Ýmsir umhverfisþættir geta haft áhrif á líkamsbeitingu við vinnu. Þeir eru meðal annars eftirfarandi:
Góð lýsing getur dregið úr einkennum frá stoðkerfi og augnþreytu.
Við skipulag vinnustaðar þarf að meta hversu mikla lýsingu þarf og hvers konar ljósgjafar henta best. Ef vinnan eða aðstæður við vinnu breytast getur þurft að endurskoða lýsingu og ljósgjafa.
Almennt gildir að forðast skal eins og hægt er að lýsingin komi aftan frá því þá er unnið í skugganum af eigin líkama.
Best er að nota dagsljós við vinnuna en að sjálfsögðu þarf oft að auka við þá birtu á Ísland.
Best er að lýsingin komi frá hlið þegar unnið er við tölvuskjá.
Lýsing við tölvuvinnu skal taka mið af því hvort skjárinn hefur ljósan eða dökkan grunn.
Koma skal í veg fyrir glampa og endurskin af skjám og öðrum búnaði. Til dæmis með því að laga skipulag vinnustaðar og verkstöðva að lýsingunni.
Bæði of mikill hiti og of mikill kuldi getur haft áhrif á hvernig við beitum líkamanum og þannig mögulega leitt til vanlíðunar, mistaka við vinnu eða einkenna frá stoðkerfi.
Hæfilegt hitastig er mismunandi eftir störfum og getur líka verið einstaklingsbundið.
Þægilegast er að hafa rakaprósentu í vinnurými um 30-50%.
Gólfefni á vinnustað getur skipt miklu máli fyrir líkamsbeitingu og vellíðan í vinnu.
Það er erfitt að standa lengi á hörðu gólfi eins og á flísum eða steingólfi. Oft er eðli vinnunar þannig að ekki verður hjá því komist. Þá þarf að skoða skóbúnað en mikilvægt er að skórnir henti þeim einstakling sem þá notar.
Hægt er að nota gúmmímottur undir fætur til að mýkja undirlagið.
Það getur verið gott ráð að skipta um skó yfir daginn til að hvíla fæturna.
Best er að draga úr hávaða við upptök hans.
Truflun af völdum utanaðkomandi hávaða getur valdið streitu sem getur svo haft áhrif á einbeitingu, afköst og almenna líðan.
Hávaði getur t.d. verið tilkominn vegna óæskilegra eða skaðlegra hljóða frá athöfnum fólks, umferð eða atvinnustarfsemi.
Til að takmarka hávaða í umhverfinu þurfa bæði atvinnurekendur og starfsfólk vað vera vakandi fyrir ástæðum og lausnum.
Mikill hávaði í langan tíma getur valdið varanlegu heyrnartjóni og einnig aukið slysahættu. Draga verður úr hávaða á vinnustöðum ef hætta er á að hávaðinn fari yfir ákveðin mörk til að verja heyrn starfsfólks og auka öryggi þess.
Nánar um viðmiðunarmörk fyrir hávaða og hvernig má draga úr hávaða.
Titringur getur valdið óþægindum og varanlegum skaða. Titringur getur til dæmis komið frá handverkfærum eða vinnuvélum og getur jafnvel leitt um allan vinnustaðinn.
Til að bregðast við titringi er hægt að beita ýmsum ráðum. Má þar nefna:
Breyttar starfsaðferðir þar sem starfsfólk verður síður fyrir vélrænum titringi.
Heppilegt val á vinnutækjum, sem eru vinnuvistfræðilega hönnuð og framkalla minnsta mögulegan titring með tilliti til verksins sem á að vinna.
Aukabúnaður sem dregur úr áhættunni. Til dæmis sæti sem draga verulega úr titringi í öllum líkamanum og handföng sem draga úr því að titringur færist yfir á hendur og handleggi.
Upplýsingar og þjálfun til að kenna starfsfólki að nota vinnutæki rétt og örugglega og halda vélrænum titringi í lágmarki. Eins að skoða setstöðu og líkamsbeitingu og stillingar á sætum og jafnvel stjórntækjum.
Hæfilegur vinnutími með viðeigandi hvíldartímum. Best er að takmarka tímann sem starfsfólk verður fyrir titringi og draga úr titringi eins og hægt er.
Nánar um áhrif og úrræði vegna titrings hér.
Reglugerð um varnir gegn álagi vegna vélræns titrings á vinnustöðum.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið