Erfðafjárskattur
Arfshlutföll
Maki, börn og aðrir afkomendur þeirra
Maki erfir 1/3 hluta eigna, þegar börn eða afkomendur þeirra eru á lífi, en 2/3 hluta erfa börnin að jöfnu. Ef eitthvert barna er látið skiptist sá hlutur milli afkomenda þess. Ef látni átti ekki maka, taka börn og/eða aðrir afkomendur allan arf.
Ef látni sat í óskiptu búi
Ef látni sat í óskiptu búi skiptist arfur milli erfingja beggja hjóna í samræmi við arfshlutföll. Ef annað hjóna átti enga erfingja skiptist allur arfur milli erfingja hins.
Ef búi er skipt eftir andlát beggja hjóna fellur erfðaréttur langlífari makans niður.
Foreldrar, systkini látna og aðrir afkomendur þeirra
Ef látni átti hvorki maka né afkomendur skiptist arfur jafnt milli beggja foreldra hans.
Ef annað foreldri eru látin skiptist hlutur þess foreldris milli barna þess (systkini látna). Ef eitthvert barn þess er látið skiptist sá hlutur milli afkomenda þess og svo framvegis.
Ef það foreldri sem er látið átti engin börn fer allur arfur eftir látna til hins foreldrisins eða barna eða annarra afkomenda þess.
Ef báðir foreldrar eru látnir skiptist arfur á milli barna þeirra eða annarra afkomenda hvors fyrir sig. Ef annað foreldri átti engin börn skiptist allur arfur eftir látna milli barna eða annarra afkomenda hins foreldrisins.
Afi og amma látna eða börn þeirra
Arfur skiptist jafnt milli afa og ömmu látna ef:
látni á enga skylduerfingja þ.e. maka, börn eða aðra afkomendur.
foreldrar látna eru bæði látin.
látni á ekki systkini eða aðra afkomendur eða þau eru látin.
Ef annað hvort amma eða afi eru látin fer allur arfur eftir látna til hins eða barna þess.
Vakin er athygli á að eingöngu börn afa og ömmu eru lögerfingjar en ekki aðrir afkomendur afa og ömmu látna ef eitthvert barna þeirra er látið.
Skipting arfs ef hjón áttu ekki afkomendur
Ef hjón eru bæði látin og það sem var langlífara var einkalögerfingi hins og það á enga skylduerfingja á lífi við andlát sitt skiptist arfur milli erfingja beggja hjóna að jöfnu. Það á ekki við ef langlífari maki hefur gengið í hjónaband að nýju, átti sjálfur afkomendur á lífi eða hefur gert erfðaskrá.
Ef langlífari maki átti hvorki lögerfingja né bréferfingja þegar hann féll frá fer allur arfur til erfingja skammlífari makans.
Arfur rennur í ríkissjóð
Ef látni átti hvorki lögerfingja né bréferfingja fer arfur eftir hann í ríkissjóð.
Þjónustuaðili
Sýslumenn