Vinna í heimahúsi getur verið erfið líkamlega þar sem vinnuaðstæður eru ólíkar og ekki hannaðar með þjónustu í huga. Oftast er einn einstaklingur að veita þessa þjónustu og misauðvelt að fá aðstoð ef þess þarf.
Þjónusta sem veitt er í heimahúsi getur til dæmis verið:
þrif
persónuleg aðstoð
heimahjúkrun
þjálfun
Einnig getur þetta átt við störf rafvirkja, pípara, smiða og fleiri aðila sem fara heim til fólks að sinna lagfæringum og/eða uppsetningu á búnaði.
Vinnurými
Þrengsli og lítið vinnurými getur gert starfsfólki erfitt fyrir að beita sér rétt við vinnu sína og getur til dæmis reynst erfitt að beygja sig á réttan hátt. Rými sem starfsfólk þarf til að beygja sig við vinnuna þarf að minnsta kosti að vera 60-80 sentímetrar. Leggja skal áherslu á að hægt sé að komast að rúmi beggja vegna þegar það þarf að aðstoða einstakling þar. Þetta á einnig við störf við þrif þar sem búa þarf um mörg rúm á dag.
Reglan er að skipuleggja skal vinnustaðinn þannig að ekki þurfi að lyfta þungu. Þetta getur verið snúið þegar unnið er í heimahúsi. Því þarf alltaf að meta aðstæður áður en vinna hefst og ekki lyfta miklum þyngdum að óþörfu.
Alltaf skal nota viðeigandi léttitæki (sjá nánar undir léttitæki). Velja skal léttitæki sem að hæfa starfinu og passa inn í vinnurýmið.
Stuðningur
Það getur valdið álagi að starfa við skilyrði sem vekja ótta um að geta ekki ráðið einn fram úr flóknum og óvæntum atburðum sem kunna að koma upp.
Mikilvægt er fyrir starfsfólk sem vinnur eitt að geta fengið aðstoð ef það eða skjólstæðingur verður fyrir slysi eða veikindum á meðan á þjónustunni stendur. Það veldur álagi að starfa við skilyrði sem vekja ótta um að geta ekki ráðið einn fram úr flóknum og óvæntum atburðum sem kunna að koma upp.
Að vinna einn, einkum að næturlagi, getur reynst þrúgandi fyrir marga auk þess sem líkamlegt álag getur verið meira. Mikilvægt er að slíkar aðstæður séu ræddar á vinnustaðnum og starfsfólk njóti stuðnings svo að vinnuumhverfið verði eins gott og unnt er.
Þegar gerð er skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði fyrir vinnustaðinn skal meta hvort þörf er á að fleira starfsfólk vinni saman til að draga úr líkum á álagsmeiðslum. Þetta á við um ýmis konar starfsemi, þar á meðal þegar unnið er við umönnun.