð frá Þjóðskrá, ef við á. Vottorðið tilgreinir í hvaða landi eða löndum umsækjandi hefur átt lögheimili frá upphafi lögheimilisskráningar á Íslandi til dagsins í dag.
Lög
Íslenskur ríkisborgararéttur er veittur barni giftrar íslenskrar móður, fæddu frá 1. júlí 1964 til 30. júní 1982, samkvæmt 16. grein laga um íslenskan ríkisborgararétt númer 100/1952.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun