Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Dómstólar Forsíða
Dómstólar Forsíða

Dómstólar

Mæting í dómsal

Fjöldi fólks á leið um húsnæði dómstóla dag hvern. Auk dómara og starfsfólks geta ýmsir átt erindi í dómhúsið og sumir eru þangað komnir til að mæta í dómsal.  

Hverjir mæta í dómsal?  

Einstaklingar sem mæta í dómsal, fyrir utan lögmenn og starfsfólk dómstóla, eru til dæmis: 

  • Aðilar máls eða fyrirsvarsmenn þeirra (ef aðili er fyrirtæki þá mætir fyrirsvarsmaður þess).  

  • Í einkamálum eru það stefnandi og stefndi. Yfirleitt eru aðilar með lögmenn sem mæta fyrir þá. 

  • Í sakamálum eru aðilar hinn ákærði og fulltrúi ákæruvaldsins. Í flestum tilvikum er ákærða skipaður verjandi sem mætir með honum eða fyrir hann í dómsal.  

  • Ef aðili máls er ólögráða þá þarf lögráðamaður hans að koma fram fyrir hans hönd, t.d. foreldrar fyrir hönd barna sinna.  

  • Vitni, þau sem kölluð eru sérstaklega fyrir dóm til að gefa skýrslu um atvik máls. 
     

Aðilar máls og vitni geta ekki sent fjölskyldumeðlim eða vin með umboð í sinn stað.  

Hvert á að mæta? 

Sá sem á að mæta fyrir dóm á að hafa fengið upplýsingar um það fyrir fram í hvaða dómsal og klukkan hvað hann á að mæta. Þær upplýsingar koma ýmist fram í stefnu sem birt hefur verið stefnda í einkamáli, fyrirkalli, eða annarri boðun frá dómstól. Stundum koma upplýsingarnar frá lögmönnum og eftir atvikum aðilum máls.

Þar sem eru fleiri en einn salur má fá upplýsingar í afgreiðslu dómhússins hvert á að mæta. Í sumum dómhúsum eru skjáir í afgreiðslunni með upplýsingum um dagskrá dómstólsins. 

  •  Í Héraðsdómi Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands vestra, Austurlands og Suðurlands er einn dómsalur.  

  • Fleiri dómsalir eru í Héraðsdómi Reykjavíkur, Héraðsdómi Reykjaness og á Norðurlandi eystra. Í Landsrétti eru fjórir dómsalir og í Hæstarétti tveir. 

 Gott er að gefa sér góðan tíma til að koma sér í dómsalinn. 


Aðgengismál

Stefna dómstólasýslunnar er að reyna að tryggja eftir fremsta megni að aðgengi að dómstólum og innan dómstóla sé greitt. Mælt er með því að einstaklingar sem þurfa aðstoð við aðgengi komi með fylgd í dómhús. Þá er gott að hringja í viðkomandi dómhús áður en mætt er til að hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir.  

Vitni 

Vitni bíða  fyrir utan dómsalinn á meðan vitnisburður annarra vitna fer fram. Þetta er gert til að vitni heyri ekki vitnisburð þeirra. Mikilvægt er að vitni mæti tímanlega í dómhúsið til að geta gengið í dómsalinn þegar dómari óskar eftir. 

Áfram: Hvernig lítur dómsalur út?