Æskilegt er að um 15 –20 m³ af fersku lofti berist hverjum starfsmanni á klukkustund.
Góð loftræsting kemur í veg fyrir að inniloft verði starfsfólki til ama. Þættir eins og byggingarefni, stærð og dýpt rýmis, gerð og staðsetning glugga, viðhald og gerð loftræstikerfa geta skipt verulegu máli.
Skilyrði þess að fólki finnist hitastig innilofts við hæfi er að jafnvægi sé milli hitans sem myndast í líkamanum og hitans sem hann gefur frá sér. Hitaframleiðsla líkamans er háð líkamlegri áreynslu. Í erfiðisvinnu er hún um það bil þrefalt meiri en í léttri vinnu. Kyrrsetustörf gera því meiri kröfur en önnur störf til þess að lofthiti sé við hæfi vegna þess að í kyrrsetu er fólk næmara fyrir hitabreytingum.
Of kalt
Ef of kalt er í vinnurými bregst líkaminn við með því að auka vöðvaspennuna. Við það aukast efnaskiptin og líkamshitinn helst stöðugur.
Erfiðara verður að hreyfa fingurna, vinnuhraði minnkar og hætta á mistökum eykst.
Of heitt
Almennt finnst fólki loftgæði vera verri þegar hiti er of hár.
Verði of heitt í vinnurými slaknar á vöðvum og svitamyndun eykst. Strax þegar hitinn er nokkrum gráðum yfir því sem þykir þægilegt færist drungi yfir marga.
Andleg og líkamleg færni verður minni. Líkur á mistökum, vanlíðan og höfuðverk aukast.
Viðmið fyrir hita
Hæfilegt hitastig við kyrrsetustörf er talið vera 18°–22°C, en við störf þar sem er staðið við vinnu án mikilla hreyfinga eru þægindaviðmiðin 16°–18°C.
Við sum störf getur verið krafa um lægra hitastig vegna framleiðslunnar, en þá þarf að gera ráðstafanir fyrir starfsfólk um sérstakan klæðnað og tímamörk í kældu vinnurými.
Flestum finnst þægilegast ef hitastigið er 20 – 22°C við kyrrsetustörf en sumum hentar hærri hiti eða allt að 24°C.
Vert er að hafa í huga að fólki finnst almennt óþægilegt ef hitabreytingar yfir daginn verða meiri en 4°C. Hitabreytingar geta orðið meiri þar sem mikið er um rafknúinn búnað og þar sem hlífar eru ekki notaðar til að verjast sólarhita í gegnum rúður.
Sums staðar í vinnurými verður óþægilega kalt, til dæmis þar sem einangrun er ófullnægjandi og á svæðum beint undir innstreymi lofts frá vélrænni loftræstingu.
Óráðlegt er að hafa vinnusvæði nálægt stórum gluggum. Á veturna geta kaldar rúður valdið því að kalt loft leitar niður á við sem leiðir til dragsúgs og fótkulda.
Ef ekki er unnt að komast hjá því að hafa vinnusvæði við glugga eða útgöngudyr ætti að gera ráðstafanir sem draga úr óþægindum sem staðsetningin getur valdið, til dæmis að staðsetja færanlega ofna undir gluggum og reisa skjólveggi við útgöngudyr til að draga úr innstreymi kalds lofts, ekki síst ef hituðu lofti er veitt þangað.
Margt getur valdið dragsúg, meðal annars óþéttir gluggar og vanvirk loftræstikerfi. Ástæðan fyrir því að dragsúgur veldur oft óþægindum er samspil hita og hreyfingar á lofti. Hreyfing á lofti er þá meiri en um það bil 0,15 m/sek við kyrrsetustarf.
Loftið, sem er á hreyfingu, er kaldara en loftið í herberginu. Þetta gildir líka um hæga loftstrauma. Einnig getur verið um kuldageislun að ræða, til dæmis ef nokkur hiti berst frá fólki á kaldari fleti. Verði hann verulegur finnst fólki það vera í dragsúg enda þótt ekki sé merkjanleg hreyfing á lofti.
Dragsúgur hefur einkum áhrif á þá sem vinna kyrrsetustörf. Með tímanum getur dragsúgur valdið óþægindum í vöðvum og liðum. Auk þess getur stöðug kæling húðarinnar dregið úr viðnámsþrótti líkamans gegn ýmsum pestum.
Unnt er að grípa til ýmissa úrræða til að koma í veg fyrir dragsúg. Til dæmis er hægt að þétta dyr og glugga, stilla loftræstikerfi og halda þeim vel við. Gott er að hanna húsnæði á þann hátt að vinnurými séu ekki mjög stór, því auðveldara er að hafa stjórn á loftgæðum í smærri rýmum.
Með loftraka er átt við hlutfallslegt magn af vatnsgufu í andrúmsloftinu.
Að jafnaði veldur loftraki ekki óþægindum. Þó getur lítill loftraki valdið ertingu í augum, á vörum og í öndunarfærum, einkum ef loftið er of heitt og rykugt. Auk þess stuðlar þurrt loft að myndun stöðurafmagns.
Of mikill raki
Mjög rakt inniloft getur leitt til þess að rakablettir myndast á veggjum, gluggum og í loftum sem stuðlað getur að myglumyndun. Það eykur hættu á óþægindum vegna ofnæmis og óþols.
Í köldu lofti er næstum engin vatnsgufa. Þess vegna mælist rakastig lágt innandyra á veturna. Kalt loft berst inn og er hitað upp, sé raka (vatnsgufu) ekki bætt í það lækkar rakastig loftsins.
Loftraki utandyra getur sveiflast yfir árið frá um það bil 20% hlutfallslegs raka (hR) á veturna til allt að 60% að sumarlagi. Loftraki er mældur og gefinn upp sem hundraðshluti þess rakamagns sem getur verið í loftinu við tiltekið hitastig. Hækki hitastig getur loftið geymt meiri vatnsgufu.
Viðmið fyrir loftraka
Ekki hafa verið settar reglur um rakastig á vinnustöðum en flestum líður best við 30-60% hR. Til að varna of þurru eða of röku lofti ætti að halda rakastigi á bilinu 30-50% hR.
Venjulega finnur fólk ekki fyrir rakabreytingum ef hitinn er á bilinu 20 – 22°C. Fari hitinn yfir 24°C finnst flestum loftið þungt og þvingandi ef loftrakinn er jafnframt yfir 50% hR.
Með hækkandi hitastigi og auknu álagi við vinnu aukast áhrif loftrakans á líðan starfsmanns. Því meiri sem loftrakinn er því hærri virðist hitinn vera. Ef mikið ryk er í lofti kann það að virðast þurrt, jafnvel þegar rakinn er innan eðlilegra marka.
Rakatæki
Þar sem rakatæki eru notuð til að auka loftraka þarf að gæta ítrasta hreinlætis, endurnýja vatn og þrífa þau reglulega til að koma í veg fyrir að frá þeim berist örverur, þar með talið sýklar og mygla.
Oft líður starfsfólki betur ef það notar lítil rakatæki á skrifborðum og einstaklingsbundnum vinnustöðum en mikilvægt að halda þeim hreinum til að þau fóstri ekki örverur og óhreinindi.
Koldíoxíð (CO2) er litlaus, lyktarlaus og óeldfim lofttegund með létt sýrubragð við herbergishita.
Það er aukaafurð vegna brennslu efna auk þess að myndast vegna efnaskiptaferla lífvera, þar á meðal fólks. Þar sem CO2 myndast við útöndun þá er styrkur þess í rýmum notaður til að gefa til kynna hvort nægjanlegu fersku lofti sé veitt inn í rýmið.
Hár styrkur koldíoxíðs (>0,1 %) getur valdið höfuðverk og þreytu en ógleði, svima og uppköstum fari hann yfir mengunarmörk (>0,5 %). Ef styrkurinn er mjög hár (>1 %) getur það leitt til meðvitundarleysis. Almennt kvartar 20% fólks fyrir þungu lofti fari styrkur CO2 yfir 1.000 ppm.
Samkvæmt byggingarreglugerð skal tryggja að CO2 magn í innilofti verði ekki meira að jafnaði en 0,08% og fari ekki til skamms tíma yfir 0,1% CO2.
Til að koma í veg fyrir eða draga úr háum styrk koldíoxíð í byggingu eða herbergi ætti að veita fersku lofti á svæðið til dæmis með því að opna glugga.
VOC er skammstöfun fyrir enska hugtakið „volatile organic compound“ og er samheiti yfir þúsundir lífrænna efnasambanda sem innihalda kolefni og eru aðallega lofttegundir við herbergishita. Þessi rokgjörnu efni gufa auðveldlega upp og samlagast andrúmsloftinu innandyra.
Algengustu VOC-efnin í andrúmslofti sem fólki stendur hætta af við innöndun eru aseton, arsenik, bensen, ethylen glycol, formaldehýð og vetnissúlfíð en mörg þeirra eru krabbameinsvaldandi.
VOC-efni eru algeng vegna notkunar á málningu, lakki, bóni, hreinsiefnum og ilmefnum en geta einnig komið frá húsgögnum, tækjum og búnaði.
