Hvað gera Sjúkratryggingar?
Hér er yfirlit yfir þá þjónustu sem Sjúkratryggingar veita og helstu málaflokka sem stofnunin ber ábyrgð á.
Hjálpartæki
Starfsmenn Sjúkratrygginga veita ráðgjöf varðandi hjálpartæki, meta umsóknir og úthluta tækjunum. Auk þess er starfrækt verkstæði þar sem tekið er á móti hjálpartækjum og þau meðal annars metin með tilliti til endurnýtingar. Endurnýtanleg tæki eru þrifin, lagfærð og gerð tilbúin til úthlutunar að nýju. Einnig halda Sjúkratryggingar utan um lager af hjálpartækjum ásamt því að dreifa tækjum á fjölmarga ytri lagera sem staðsettir eru á heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið.
Dæmi um hjálpartæki eru sjúkrarúm, hjólastólar, tjáskiptatölvur og margt fleira en einnig koma Sjúkratryggingar að breytingum á bílum til að koma fyrir hjólastól. Þá taka Sjúkratryggingar þátt í kostnaði vegna meðferðarhjálpartækja, en þar undir falla til dæmis spelkur, öndunarvélar, bleiur og sykursýkisbúnaður.
Greiðslur vegna þjónustu sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana
Samningar eru í gildi við sjúkrahús og ýmsar sjúkrastofnanir um að veita almenningi þjónustu og sjá Sjúkratryggingar um greiðslur vegna hennar. Hér má sem dæmi nefna Reykjalund, SÁÁ og heilsustofnunina í Hveragerði. Þá eru í gildi samningar við Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri um þjónustu sem byggir á svokallaðri framleiðslutengdri fjármögnun, sem þýðir að þau fá greitt til samræmis við veitta þjónustu.
Greiðslur vegna þjónustu heilsugæslustöðva
Sjúkratryggingar bera ábyrgð á að greiða fyrir þjónustu við almenning á heilsugæslustöðvum, bæði opinberum og einkareknum. Greiðslurnar eru byggðar á sérstöku greiðslulíkani sem haldið er utan um hjá Sjúkratryggingum.
Greiðslur vegna þjónustu hjúkrunarheimila
Sjúkratryggingar gera samninga við hjúkrunarheimili og sjá um greiðslur til þeirra fyrir veitta þjónustu.
Lyf
Sjúkratryggingar sjá um niðurgreiðslu lyfja, sem njóta greiðsluþátttöku, út frá sérstöku greiðsluþátttökukerfi og reikna út greiðsluhluta sjúklinga hverju sinni, ásamt því að afgreiða umsóknir um lyfjaskírteini og fleira. Sjúkratryggingar hafa heimild til að gefa út lyfjaskírteini sem veita greiðsluþátttöku í lyfjum sem annars falla ekki undir greiðsluþátttöku.
Heilbrigðisþjónusta erlendis
Sjúkratryggingar gefa út evrópska sjúkratryggingakortið, afgreiða umsóknir um meðferð erlendis og sjá um greiðslur til sjúkrastofnana eða einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu erlendis.
Heilmikil umsýsla fer fram hjá Sjúkratryggingum vegna greiðslna til systurstofnana erlendis (vegna sjúkratryggðra á ferð erlendis) og endurkrafna á hendur þeim (vegna erlendra ferðamanna hér á landi).
Slysatryggingar
Fyrst og fremst vinnuslys, slys við heimilisstörf og íþróttaslys. Mat á umsóknum, endurgreiðsla kostnaðar og eftir atvikum mat á örorku.
Sjúklingatrygging
Metinn er réttur til skaðabóta vegna tjóns sem rakið verður til ófullnægjandi sjúkdómsmeðferðar eða rannsókna eða ef upp koma sjaldgæfir og alvarlegir fylgikvillar meðferðar.
Tannlækningar
Greiddur er kostnaður vegna tannlækninga barna og lífeyrisþega og ef um alvarlegar afleiðingar sjúkdóma eða slysa er að ræða.
Sérgreinalækningar, sjúkraþjálfun, ljósmæðraþjónusta og fleira
Sjúkratryggingar sjá um greiðslur vegna þjónustu sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna. Auk þess halda Sjúkratryggingar utan um sérstakt greiðsluþátttökukerfi sem reiknar út greiðslur sjúklinga hverju sinni. Ef sjúklingar hafa greitt of mikið er kostnaðurinn endurgreiddur í samræmi við lög og reglur.
Sjúkraflutningar
Sjúkratryggingar greiða fyrir sjúkraflutninga með sjúkrabifreiðum og fyrir sjúkraflug.
Ferðakostnaður innanlands
Greiðslur til þeirra sem þurfa að leita heilbrigðisþjónustu utan heimabyggðar.
Sjúkradagpeningar
Þau sem verða óvinnufær vegna veikinda lengur en 21 dag og eiga ekki rétt til launa geta átt rétt á sjúkradagpeningum. Námsmenn geta einnig átt rétt til dagpeninga.
Ýmsir smærri málaflokkar
Sjúkratryggingar halda utan um ýmsa aðra þjónustu sem varðar heilbrigði og velferð almennings.
Samningar, eftirlit og greiningar
Hjá Sjúkratryggingum eru starfræktar hagdeild, samningadeild og eftirlitsdeild. Sjúkratryggingum ber samkvæmt lögum að kostnaðargreina heilbrigðisþjónustu, meta gæði hennar og gera samninga við þjónustuveitendur.
Fjölmargir samningar eru gerðir við sjúkrastofnanir, sjúkraflutningsaðila, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn, birgja vegna hjálpartækja og aðra einkaaðila. Á árinu 2021 voru gerðir um 340 samningar á vegum Sjúkratrygginga og árið 2022 voru samningarnir um 350 talsins.