Hávaði getur valdið varanlegu heyrnartjóni og leitt til streitu. Mikill hávaði skapar einnig aukna slysahættu.
Draga verður úr hávaða á vinnustöðum ef hætta er á að hávaðinn fari yfir ákveðin mörk til að verja heyrn starfsfólks og auka öryggi þess.
Neðri viðbragðsmörk eru 80 dB(A)
Ef ekki er hægt að draga úr hávaða við upptök hans skal atvinnurekandi leggja starfsfólki til heyrnarhlífar og sérstaklega ef hávaðinn er við neðri viðbragðsmörk.
Jafnframt skal hann sjá til þess að starfsfólk fái upplýsingar og viðeigandi þjálfun til varnar hávaða og framkvæmd vinnu. Starfsfólk skal eiga kost á heyrnarmælingu ef áhættumat gefur til kynna að heyrn þeirra sé hætta búin og hávaðinn er yfir þessum mörkum.
Efri viðbragðsmörk eru 85 dB(A)
Ef hávaði á vinnustað er við eða yfir efri viðbragðsmörkum skal vera skylda að nota heyrnarhlífar sem persónuhlífar. Atvinnurekandi útvegar heyrnarhlífar og gerir starfsfólki grein fyrir að á vinnustaðnum eða á ákveðnum svæðum sé skylda að nota heyrnarhlífar.
Mikilvægt er að upplýsa og minna á notkun heyrnarhlífa með merkingum eða myndrænum hætti. Atvinnurekandi skal gera ráðstafanir til að álagið fari niður fyrir skilgreind mörk, gera tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir sem byggja á áhættumati til að draga úr hávaðanum.
Þar sem hávaði er yfir efri viðbragðsmörkum hefur starfsfólk rétt á heyrnarmælingu.
Viðmiðunarmörk eru 87 dB(A)
Í engum tilvikum má hávaði sem starfsfólk býr við fara yfir 87 dB(A) að jafnaði á átta stunda vinnudegi. Við mat á viðmiðunarmörkum er tekið tillit til þess hvort starfsfólk noti heyrnarhlífar eða ekki. Þessi mörk eru sett meðal annars til þess að tryggja rétt val á heyrnarhlífum og öðrum forvörnum.
Ef notkun heyrnarhlífa hefur verið skilgreind á vinnustað eða við ákveðin verk eða hávaðinn fer yfir viðmiðunarmörkin ber starfsfólki að nota heyrnarhlífar auk þess að leitast við að draga úr hávaða eins og kostur er og stuðla að því að þær ráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr hávaða komi að notum.
Utanaðkomandi hávaði – lægri viðmiðunarmörk
Viðmið fyrir utanaðkomandi hávaða á hljóðlátari vinnustöðum eru lægri og fara eftir starfseminni. Í stjórnklefum, verkstjórnarherbergjum og öðrum stöðum þar sem mikilvægt er að samræður geti átt sér stað, á utanaðkomandi hávaði ekki að vera meiri en 65 dB(A) að jafnaði á átta klukkustunda vinnudegi.
Í mat- og kaffistofum á utanaðkomandi hávaði ekki vera meiri en 60 dB(A) á meðan á notkun stendur. Á skrifstofum og öðrum stöðum þar sem gerðar eru miklar kröfur til einbeitingar og samræður eiga að geta átt sér stað óhindrað á utanaðkomandi hávaði ekki að vera meiri en 50 dB(A) að jafnaði á átta klukkustunda vinnudegi.
Ef hávaði fer upp fyrir þessi mörk er mikilvægt að skoða uppruna hávaðans og leitast við að gera ráðstafanir til að útiloka hann með hljóðdempun eða annarri hönnun þannig að hljóðálag skapist ekki í vinnurýminu.
Best er að draga úr hávaða við upptök. Eftir því sem lausn á vandamáli vegna hávaða finnst nær hávaðavaldinum því betri telst lausnin vera. Þess vegna er besta lausnin að koma í veg fyrir að hávaðinn myndist. Síðan vinnur maður sig frá hávaðavaldinum í átt að þeim sem verða fyrir óæskilegum hávaða.
Leysa vandamálið við upptök hávaðans, til dæmis laga eða lækka vélahljóð
Yfirbygging hávaðavalds
Skilveggir
Draga úr ómtíma – minnka bergmál
Stytta veru starfsmanna í hávaða – skipulag vinnunnar
Heyrnarhlífar – þær eru neyðarúrræði sem notast er við á meðan leitað er annarra lausna.
Um leið og vinna sem valdið getur heyrnartjóni hefst er atvinnurekandi, eða fulltrúi hans, skyldugur til að sjá til þess að starfsfólk noti heyrnarhlífar. Það þýðir að jafnvel vinna í hávaða sem er innan við 85 desíbel (dB) getur krafist notkunar heyrnarhlífa.
Starfsmaður er skyldugur að nota heyrnarhlífar ef starfið er þess eðlis að ekki er unnt að vernda heyrn hans á annan hátt.
Tvenns konar gerðir heyrnarhlífa:
Eyrnatappar, sem komið er fyrir í hlust eyrans.
Heyrnarhlífar, sem umlykja eyrað.
Heyrnarhlífar eru ekki varanleg lausn á hávaðavandamáli. Leitast skal við að dempa hávaða við upptök hans.
Atvinnurekandi skal sjá til þess að:
Starfsfólk fái heyrnarhlífar við hæfi sem valda ekki óþægindum.
Starfsfólk fái leiðbeiningar um notkun heyrnarhlífanna og upplýsingar um hættuna af því að nota þær ekki. Leiðbeiningarnar eiga að snúa að notkun, þrifum og geymslu heyrnarhlífanna.
Heyrnarhlífunum sé rétt viðhaldið.
Um og yfir 80 desíbel
Ef hávaðaálag starfsmanna er 80 dB eða hávaðinn er skaðlegur eða verulega truflandi þá skal atvinnurekandi leggja starfsmönnum til heyrnarhlífar.
Það getur verið í tilfellum eins og þar sem mjög hávaðasöm vinna er framkvæmd í stuttan tíma eða þar sem eru kröftug slaghljóð. Starfsmenn skulu fá heyrnarhlífar í slíkum tilfellum þrátt fyrir að hávaðaálagið sé innan við 80 dB.
Þar sem hávaðaálag á starfsmenn fer yfir 80 dB(A) ættu starfsmenn að nota heyrnarhlífar. Að öðrum kosti eiga þeir á hættu að skaða heyrnina.
Heyrnarhlífar skylda yfir 85 desíbel
Ef ekki er hægt að lækka hávaðaálag á starfsmenn niður fyrir 85 dB mörkin skal atvinnurekandi eða fulltrúi hans aðeins leyfa framkvæmd verksins ef notaðar eru heyrnarhlífar.
Hættur vegna notkunar heyrnarhlífa
Heyrnarhlífar geta gert starfsmönnum erfitt um vik að tala saman og þannig einangrað þá frá umhverfinu. Það þarf að hafa í huga svo fyrirbyggja megi alla hugsanlega hættu vegna þess. Heyrnarhlífar sem dempa hávaðann mikið meira en þörf er á geta einangrað notandann og aukið hættuna.
Heyrnarhlífar geta valdið óþægindum vegna hita, þrýstings, ertingu í húð og útbrota. Óþægindin geta verið einstaklingsbundin og því er mikilvægt að starfsfólk eigi kost á mismunandi gerðum heyrnarhlífa og geti þannig valið þær sem eru þægilegar en veita jafnframt góða vörn.
Helstu mælingar sem gerðar eru á vinnustöðum eru eftirfarandi:
Skammtamælingar
Hljóðnema er komið fyrir sem næst eyra á starfsmanni sem ber mælirinn á sér yfir vinnudaginn, eða hluta úr vinnudegi. Niðurstöður þessara mælinga gefa mjög glögga mynd af hávaðaálagi sem viðkomandi starfsmaður verður fyrir eða jafngildishávaða miðað við átta stunda vinnudag, hávaðatoppa og jafnvel bakgrunnshávaða.
Staðbundnar mælingar
Staðbundnar mælingar eru gerðar hjá tilteknum hávaðavaldi eða á tiltekinni vinnustöð . Yfirleitt eru þessar mælingar stuttar. Mælirinn fylgir ekki starfsmanni en hafi hann fasta vinnustöð allan daginn og hávaði er tiltölulega jafn þá getur staðbundin mæling sagt til um hávaðaálag starfsmannsins.
Tíðnigreiningar
Tíðnigreiningar eru í raun staðbundnar mælingar sem mæla hávaða á mismunandi tíðnibilum. Þessar mælingar eru gerðar til að átta sig á hvort um sé að ræða hátíðni- eða lágtíðnihljóð. Oftast í þeim tilgangi að leita hentugra lausna, vegna þess að það duga ekki alltaf sömu lausnirnar gagnvart lágtíðnihávaða og hátíðnihávaða.
Ómtímamælingar
Ómtími er mælikvarði á bergmál. Eftir því sem bergmálið er meira því lengri er ómtíminn. Bergmál er í raun endurkast hljóðs og af því leiðir að hávaðinn magnast við aukið bergmál og hljóðvistin versnar. Ómtímamælingar eru því gerðar til að meta hljóðvistina og gefa forsendur fyrir útreikningum vegna endurbóta.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið