Mannauðstorg ríkisins: Mönnun og skipulag
Vinnufyrirkomulag
Forstöðumaður ákveður vinnufyrirkomulag og vinnutíma starfsfólks með tilliti til þjónustuhlutverks stofnunar og ákvæða laga og kjarasamninga. Sjá 17. gr. starfsmannalaga.
Æskilegt er að gera grein fyrir stefnu stofnunarinnar varðandi vinnufyrirkomulag á innri vef eða í starfsmannahandbók.
Um vinnutíma og hvíldartíma er fjallað í lögum um um 40 stunda vinnuviku og í IX. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Ítarlegri ákvæði eru í kjarasamningum og eru þau í:
2. kafla kjarasamninga við stéttarfélög opinberra starfsmanna, það er félaga sem starfa á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
3. kafla annarra kjarasamninga ríkisins, það er við félög sem starfa á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur.
Dagvinna er vinna sem unnin er á bilinu frá klukkan 08 til 17 frá mánudegi til föstudags. Heimilt er að verða við óskum starfsfólks um sveigjanlegan vinnutíma á virkum dögum. Í sumum kjarasamningum er tekið fram að slíkur sveigjanleiki sé á milli klukkan 07-18. Dagvinnumaður sem vinnur hluta af vikulegri vinnuskyldu sinni utan dagvinnutímabils getur átt rétt á að fá greitt álag á þann hluta starfs síns. Hafi starfsmaður samið um rýmkun á dagvinnutímabili (sveigjanlegan vinnutíma) greiðist ekki slíkt álag.
Fjallað er um dagvinnu og tímabil hennar í gr. 2.2 í kjarasamningum.
Dagvinna er almennt 8 klst. á dag, 40 klst. á viku eða 173,33 klst. á mánuði samkvæmt kjarasamningum. Í flestum kjarasamningum hjá ríkinu sem undirritaðir voru 2020 var samið um styttingu vinnuvikunnar. Þar kemur fram að heimilt sé að stytta vinnuvikuna um allt að 4 klukkustundir á viku eða úr 40 í 36 virkar stundir en framkvæmd styttingarinnar er samkomulag starfsfólks og viðkomandi stofnunar. Meginmarkmið breytinganna er að stuðla að umbótum í starfsemi ríkisstofnana, bæta vinnustaðamenningu og auka samræmingu vinnu og einkalífs án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu.
Vinnustund: Gæta þarf að því að velja það vinnutímaskipulag sem við á fyrir viðkomandi starfsmann. Dæmi um vinnutímaskipulag er “Dagvinnumenn með sveigjanlegan vinnutíma”.
Þar sem vinnuvikan er enn skilgreind sem 40 stundir í kjarasamningum þá er við útreikning ýmissa réttinda miðað við 8 klst. vinnudag. Til dæmis er 30 daga orlof reiknað sem 240 klst. Leiðrétt er síðan fyrir styttingu vinnuvikunnar þegar orlofið er tekið.
Vaktavinna er unnin á skipulögðum vöktum, samkvæmt fyrirfram ákveðnu fyrirkomulagi (vaktskrá) þar sem starfsfólk vinnur á mismunandi vöktum á tilteknu tímabili sem mælt er í dögum eða vikum. Hjá starfsfólki í vaktavinnu færast vikulegir frídagar til.
Ef skipulagður vinnutími starfsmanns er að jafnaði 20% eða meira utan dagvinnumarka telst viðkomandi vaktavinnumaður.
Greitt er vaktaálag fyrir vinnu utan dagvinnutímabils en yfirvinna er greidd eftir að fullri vinnuskyldu er náð ef unnið er umfram hana. Yfirvinna skiptist í Yfirvinna 1 og Yfirvinna 2.
Starfsfólk 55 ára og eldra sem vinnur reglubundna vaktavinnu skal undanþegið næturvinnu ef það óskar þess.