Viðmið fyrir rokgjörn lífræn efnasambönd
Engin viðurkennd mengunarmörk eru til fyrir VOC eða heildarmörk rokgjarnra lífrænna efnasambanda.
Almennt er þó talið að ef styrkurinn í andrúmslofti er undir 90 pbb (parts per billion) teljist hann lágur, 90 – 150 ppb ásættanlegur, 150 – 310 ppb á mörkum þess að vera slæmur og hár ef hann fer yfir um 310 ppb.
Góð loftræsting er lykillinn að því að halda styrk þessara efna niðri.
Fíngert ryk í innilofti er flokkað í tvær gerðir, PM2.5 og PM10. PM er enska hugtakið fyrir „particulate matter“.
Það er blanda af föstum ögnum og smádropum, til dæmis ryki, óhreinindum, sóti eða reykögnum. Sumar eru það stórar og dökkar að þær sjást með berum augum. Aðrar eru svo litlar að þær er einungis hægt að greina í rafeindasmásjá.
PM10: Agnir sem unnt er að anda ofan í sig og eru yfirleitt 10 mikrómetrar (0,01 mm) að þvermáli og minni.
PM2.5: Fínar agnir sem unnt er að anda ofan í sig og eru yfirleitt 2,5 mikrómetrar (0,0025 mm) að þvermáli eða minni.
Þar sem þessar kagnir eru það smágerðar er auðvelt að anda þeim ofan í sig. Sumar agnir sem eru minni en 10 µg í þvermál og komast langt niður í lungu og sumar jafnvel inn í blóðrásina. Agnir sem eru minni en 2,5 µg (PM2.5) í þvermál eru hættulegastar.
Mengunarmörk fyrir heildarryk er 10 mg/m3 og 5 mg/m3 fyrir örfínt ryk samkvæmt reglugerð.
Engin viðurkennd viðmiðunarmörk innandyra eru til fyrir PM10 og PM2.5 sérstaklega en sumir framleiðendur mælitækja miða við að PM2.5 fari ekki yfir 15 µg/m³.
Góð vélræn loftræsting með hreinum síum og lofthreinsitæki stuðla að rykhreinu innilofti.
Lesa meira:
Við mælingar á innilofti er leitast við að meta hitastig og áhrif þess auk annarra umhverfisþátta.
Það getur verið vandkvæðum bundið að mæla inniloft. Það getur gefið villandi niðurstöðu að mæla aðeins einstaka þætti, til dæmis hitastig, því að það segir lítið um heildaráhrifin. Lofthraði, loftraki og eðli vinnunar getur til dæmis haft áhrif á það hvort fólki finnst hitastig við hæfi.
Mikilvægt er að gera forathugun og kanna hvernig starfsfólk upplifir loftið innandyra og hvað gæti valdið óþæginum sem það kann að kvarta yfir.
Dæmi um spurningar:
Hvernig er hitun húsnæðisins háttað?
Eru rými laus við dragsúg?
Hversu vel er þrifið?
Hversu vel virkar loftræstingin?
Eru rými hæfileg stór?
Fylgir mismikil líkamleg áreynsla störfum?
Að hvaða marki er unnt að hafa stjórn á áhrifum innilofts þar sem störfin eru innt af hendi?
Þetta eru helstu atriðin sem atvinnurekendur, öryggisverðir, öryggistrúnaðarmenn og annað starfsfólk getur yfirleitt lagt mat á sjálft.
Það sem talið er hér á eftir gæti komið til athugunar með sérfræðiaðstoð. Eftirfarandi loftgæðaþættir koma alltaf til skoðunar þegar ítarleg athugun á innilofti er gerð:
Lofthiti
Hitageislun
Lofthraði
Loftraki
Koldíoxíð (CO2)
Lífræn rokgjörn efnasambönd (VOC)
Fíngert ryk (PM2.5)
Mikilvægt er að mælitæki séu notuð í samræmi við fyrirmæli þar um og séu rétt stillt. Staðurinn, sem mælt er á, hæð frá gólfi og tími dags hafa mikil áhrif á niðurstöðurnar. Einnig þarf að kanna veður og jafnvel gera útiloftsmælingar sem geta haft áhrif á niðurstöðu mælinga á innilofti.
Staðsetning byggingar hefur sín áhrif á inniloft í henni. Séu miklar umferðargötur í nánd getur loftræsting verið ófullnægjandi sem kann að stafa af mengun frá útblæstri. Að auki getur umferðarhávaðinn veldið ónæði.
Í byggingum á slíkum stöðum skal inntaki fyrir vélræna loftræstingu komið fyrir í sem mestri hæð til þess að koma í veg fyrir vandamál í tengslum við inniloft.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið