Mannauðstorg ríkisins: Mönnun og skipulag
Starfslýsingar
Starfslýsingar gegna því hlutverki að skýra inntak og ábyrgðarsvið starfa. Starfslýsing er skrifleg lýsing á starfi þar sem eðli og eiginleikar starfs eru skilgreindir með kerfisbundnum hætti. Hún samanstendur af nákvæmri lýsingu á verkefnum, ábyrgð, álagi og vinnuumhverfi.
Starfslýsingar fyrir öll störf
Nauðsynlegt er að starfslýsingar séu til fyrir öll störf á stofnun. Samkvæmt 8. gr. starfsmannalaga getur hver sá sem starf veitir sett starfsmanni erindisbréf (starfslýsingu) enda skuli að jafnaði setja starfsmanni slík fyrirmæli óski hann þess, hvort sem það varðar starf hans almennt eða einstaka grein þess eða greinar.
Stjórnunarréttur vinnuveitanda
Starfslýsingar takmarka ekki eðlilegan stjórnunarrétt stjórnenda, svo sem ákvarðanir um skipulag vinnunnar, hvaða verk skuli vinna, hver skuli vinna þau, með hvaða hætti, hvenær og hvar. Ákvarðanir sem teknar eru dags daglega um störf og verksvið einstakra starfsmanna rúmast jafnan innan þeirra heimilda sem felast í reglunni um „stjórnunarrétt vinnuveitanda".
Notkun starfslýsinga
Starfslýsing er einn af grunnþáttum mannauðsstjórnunar og er notuð m.a. við ráðningar, dagleg störf, starfsmannasamtöl og starfsþróun. Starfslýsing er nauðsynleg við mat á inntaki starfa fyrir jafnlaunavottun.
Starfslýsing gegnir einnig því hlutverki að auðvelda greiningu á fræðsluþörfum, skilgreina viðmið fyrir nýráðningar og grunnur fyrir mat stofnunar á mannaflaþörf til framtíðar.
Starfslýsingum er ætlað að taka breytingum í samræmi við starfsemi stofnana. Mælst er til þess að starfslýsingar séu yfirfarnar í starfsmannasamtali.
Sniðmát
Framsetning starfslýsinga getur verið breytileg á milli stofnana en mikilvægt er hver stofnun styðjist við samræmt sniðmát til að tryggja samræmda framsetningu og innihald starfslýsinga.
Finnurðu ekki það sem þig vantar?
Hvernig getum við aðstoðað?
Mannauðstorg ríkisins
Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.