Þar sem unnið er á reglubundnum vöktum, skulu drög að vaktskrá er sýnir væntanlegan vinnutíma hvers starfsmanns, lögð fram sex vikum áður en fyrsta vakt samkvæmt skránni hefst. Endanleg vaktskrá skal lögð fram mánuði áður nema samkomulag sé við starfsfólk um skemmri frest.
Fjallað er um vaktavinnu í kafla 2.6 í kjarasamningum.
Breyting á vaktskrá
Ef vaktskrá er breytt með skemmri fyrirvara en 24 klst., skal viðkomandi starfsmanni greitt breytingargjald sem nemur 2% af mánaðarlaunum. Þetta á eingöngu við um breytingu á skipulagðri vakt en ekki á aukavakt. Sé fyrirvarinn 24 – 168 klst. (ein vika) er breytingagjaldið 1,3%.
Stytting vinnuvikunnar
Í flestum kjarasamningum sem gerðir voru fyrir ríkisstarfsmenn árið 2020 var samið um að vinnuvika starfsfólks í 100% starfi í vaktavinnu myndi styttast úr 40 klukkustundum í 36 á viku og að frekari stytting í allt að 32 klukkustundir væri möguleg og grundvallaðist á vægi vinnuskyldustunda. Breytingarnar tóku gildi 1. maí 2021.
Markmið breytinganna var að:
stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks
auka möguleika starfsfólks til að samræma vinnu og einkalíf
gera þannig störf í vaktavinnu eftirsóknarverðari.
Breytingunum var einnig ætlað að auka stöðugleika í mönnun hjá stofnunum ríkis, að draga úr yfirvinnu ásamt því að bæta öryggi og þjónustu við almenning.
Með þessum hætti breyttist launamyndun vaktavinnufólks á þann hátt að hún tekur meira mið af vaktabyrði en áður. Vaktaálagsflokkum var fjölgað og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölda og fjölbreytileika vakta. Stór hluti vaktavinnufólks vinnur hlutastarf og eru breytingarnar til þess fallnar að auka möguleika þeirra á að vinna hærra starfshlutfall og auka ævitekjur sínar.
Tengt efni
Skýrar reglur þurfa að vera um hvort og með hvaða hætti yfirvinna sé unnin á stofnun. Almennt er gert ráð fyrir að forstöðumaður eða yfirmaður óski eftir yfirvinnu eða yfirvinna sé unnin samkvæmt samþykki yfirmanns.
Samkvæmt kjarasamningum telst almennt vinna sem fer fram utan tilskilins daglegs vinnutíma starfsmanns eða reglubundinna vakta til yfirvinnu. Einnig vinna sem unnin er umfram vikulega vinnutímaskyldu þótt á dagvinnutímabili sé. Fjallað er um yfirvinnu í kafla 2.3. í kjarasamningi.
Sveigjanlegur vinnutími getur haft áhrif á hvort og hvernig yfirvinna er metin. Almennt þýðir sveigjanlegur vinnutími að starfsfólk hafi sveigjanleika hvenær vinna er unnin samkvæmt nánari ákvörðun og samkomulagi. Mikilvægt er að skýrt komi fram í stefnu stofnunar hvernig vinnuskilum er háttað, hvernig vinnuskilum er jafnað út á milli daga, vikna eða launatímabila.
Taka skal fram í ráðningarsamningi hvort greiða eigi fyrir yfirvinnu eða ekki. Ef um sveigjanlegan vinnutíma er að ræða skal það tilgreint í ráðningarsamningi.
Vinnustund: Hægt er að setja upp mismunandi vinnufyrirkomulag í Vinnustund varðandi greiðslu yfirvinnu.
Tengt efni
Samkvæmt kjarasamningum er heimilt að ráða starfsfólk í tímavinnu í ákveðnum tilvikum. Þá er starfsfólki greitt tímavinnukaup. Meginreglan er þó að starfsfólk er ráðið til starfa í ákveðnu starfshlutfalli, ótímabundið og með þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Í flestum kjarasamningum er tímavinna heimiluð í eftirfarandi tilvikum:
Vegna tímabundinna verkefna, þó ekki lengur en í tvo mánuði.
