Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Dómstólar Forsíða
Dómstólar Forsíða

Dómstólar

Þinghald

Það kallast þinghald eða dómþing þegar dómari, aðilar máls og lögmenn þeirra koma saman í dómsal.  Í upphafi setur dómari þinghald og í lokinn slítur hann því á formlegan hátt. Dómari stýrir þinghaldi og gætir þess að það fari fram eftir réttum reglum.  

Þingmálið er íslenska

Þingmálið er íslenska  og hún er notuð í dómsmálum. Það þýðir að íslenska er töluð í dómsal og skjöl sem eru lögð fram í dómsmálumskulu almennt vera á íslensku eða þýdd á íslensku. Túlkar, þýðendur og táknmálstúlkar eru því oft kallaðir til þjónustu við dómstólana. 

Þinghald getur verið opið eða lokað

Þinghöld eru að megnistefnu opin en það þýðir að áhugasamir geta fylgst með því sem þar fer fram. Í sumum málum eru þinghöld lokuð og þá geta utanaðkomandi ekki fylgst með.  

Áheyrendum getur verið vísað frá 

Dómari getur takmarkað fjölda áheyrenda við þá sem rúmast á þingstað. Þá getur hann meinað þeim aðgang sem eru yngri en 15 ára  eða þannig á sig komnir  að návist þeirra samræmist ekki góðri reglu við þinghald.

Dómari má einnig vísa einstaklingi úr þinghaldi ef návist hans truflar þingfrið eða er óviðeigandi í orði eða verki .

Talað í dómsal 

Enginn má taka til máls nema með leyfi dómara og getur hann tekið orðið af manni sem heldur sig ekki við efni máls. Áhorfendur hafa aldrei heimild til að taka til máls í þinghaldi. 

Upptökur og myndatökur 

Það má ekki hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi. Dómari getur veitt undanþágu frá þessu banni. 

Upptökur af aðilaskýrslum og vitnisburði 

Skýrslur aðila og vitna fyrir dómi eru almennt teknar upp í hljóði og mynd.  

Ákveðnar reglur gilda um afhendingu og aðgang málsaðila, brotaþola, ákæruvaldsins, verjenda og lögmanna að hljóð- og myndupptökum samkvæmt lögum.  Reglurnar gilda einnig um sendingar hljóð- og myndupptaka frá einu dómstigi til annars. 

Þingbók - skýrsla um þinghaldið 

Á dómþingi er skrifuð skýrsla um það sem fer fram, svo sem :

  • hvar og hvenær þinghald fer fram,

  • hvaða dómari tók málið fyrir,

  • gögn sem eru lögð fram,

  • hverjir mæta,

  • hvað hafi verið ákveðið um rekstur málsins og fleira.

Þessi skýrsla er kölluð þingbók. Lögmenn og aðilar máls geta fengið afrit af þingbókinni, annað hvort strax í lok þinghalds eða fengið sent í tölvupósti eftir þinghaldið. 

Áfram: Dómarar