Titringur getur valdið bæði óþægindum og varanlegum skaða. Titringur getur verið það sem kallað er:
Skeiðtitringur eða síendurtekin hreyfing. Skapast til dæmis af snúningi.
Tilviljanakenndur titringur. Skapast til dæmis af ferð eftir ójöfnu yfirborði.
Höggtitringur. Skapast til dæmis af hamarshöggi.
Titringi er skipt í annars vegar handar- og handleggstitring og hins vegar líkamstitring. Í langflestum tilfellum eru titringur og áhrif hans óæskileg.
Áhrifin og afleiðingarnar ráðast af útslagi, tíðni og tíma. Ef tilfærslan er mikil, ef hreyfingin er ör og ef titringurinn varir lengi þá verða áhrif og afleiðingar meiri.
Ástæða er til að vera vakandi fyrir einkennum eins og:
Doða í fingrum
Tilfinningaleysi í fingrum og höndum
Töpuðum krafti eða máttleysi í höndum
Fingur hvítna vegna titringsálags en í hvíld roðna þeir með verkjatilfinningu.
Erfiðleikum við fínhreyfingar
Óþægindum og verkjum vegna kulda og raka
Skertum gripkrafti
Þessi einkenni eru líklegri í kulda og raka og í fyrstu líklega aðeins fremst í fingrunum.
Ástæða er til að vera vakandi fyrir einkennum eins og:
Sjóntruflunum
Jafnvægistruflunum
Óþægindum tengdum stoðkerfi líkamans
Verkjum, streitu, svefntruflunum
Skaða á innri líffærum
Ef unnið er viðvarandi í titringi geta áhrifin orðið varanleg.
Til að bregðast við titringi er hægt að beita ýmsum ráðum. Má þar nefna:
Breyttar starfsaðferðir, þar sem starfsfólk verður síður fyrir vélrænum titringi.
Heppilegt val á vinnutækjum, sem eru vinnuvistfræðilega hönnuð og framkalla minnsta mögulegan titring með tilliti til verksins sem á að vinna.
Aukabúnaður, sem dregur úr áhættunni til dæmis sæti sem draga verulega úr titringi í öllum líkamanum og handföng sem draga úr því að titringur færist yfir á hendur og handleggi.
Viðeigandi viðhaldsáætlanir fyrir vinnutæki, vinnustað. Val á ökuleiðum og undirlag.
Upplýsingar og þjálfun til að kenna starfsfólki að nota vinnutæki rétt og á öruggan hátt þannig að vélrænum titringi er haldið í lágmarki. Einnig ber að skoða setstöðu, líkamsbeitingu og stillingu á sætum og jafnvel stjórntækjum.
Hæfilegur vinnutími með viðeigandi hvíldartímum, takmarka tímann sem starfsfólk verður fyrir titringi og draga úr titringi.
Hlífðarfatnaður meðal annars til að verja fyrir titringi og fyrir kulda og raka.
Kanna hvort skaðlegra áhrifa af titringi í öllum líkamanum gæti áfram utan vinnutíma á ábyrgð atvinnurekandans.