Líffræðilegir skaðvaldar eru gerlar, veirur, sveppir, aðrar örverur og tengd eiturefni þeirra sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu fólks. Neikvæð áhrif eru allt frá tiltölulega vægum ofnæmisviðbrögðum til alvarlegra sjúkdóma og jafnvel dauða.
Mikilvægt er að verja starfsfólk gegn líffræðilegum skaðvöldum, sérstaklega þar sem unnið er með matvæli, örverur og í landbúnaði þar sem útsetning er mikil.
Hreinlæti og vernd starfsfólks
Þegar um er að ræða starfsemi þar sem heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin vegna vinnu með líffræðilega skaðvalda, erfðabreyttar örverur eða erfðabreyttar lífverur skal atvinnurekandi tryggja að:
Starfsfólk borði ekki á vinnusvæðum þar sem hætta er á mengun líffræðilegra skaðvalda.
Starfsfólk fái viðeigandi hlífðarfatnað.
Starfsfólk hafi aðgang að fullnægjandi snyrti- og salernisaðstöðu, þar á meðal nauðsynlegum hreinsiefnum, svo sem augnhreinsivökva og sótthreinsandi efni fyrir húð.
Allar nauðsynlegar hlífar séu geymdar og meðhöndlaðar á réttan hátt.
Erfðabreyttar örverur eru allar örverur þar sem erfðaefninu hefur verið breytt á annan hátt en gerist í náttúrunni við pörun og/eða náttúrulega endurröðun.
Undir þetta falla örverur þar sem erfðaefninu hefur verið breytt með þeirri tækni sem greint er frá í A-hluta viðauka 1 með reglugerð um afmarkaða notkun erfðabreyttra örvera.
Örverur sem hefur verið breytt með aðferðum sem fram koma í B-hluta viðauka 1 kallast ekki erfðabreyttar örverur.
Erfðabreyttar lífverur eru allar lífverur, aðrar en örverur, þar sem erfðaefninu hefur verið breytt á annan hátt en gerist í náttúrunni við pörun og/eða náttúrulega endurröðun.
Undir þetta falla þær lífverur þar sem erfðaefninu hefur verið breytt með þeirri tækni sem greint er frá í 1. hluta viðauka 1 með reglugerð um notkun erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera. Skilgreiningin nær ekki yfir aðferðir sem fram koma í 2. og 3. hluta viðauka 1.
Markmiðið er alltaf að koma í veg fyrir heilsutjón starfsmanna sem:
Vinna með líffræðilega skaðvalda, erfðabreyttar örverur og erfðabreyttar lífverur
Verða fyrir mengun frá líffræðilegum skaðvöldum, erfðabreyttum örverum eða erfðabreyttum lífverum
Þegar líkur eru á að starfsemi hafi í för með sér áhættu vegna líffræðilegra skaðvalda, erfðabreyttra örvera eða erfðabreyttra lífvera skal atvinnurekandi láta meta eðli og umfang hættunnar, það er hve mikil mengunin er og hve lengi starfsmenn verða fyrir mengun.
Að áhættumati loknu skal atvinnurekandi ákvarða til hvaða ráðstafana skuli grípa.