Stefnur
Hér má finna helstu stefnur Sjúkratrygginga:
Hlutverk Sjúkratrygginga er að huga að gangverki heilbrigðiskerfisins og tryggja aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu.
Tryggjum aðstoð til verndar heilbrigði, óháð efnahag
Stuðlum að rekstrarlegri og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu
Ástundum markviss og fagleg kaup á heilbrigðisþjónustu og stuðlum að gagnsæi um gæði, árangur og kostnað
Upplýsingaöryggisstefna Sjúkratrygginga lýsir áherslu á verndun gagna og upplýsingakerfa ásamt öryggi í upplýsingavinnslu. Stefnan er grunnstoð í stjórnkerfi upplýsingaöryggis og hefur skírskotun í ISO 27001:2013 staðal um upplýsingaöryggi.
Stjórnkerfi upplýsingaöryggis Sjúkratrygginga nær til þess vélbúnaðar, hugbúnaðar, þjónustu, ferla, starfsfólks og húsnæðis sem nauðsynlegt er til að viðhalda ásættanlegu þjónustustigi fyrir starfsemi Sjúkratrygginga, neytendur og veitendur heilbrigðisþjónustu. Sjúkratryggingar skuldbindur sig til að vinna að stöðugum umbótum á stjórnkerfi upplýsingaöryggis og endurskoðun til að ná fram stefnumarkmiðum.
Gögn, upplýsingakerfi og samskiptaleiðir skulu vera örugg, áreiðanleg, tiltæk og einungis aðgengileg þeim sem hafa til þess viðeigandi réttindi. Stjórnun upplýsingaöryggis er nauðsynleg leið til að draga úr rekstraráhættu og lágmarka hættu á tjóni af völdum atvika sem geta haft áhrif á starfsemi Sjúkratrygginga.
Upplýsingaöryggisstefnan styður við samfelldan rekstur og þjónustu og hámarkar öryggi gagna og upplýsingakerfa í eigu og umsjón Sjúkratrygginga. Öllum breytingum kerfa og innviða upplýsingatækni er stýrt með formlegu breytingastjórnunarferli og haldið er utan um atburðaskráningu í upplýsingatæknirekstri og hún rýnd reglubundið.
Upplýsingaöryggisstefnan er bindandi fyrir starfsfólk Sjúkratrygginga. Stefnan felur í sér skuldbindingu að vernda gögn og upplýsingakerfi gegn óheimilum aðgangi, notkun, breytingum, uppljóstrun, eyðileggingu, glötun og/eða flutningi.
Samþykkt í framkvæmdastjórn Sjúkratrygginga 31. ágúst 2021.
Upplýsingatæknistefna Sjúkratrygginga lýsir áherslu í rekstri og þjónustu upplýsingakerfa og innviðum þeirra með það markmiði að kerfi og innviðir skapi jákvæða viðskiptahvata (e. business enabler) fyrir alla starfsemi Sjúkratrygginga. Skipulagseining Upplýsingatækni ber ábyrgð á að framfylgja stefnumarkmiðum með áherslu á að veita skilvirka og faglega þjónustu til að styðja við ferla sem nýta upplýsingatækni við úrlausn verkefna.
Sjúkratryggingar leitast við að nota staðlaðar hugbúnaðarlausnir sem uppfylla kröfur til virkni, samþættingar við aðrar lausnir og öryggis í allri sinni starfsemi. Lausnir, og þjónustuaðilar þeirra, skulu metnir og valdir með hliðsjón af kröfum Sjúkratrygginga og skulu hentugustu lausnir valdar hverju sinni. Sjúkratryggingar stýra samstarfi við þjónustuaðila hugbúnaðarlausna er varðar framvindu verkefna og breytingar með formlegri og virkri birgjastjórnun. Leitast skal við að hafa fleiri birgja, en færri, hverju sinni til að dreifa áhættu.
Í þeim tilfellum þar sem Sjúkratryggingar þurfa að skapa eigin hugbúnaðarlausnir, hvort sem er heildstæð kerfi og/eða samþættingar milli kerfa, skal Sjúkratryggingar stýra þeirri vegferð og vinna eins mikið af þeim verkefnum með eigin mannskap, eins og kostur er, en þó í góðu samstarfi við þá birgja sem að málum þurfa að koma. Skal hugbúnaðargerðin byggja á bestu aðferðum hverju sinni ásamt því að leitast skal við að nýta nýjustu tækni til að lágmarka tækniskuld til framtíðar. Markmið með hugbúnaðargerðinni er að leysa af hólmi eldri hugbúnaðarlausnir.
Sjúkratryggingar eru í samstarfi við opinbera aðila um að nýta samræmdan vettvang um rafræna þjónustu og rafræna gagnamiðlun. Áhersla er á að neytendur og veitendur heilbrigðisþjónustu geti afhent umsóknir og/eða gögn á rafrænan hátt og öll ferli er verði að fullu rafræn til að stytta úrlausnartíma og minnka umsýslukostnað.
Þjónusta við notendur upplýsingakerfa og fræðsla er veitt af starfsmönnum Sjúkratrygginga til að samræma vinnubrögð og til að uppfylla skilgreint þjónustustig. Markmið þjónustu við notendur er að tryggja að þeir geti nýtt þau kerfi og innviði sem Sjúkratryggingar reka á skilvirkan máta.
Sjúkratryggingar leitast við að hýsa kerfi og innviði þeirra með það að markmiði að geta boðið út hýsingu og rekstur með reglulegu millibili til að tryggja í senn gæði og að Sjúkratryggingar njóti bestu kjara hverju sinni.
Upplýsingatæknistefnan er bindandi fyrir starfsfólk Sjúkratrygginga. Stefnan felur í sér skuldbindingu til aðila að reka og þjónusta upplýsingakerfi á hagkvæman, öruggan og skilvirkan hátt. Nánar er fjallað um upplýsingaöryggi í upplýsingaöryggisstefnu.
Samþykkt í framkvæmdastjórn Sjúkratrygginga 31. ágúst 2021.
Það er stefna Sjúkratrygginga að allt starfsfólk njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir
jafnverðmæt störf og að ómálefnalegur launamunur sé ekki til staðar. Jafnframt að öllu starfsfólki séu tryggðir jafnir möguleikar til starfa, ábyrgðar, launa, stöðuhækkana, sí- og endurmenntunar og starfsþjálfunar.
Í því markmiði skuldbindur stofnunin sig til að innleiða og viðhalda jafnlaunakerfi sem nær til alls starfsfólks. Jafnlaunakerfið felur í sér að allar launaákvarðanir séu gagnsæjar, skjalfestar og byggðar á málefnalegum forsendum. Jafnframt skuldbindur stofnunin sig til að bæta stöðugt stjórnun jafnlaunakerfisins í samræmi við kröfur staðalsins ÍST 85:2012.
Forstjóri ber ábyrgð á jafnlaunakerfi stofnunarinnar og að það standist lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Mannauðsstjóri er fulltrúi stjórnenda varðandi jafnlaunakerfi stofnunarinnar og ber ábyrgð á innleiðingu og viðhaldi þess í samræmi við staðalinn ÍST 85:2012.
Innleiðing og viðhald Sjúkratrygginga á vottuðu jafnlaunakerfi, í samræmi við gildandi lög og
reglur, felur m.a. í sér:
Framkvæmd árlegrar launagreiningar þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf til að
athuga hvort kynbundinn launamunur sé til staðar og að niðurstöður séu kynntar fyrir
starfsfólki.Setningu jafnlaunamarkmiða sem endurskoðuð eru árlega með hliðsjón af niðurstöðum
launagreiningar.Stöðugar umbætur og eftirlit með jafnlaunakerfinu og að brugðist sé við óútskýrðum
launamun og þeim frávikum sem koma fram við innri úttekt og rýni stjórnenda á kerfinu.Birtingu jafnlaunastefnunnar á innri vef og reglubundin kynning stefnunnar fyrir öllu starfsfólki.
Jafnframt að jafnlaunastefnan sé aðgengileg almenningi á vefsíðu stofnunarinnar.
Sjúkratryggingar stefna að því að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum, með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni. Sjúkratryggingar vilja leggja sitt af mörkum til að markmiðum stjórnvalda, í tengslum við Parísarsamkomulagið, sé náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar. Fram til 2030 munu Sjúkratryggingar draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um samtals 40% miðað við árið 2017.
Stefnan nær til allrar starfsemi Sjúkratrygginga reksturs, samgangna, orkunotkunar, úrgangsmyndunar, umhverfisfræðslu og endurnýtingar hjálpartækja. Í töflu 1 hér fyrir neðan má finna skrefin sem Sjúkratryggingar ætlar að taka til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.
Loftslagsstefna Sjúkratrygginga er rýnd á hverju ári af stýrihópi grænna skrefa og markmið uppfærð með tilliti til þróunar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda á milli ára. Grænu bókhaldi er skilað árlega til Umhverfisstofnunar og haft til hliðsjónar við mat á árangri. Tekið er tillit til stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Stefnan er samþykkt af framkvæmdastjórn Sjúkratrygginga og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á heimasíðu Sjúkratrygginga. Sjúkratryggingar munu fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2021.