Fara beint í efnið

Mannauðstorg ríkisins: Mönnun og skipulag

Óstaðbundin störf

Störf við hæfi eru ein meginforsenda fyrir búsetuvali og búsetufrelsi. Ríkisstjórnin og Alþingi hafa markað þá stefnu að störf ríkisins skuli almennt ekki vera staðbundin. Í sáttmála ríkisstjórnar frá nóvember 2021 segir að „til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.“ Sama orðalag er að finna í einróma samþykkt Alþingis á stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036. Þar er jafnframt sett fram aðgerð til að ná fram þessari stefnu. Markmið með aðgerðinni, aðgerð B.7 Óstaðbundin störf, er að búsetufrelsi verði eflt með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni. Aðgerðinni er ætlað hækka hlutfall stöðugilda á vegum ríkisins á landsbyggðinni og styrkja þannig búsetu í byggðum landsins. Aðgerðin felur ekki í sér flutning starfa út fyrir landsteinana, né heldur flutning starfa af landsbyggð á höfuðborgarsvæði.

Störf á vegum ríkisins eru hlutfallslega mun fleiri á höfuðborgarsvæðinu en í öðrum landshlutum, líkt og samantekt Byggðastofnunar ber með sér, en skýr vilji ríkisins er til þess að störfin dreifist jafnar um landið. Með því er stuðlað að auknu búsetufrelsi og mengi hæfra umsækjenda stækkað. Áréttað er að hér eftir sem hingað til skal að sjálfsögðu ráða hæfasta umsækjenda í laust starf hverju sinni. Þar sem markmiðið er að styðja við byggðaþróun og jafna dreifingu ríkisstarfa, felst ekki í aðgerðinni að auglýsa beri störf óstaðbundin sem þegar eru staðsett á landsbyggðinni.

Mikilvægt er að gera greinarmun á fjarvinnu/heimavinnu og óstaðbundnu starfi. Ekki er gert ráð fyrir því að óstaðbundin störf séu unnin á heimili starfsmanns og því þarf að huga að því að viðeigandi starfsaðstaða sé fyrir hendi innan vinnusóknarsvæðis viðkomandi starfsmanns. Þar má hafa til hliðsjónar upplýsingar á vef Byggðastofnunar um húsnæði fyrir óstaðbundin störf . Upplýsingarnar eru uppfærðar reglulega.


Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?

merki

Mannauð­s­torg ríkisins

Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.