Til að vinna að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum.
Vegna óreglubundinna starfa í lengri eða skemmri tíma, þó aðeins í algjörum undantekningartilvikum.
Við ráðningu lífeyrisþega sem vinna hluta úr starfi.
Við ráðningu stundakennara í framhaldsskólum sem sinna minna en 25% starfi.
Réttindi starfsfólks í tímavinnu er mun minni en starfsfólks sem ráðið er í fast starfshlutfall.
Veikindaréttur starfsfólks í tímavinnu
Starfsfólk sem ráðið er í tímavinnu eða skemur en í tvo mánuði er með eftirfarandi veikindarétt á hverjum 12 mánuðum (Sjá gr. 12.2.2 í kjarasamningum):
Á 1. mánuði í starfi - 2 dagar
Á 2. mánuði í starfi - 4 dagar
Á 3. mánuði í starfi - 6 dagar
Eftir 3 mánuði í starfi - 14 dagar
Eftir 6 mánuði í starfi - 30 dagar
Telja skal almanaksdaga í veikindum tímavinnustarfsfólks eins og almennt gildir í veikindum. Eftirlaunaþegar í tímavinnu eru með eins mánaðar veikindarétt á hverjum 12 mánuðum. Laun í veikindum skal miða við meðaltal dagvinnulauna síðustu 3 mánuði fyrir veikindi ( Sjá gr. 12.2.3 í kjarasamningum).
Uppsagnarfrestur starfsfólks í tímavinnu
Starfsfólk í tímavinnu hefur einnar viku uppsagnarfrest, talið frá föstudegi fyrstu 3 mánuði starfstímans. Eftir þriggja mánaða starf er gagnkvæmur uppsagnarfrestur einn mánuður.
Tímavinna eða mánaðarlaun?
Ekki eru til fastar reglur um hvort greidd skuli tímavinna eða mánaðarlaun. Meginreglan er að starfsfólk sem ráðið er í fast starfshlutfall fái greidd mánaðarlaun. Oft er miðað við að föst mánaðarlaun skuli miðast við a.m.k. 1/3 hluta fulls starfs. Framhaldsskólakennarar eiga þó rétt á föstum mánaðarlaunum ef starf þeirra er 25% starf eða meira.
Í starfsmannalögunum kemur fram að þau gildi um starfsfólk sem ráðið er til lengri tíma en eins mánaðar og starf skuli vera aðalstarf viðkomandi starfsmanns. Í samkomulagi samningsaðila um reglur um réttindi lausráðinna starfsmanna ríkisins töldust þeir starfsmenn lausráðnir sem ráðnir voru til minna en 1/3 hluta starfs. Þá er starfsmönnum í minna en 1/3 hluta starfs ekki heimill aðgangur að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins samkvæmt samþykktum sjóðsins.
Sjá nánar um tímavinnukaup.
Með bakvakt er átt við að starfsfólk sé ekki við störf en reiðubúið að sinna útköllum. Með útkalli er almennt átt við kvaðningu til vinnu sem felur í sér að starfsfólk þarf að mæta á tiltekinn vinnustað. Eðlilegt er að bakvaktir séu skipulagðar með mánaðar fyrirvara með sama hætti og vaktir. Ef starfsmaður dvelst á vinnustað samkvæmt fyrirmælum yfirmanns telst það ekki bakvakt.
Sú binding sem bakvaktin felur í sér er greidd með bakvaktarálagi. Mikilvægt er að skýrt sé í upphafi hvað telst útkall. Sem dæmi gæti fyrirspurn sem afgreidd er í símtali verið skilgreind sem útkall í einu starfi en ekki í öðru.
Starfsfólk á rétt á bakvaktarálagi í veikindum enda sé um skipulagða bakvakt að ræða.
Nánar er fjallað um bakvaktir í kafla 2.5 og bakvaktagreiðslur í kafla 1.6 í kjarasamningum.
Í einstaka kjarasamningum geta verið sérákvæði um bakvaktir, bakvaktargreiðslur og bakvaktarfrí sem eru frábrugðin almennum bakvaktarákvæðum. Til dæmis eru gæsluvaktir lækna tvenns konar. Gæsluvakt 1 felur í sér að læknir skal koma á vinnustað án tafar í útkalli og Gæsluvakt 2 felur í sér að læknir má vera allt að 2 klst. að komast á vettvang.
Tengt efni
Í vinnutímakafla kjarasamninga er kveðið á um hvíldartíma sem er 11 stunda dagleg samfelld lágmarkshvíld og vikulegan hvíldardag sem tengist beint daglegum hvíldartíma. Þar kemur einnig fram að heimilt sé að stytta samfellda lágmarkshvíld í allt að 8 stundir þegar um skipuleg vaktaskipti er að ræða.
Frítökuréttur skapast þegar starfsmaður er sérstaklega beðinn um að mæta aftur til vinnu áður en 11 stunda lágmarkshvíld er náð.
Frítökuréttur er venjulega 1,5 stund fyrir hverja stund sem hvíld skerðist.
Frítökuréttur fyrnist ekki og áunnin frítökuréttur greiðist út við starfslok.
Stytting vinnuvikunnar
Á þeim vinnustöðum þar sem er hámarks stytting vinnuvikunnar, þ.e. stytting úr 40 í 36 virkar vinnustundir, er grein kjarasamninga um matar- og kaffitíma á dagvinnutímabili óvirk, yfirleitt grein 3.1.
Í því felst að ekki eru skilgreindir sérstakir matar- og kaffitímar á forræði starfsfólks eins og áður. Starfsfólk fær engu að síður að borða hádegismat eða sækja sér kaffibolla þó ekki sé um formlegt hlé í skilningi kjarasamnings að ræða. Við lágmarks styttingu (13 mínútur á dag eða 65 mínútur á viku) haldast matar- og kaffitímar óbreyttir samkvæmt kjarasamningi.
Matar- og kaffitímar dagvinnufólks
Samkvæmt kjarasamningi eiga dagvinnumenn rétt á 30 mínútna ólaunuðu matarhléi. Auk þess er kveðið á um tvo kaffitíma, 15 og 20 mínútur og eru þeir launaðir. Ef starfsfólk myndi nýta ólaunað matarhlé og 35 mínútna kaffihlé væri vinnudagurinn 8 klukkustundir og 30 mínútur. Til að stytta vinnudaginn hefur verið samið um að nýta kaffitímana sem matarhlé.
Útfærslan er tvennskonar: á sumum stofnunum er matarhlé 30 mínútur en öðrum 35 mínútur. Dagleg viðvera þar sem matarhlé er 30 mínútur er því 7 klst. og 55 mínútur en þar sem matarhlé er 35 mínútur er viðveran 8 klst.
Nánar tiltekið eru ákvæði kjarasamninga í kafla 3.1 um matar- og kaffitíma á dagvinnutímabili svohljóðandi:
3.1.1 Matartími, 30 mín., skal vera á tímabilinu kl. 11:30 - 13:30 og telst hann eigi til vinnutíma.
3.1.2 Heimilt er að lengja, stytta eða fella niður matartíma með samkomulagi fyrirsvarsmanna stofnunar og einfalds meirihluta þeirra starfsmanna sem málið varðar.
3.1.3 Sé matartíma á dagvinnutímabili breytt skv. gr. 3.1.2, lýkur dagvinnutímabili þeim mun síðar eða fyrr. Séu matartímar lengdir skv. gr. 3.1.2 telst lengingin ekki til vinnutímans.
3.1.4 Á venjulegum vinnudegi skulu vera tveir kaffitímar, 15 mín. og 20 mín., og teljast þeir til vinnutíma.
3.1.5 Kaffitíma má lengja, stytta eða fella niður með sama hætti og matartíma.
Matar- og kaffitímar vaktavinnufólks
Starfsfólk í vaktavinnu hefur ekki sérstaka matar- og kaffitíma. Starfsfólki er þó heimilt að neyta matar og kaffis við vinnu sína á vaktinni þegar því verður við komið starfsins vegna.
Starfsfólk sem er við störf á föstum vinnustað í ákveðið langan tíma og eftir nánari ákvæðum kjarasamnings, skal hafa aðgang að matstofu eftir því sem við verður komið. Matstofa telst þá yfirleitt sá staður þar sem hægt er að bera fram heitan og kaldan mat, aðfluttan eða eldaðan á staðnum. Húsakynni og aðstaða skulu vera í samræmi við kröfur viðkomandi heilbrigðisyfirvalda. Starfsfólk greiðir efnisverð matarins en annar rekstrarkostnaður greiðist af viðkomandi stofnun.
Á þeim vinnustöðum þar sem ekki er starfrækt mötuneyti, skal reynt að tryggja starfsfólki, sem ætti annars að fá aðgang að mötuneyti, aðgang að nærliggjandi mötuneyti á vegum stofnunar eða láta í té útbúnað til að flytja matinn á matstofu vinnustaðar þannig að starfsfólki sé flutningur matarins að kostnaðarlausu.
Ef stofnunin kaupir mat af þriðja aðila skal starfsfólk greiða fyrir sambærilegan mat upphæð er svarar til meðaltalsverðs í mötuneytum Stjórnarráðsins. Í kafla 3 í flestum kjarasamningum er fjallað um fæði, mötuneyti og fæðisfé.
Þar sem boðið er upp á mat í hádeginu getur starfsfólk ekki fengið greitt fæðisfé.
Fæðisfé
Starfsfólk sem hefur ekki aðgang að matstofu en ætti að hafa það samkvæmt kjarasamningi á að fá það bætt með fæðispeningum. Fæðispeningar hækka í samræmi við matvörulið vísitölu neysluverðs. Skilyrði fyrir greiðslu fæðisfé eru eftirfarandi skv. kjarasamningum:
Vinnuskylda sé að minnsta kosti hálft starf.
Vinnuskyldan sé á tímabilinu 11.00 - 14:00 að frádregnu matarhléi.
Matarhlé sé aðeins ½ klst.
Fæðisfé vaktavinnufólks
Starfsfólk á vakt skal fá fæðisfé ef matstofa vinnustaðar er ekki opin. Vinnuskylda skal vera a.m.k. 1 klst. fyrir og 1 klst. eftir umsamda matartíma (gr. 3.4.5). Með umsömdum matartímum er átt við tímabilin 11:30 – 13:30, 19:00 – 20:00 og 03:00 – 04:00 (gr. 3.2.1) og gildir þó samið hafi verið um niðurfellingu matartíma vegna styttingar vinnuvikunnar.
Fæðisfé og fjarvinna
Starfsfólk sem hefur aðgang að mötuneyti en vinnur af og til heima hjá sér í fjarvinnu fær ekki greitt fæðisfé. Mikilvægt er að fjallað sé ítarlega um fjarvinnu í viðverustefnu vinnustaðarins og að fjarvinnusamningar við starfsfólk séu skýrir varðandi réttindi og skyldur starfsfólks og stofnunar.
Tengt efni
Grunnurinn að hvíldartímaákvæðum kjarasamninga var lagður með samningi fjármálaráðherra o.fl. við ASÍ, BHM, BSRB og KÍ um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma frá 23. janúar 1997. Í samningnum er meðal annars kveðið á um daglegan hvíldartíma og hlé frá störfum, vikulegan hámarksvinnutíma, vernd næturvinnustarfsmanna, frávik o.fl. Samkvæmt 14. gr. samningsins starfar samráðsnefnd aðila um skipulag vinnutíma og má vísa ágreiningsmálum til hennar til umfjöllunar og úrlausnar.
Finnurðu ekki það sem þig vantar?
Hvernig getum við aðstoðað?
Mannauðstorg ríkisins
Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.