Störf við hæfi eru ein meginforsenda fyrir búsetuvali og búsetufrelsi. Ríkisstjórnin og Alþingi hafa markað þá stefnu að störf ríkisins skuli almennt ekki vera staðbundin. Í sáttmála ríkisstjórnar frá nóvember 2021 segir að „til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.“ Sama orðalag er að finna í einróma samþykkt Alþingis á stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036. Þar er jafnframt sett fram aðgerð til að ná fram þessari stefnu. Markmið með aðgerðinni, aðgerð B.7 Óstaðbundin störf, er að búsetufrelsi verði eflt með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni. Aðgerðinni er ætlað hækka hlutfall stöðugilda á vegum ríkisins á landsbyggðinni og styrkja þannig búsetu í byggðum landsins. Aðgerðin felur ekki í sér flutning starfa út fyrir landsteinana, né heldur flutning starfa af landsbyggð á höfuðborgarsvæði.
Störf á vegum ríkisins eru hlutfallslega mun fleiri á höfuðborgarsvæðinu en í öðrum landshlutum, líkt og samantekt Byggðastofnunar ber með sér, en skýr vilji ríkisins er til þess að störfin dreifist jafnar um landið. Með því er stuðlað að auknu búsetufrelsi og mengi hæfra umsækjenda stækkað. Áréttað er að hér eftir sem hingað til skal að sjálfsögðu ráða hæfasta umsækjenda í laust starf hverju sinni. Þar sem markmiðið er að styðja við byggðaþróun og jafna dreifingu ríkisstarfa, felst ekki í aðgerðinni að auglýsa beri störf óstaðbundin sem þegar eru staðsett á landsbyggðinni.
Mikilvægt er að gera greinarmun á fjarvinnu/heimavinnu og óstaðbundnu starfi. Ekki er gert ráð fyrir því að óstaðbundin störf séu unnin á heimili starfsmanns og því þarf að huga að því að viðeigandi starfsaðstaða sé fyrir hendi innan vinnusóknarsvæðis viðkomandi starfsmanns. Þar má hafa til hliðsjónar upplýsingar á vef Byggðastofnunar um húsnæði fyrir óstaðbundin störf . Upplýsingarnar eru uppfærðar reglulega.
Starfsemi ríkisins er fjölbreytt og ljóst er að ekki er hægt að sinna öllum störfum óstaðbundið. Hver stofnun þarf að skilgreina hvaða störf það eru sem geta verið óstaðbundin og hvaða störf falla ekki þar undir og er það á ábyrgð stjórnenda.
Hér á eftir eru sett fram viðmið fyrir stjórnendur að styðjast við. Viðmiðunum er m.a. ætlað að koma í veg fyrir misskilning og óþarfa árekstra og að starfsfólk viti að hverju það gengur þegar það ræður sig í óstaðbundið starf. Þrátt fyrir viðmiðin er mikilvægt að sveigjanleiki sé fyrir hendi, sem á bæði við um stjórnendur og starfsfólk.
Taka skal skýrt fram í auglýsingu starfs hvort um staðbundið eða óstaðbundið starf sé að ræða, bæði með texta og með merkingum inni á Starfatorgi. Ef það er staðbundið þarf að koma fram hvar starfið skal unnið, hvort sem er í tilteknu sveitarfélagi (og þá væntanlega tilteknu húsnæði) eða á tilteknu landssvæði (og þá mögulega óstaðbundið innan þess landshluta). Sé starfið óstaðbundið getur það verið unnið hvar sem er á landinu.
Stofnun ber ábyrgð á heilbrigði og öryggi starfsfólks í samræmi við vinnuverndarlög og kjarasamninga. Stofnun og trúnaðarmenn eiga að hafa aðgang að þeim stað þar sem óstaðbundið starf fer fram til að geta staðfest að viðeigandi reglum um heilbrigði og öryggi sé fylgt, þó með þeim takmörkum sem lög og kjarasamningar geyma.
Starfsfólk hefur sömu vinnutímaskyldu og sömu starfskjör hvort sem um sé að ræða staðbundið eða óstaðbundið starf en hins vegar kann, til að taka tillit til sérstöðu óstaðbundinna starfa, að vera nauðsynlegt að gera sérstakar viðbætur við ráðningarsamninga.
Stefna vinnustaðar á almennt við um alla starfsmenn, sama hvar þeir búa. Það á t.d. við um styrki vegna síma, nettengingar og líkamsræktar. Gæta skal jafnræðis þegar kemur að fæðiskostnaði og samgöngustyrkjum í og úr vinnu.
Góð og örugg vinnuaðstaða sem uppfyllir nútímakröfur er lykillinn að því að hægt sé að ná fram því besta hjá starfsfólki. Hún stuðlar að góðum árangri og helgun í starfi. Hér má hafa til hliðsjónar viðmið Framkvæmdasýslu ríkisins um vinnuumhverfi. Stofnun útvegar allan almennan búnað sem krafist er, líkt og starfið væri innt af hendi á hefðbundinni starfsstöð. Öll álitaefni er varða búnað, ábyrgð og kostnað skulu skilgreind á skýran hátt. Ekki er greidd leiga fyrir starfsaðstöðu á heimili starfsfólks.
Útfærsla skipulags vinnu, samskipta og funda er á ábyrgð stjórnenda og viðkomandi starfsfólks. Ljóst er að sum óstaðbundin störf fela í sér einhverja viðveru í höfuðstöðvum á meðan önnur gera það ekki. Ef starfið felur í sér viðveru í höfuðstöðvum þarf að útfæra hana og gera ráðstafanir þar að lútandi. Skilgreina þarf í upphafi hvernig fyrirkomulagi ferða starfsmanns í höfuðstöðvar eða á milli starfsstöðva er háttað með tilliti til kostnaðar og tíðni. Þ.e.a.s. hvað/hvort starfsmaður skuli fá greitt í formi dagpeninga eða til fallins kostnaðar, hvernig ferðamáti skuli notaður og hve tíðar slíkar ferðir séu. Gæta þarf jafnræðis og bjóða upp á að starfsmannafundir séu jafnframt í boði sem fjarfundir.
Einn af lykilþáttum varðandi helgun starfsfólks í starfi er að það upplifi sig sem hluta af heild. Vel tengt starfsfólk er tilbúið að leggja meira á sig, er ánægðara í starfi, veitir betri þjónustu og er afkastameira. Áskorun getur falist í því fyrir stjórnanda og samstarfsfólk að viðhalda góðum starfsanda og vinnustaðamenningu þegar hluti starfsfólks starfar ekki á hefðbundinni starfsstöð. Aukin ábyrgð hvílir því á stjórnendum og starfsfólki að viðhalda góðum starfsanda og tengslum fólks bæði í stað- og óstaðbundnum störfum. Huga þarf sérstaklega vel að upplýsingaflæði og gæta þess að fólk einangrist ekki faglega sem og félagslega. Æskilegt er að stofnun setji sér viðmið um hvaða viðburði að lágmarki verði greitt fyrir fólki í óstaðbundnum störfum að sækja (t.d. árshátíð). Dæmi eru þegar til um stofnun þar sem hver starfsmaður sem býr fjarri höfuðstöðvunum hefur tiltekna upphæð sem hann getur ráðstafað að vild til að taka þátt í félagslegum viðburðum.
Stofnun ber ábyrgð á að hugbúnaður sem starfsfólk notar við starf sitt uppfylli kröfur um vernd gagna. Stofnun upplýsir starfsfólk um ákvæði laga og reglur vinnustaðarins varðandi verndun gagna. Starfsfólk ber ábyrgð á því að fylgja þessum reglum.