Fara beint í efnið

Erfðafjárskattur

Erfðafjárskattur er 10% af heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og útfararkostnaði.

Af dánarbúum sem stofnuðust 1. janúar 2011 til 31. desember 2020 greiðist ekki erfðafjárskattur af fyrstu 1.500.000 krónum. Af dánarbúum sem stofnuðust 1. janúar 2021 til 31. desember 2021 greiðist ekki erfðafjárskattur af fyrstu 5.000.000 krónum en af dánarbúum, sem stofnast 1. janúar 2022 til 31. desember 2022 greiðist ekki erfðafjárskattur af fyrstu 5.255.000 krónunum. Skattleysismörkin eiga ekki við þegar um fyrirframgreiddan arf er að ræða.

Við lok einkaskipta á dánarbúi þarf að greiða 12.000 krónur skiptagjald í ríkissjóð samhliða greiðslu erfðafjárskatts. Ekki þarf að greiða skiptagjald ef fjárhæð arfsins er undir skattleysismörkunum eða ef um er að ræða fyrirframgreiddan arf.

Makar þurfa ekki að greiða erfðafjárskatt. Sama gildir um sambýlisfólk sem erfir maka sinn samkvæmt erfðaskrá.

Erfðafjárskýrsla og fylgigögn

Við uppgjör dánarbús eða greiðslu á fyrirframgreiddum arfi, þurfa erfingjarnir að fylla út sérstakt eyðublað sem kallast erfðafjárskýrsla. 

Ef fólk þarf aðstoð við útfyllingu erfðafjárskýrslu getur verið skynsamlegt að leita til fagfólks, til dæmis á sviði viðskipta, bókhalds eða lögfræði.

Við uppgjör dánarbús

Þegar um uppgjör dánarbús er að ræða þurfa erfingjarnir að fylla út erfðafjárskýrslu með ítarlegu yfirliti yfir eignir og skuldir dánarbúsins og skila til sýslumanns. 

Hægt er að panta tíma hjá sýslumanni ef erfingjar telji þörf á.

Fylgigögn sem þurfa alltaf að fylgja með skýrslunni:

  • 3 síðustu skattframtöl þess látna.

  • Útprentun á stöðu bankareikninga á dánardegi að viðbættum vöxtum og verðbótum á dánardegi. Þessi gögn er hægt að nálgast í viðskiptabanka viðkomandi. 

  • Reikningar fyrir útfararkostnaði.

Gögn sem gætu þurft að fylgja með skýrslunni eftir því sem við á:

  • Yfirlit verðbréfaeignar á dánardegi. Þetta á einnig við um hlutabréf sem eru skráð á markaði.

  • Ef um er að ræða eign í félagi sem ekki er skráð á markað, þarf síðasti ársreikningur þess frá Skattinum að fylgja.

  • Gögn til stuðnings öðrum tilgreindum eignum eftir því sem við á.

  • Gögn til stuðnings öðrum tilgreindum skuldum eftir því sem við á, til dæmis ógreidd opinber gjöld.

Nauðsynlegt er að skila erfðafjárskýrslunni innan árs frá andláti.

Við útborgun á fyrirframgreiddum arfi

Þegar greiða á út fyrirframgreiddan arf þarf að fylla út erfðafjárskýrslu með upplýsingum um verðmæti arfsins og skila inn til sýslumanns. Ekki er þörf á að mæta í viðtal. 

Fyrirframgreiddur arfur getur verið eign, hlutabréf eða peningar. Ef um hlutafé er að ræða þarf síðasti ársreikningur frá Skattinum að fylgja.

Nauðsynlegt er að skila inn skýrslunni á því ári sem arfurinn er greiddur út.

Greiðsla erfðafjárskatts

Sýslumaður fer yfir erfðafjárskýrsluna og reiknar út erfðafjárskattinn. Erfingjum er síðan tilkynnt um arfinn og þeim gert að borga erfðafjárskatt af upphæðinni. Gefinn er 10 daga greiðslufrestur. Vextir leggjast á skattinn 30 dögum eftir að greiðslufrestur rennur út. 

Skattinn má borga á skrifstofu sýslumanna eða með því að millifæra, en greiðsluseðill kemur ekki í heimabanka erfingja. 

Velji fólk að millifæra er það oftast gert í einu lagi af kennitölu hins látna/arfláta. Velji erfingjar að millifæra hvert fyrir sig af eigin reikningum er mikilvægt að kennitala hins látna/arfláta komi fram í skýringu með millifærslunni. 

Ráðstafanir eigna eftir greiðslu erfðafjárskatts

Þegar erfðafjárskattur hefur verið greiddur þarf að ráðstafa eignum dánarbúsins.

Ef um fasteign er að ræða þarf að láta þinglýsa skiptayfirlýsingu eða yfirlýsingu vegna fyrirframgreidds arfs eftir því sem við á, á viðkomandi eign/eignir.

Ef um ökutæki er að ræða þarf að senda inn tilkynningu um eigendaskipti til Samgöngustofu.

Lög og reglugerðir

Lög um erfðafjárskatt

Þjónustuaðili

Sýslu­menn