Erfðafjárskattur
Erfingjar
Arfur skiptist milli erfingja eftir erfðalögum og/eða erfðaskrá.
Lögerfingjar geta verið maki, börn látna eða afkomendur þeirra, foreldrar látna, systkin látna eða afkomendur þeirra, afi og amma látna eða börn þeirra. Sama á við um kjörforeldra og kjörbörn sem hafa verið ættleidd.
Af lögerfingjum eru maki og börn látna eða afkomendur þeirra skylduerfingjar samkvæmt erfðalögum. Sama á við um kjörbörn sem hafa verið ættleidd.
Bréferfingjar eru einstaklingar eða lögaðilar sem taka arf samkvæmt erfðaskrá.
Erfingi fellur frá áður en skiptum er lokið
Ef erfingi í dánarbúi deyr áður en skiptum á því er lokið tekur dánarbú hans þann arf sem komið hefði í hlut látna og greiðir erfðafjárskatt.
Ef maki hefur fengið útgefið leyfi til setu í óskiptu búi og erfingi þess sem lést á undan fellur frá eftir útgáfu leyfis til setu í óskiptu búi fer sá arfur til dánarbús erfingjans.
Dæmi: Hjón falla frá með tíu ára millibili. Barn hjónanna deyr í millitíðinni. Við skipti á sameiginlegu búi hjónanna fer arfur eftir foreldrið sem lést á undan til dánarbús barnsins. Ef barnið lét eftir sig börn fer arfur eftir langlífara foreldrið til barnabarnanna beint.
Foreldri lést 2010 | Foreldri lést 2020 |
Erfingjar þess eru: 1. Barn 2. Barn sem lést 2015 – dánarbú þess | Erfingjar þess eru: 1. Barn 2. Barnabörn í stað látins foreldris |
Höfnun arfs
Erfingi getur ákveðið með skriflegri yfirlýsingu að hafna arfi að hluta eða öllu leyti.
Ef erfingi hafnar arfi, skal sá erfingi sem við höfnunina fær stærri arfshluta greiða erfðafjárskatt af hinum aukna arfi. Gildir það einnig um erfingja sem er undanþeginn erfðafjárskatti (maki/sambúðarmaki).
Þjónustuaðili
Sýslumenn