Mikilvægt er að í boði séu tæki og búnaður sem hæfir þeim verkefnum sem unnin eru og er til þess fallinn að daga úr álagi.
Mikilvægt er að hugsa heildrænt og tryggja að starfsfólk geti unnið í hentugum vinnustellingum. Hafa þarf í huga hvort einn eða fleiri eigi að nota sömu vinnuaðstöðuna. Kröfur til þess að búnaður sé auðstillanlegur eykst til muna ef notendur eru fleiri.
Jafnframt þarf að huga að innihaldi starfa með það að markmiði að tryggja fjölbreytni í verkefnum og líkamlegu álagi.
Við hönnun vinnustöðvar og við val á borðum og öðrum búnaði þarf að taka tillit til þeirra verkefna sem þar á að vinna og því nauðsynlegt að kanna vel þarfirnar áður en valið er.
Við uppröðun búnaðar skal miða við að starfsfólk hafi þá hluti og þann búnað sem mest er unnið með innan hentugrar seilingar til að minnka líkur á teygjum og snúningi.
Tæki og búnaður þurfa að vera hönnuð þannig að hægt sé að beita góðum vinnustellingum og vinnuhreyfingum og að líkamlegt álag sem skapast við notkun þeirra sé hæfilegt.
Jafnframt er mikilvægt að tryggja að gólf séu ekki sleip og að engar hindranir, svo sem þröskuldar, rör, kaplar og rafmagnssnúrur séu á gönguleiðum.
Lesa má nánar um aðbúnað á vinnustað hér: https://vinnueftirlitid.is/vinnuumhverfi/oryggi-heilbrigdi/umhverfisthaettir#adbunadur. Einnig má benda á reglur nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða en þar er m.a. hægt að lesa um fyrirkomulag á aðstöðu starfsmanna: https://wp.vinnueftirlitid.is/wp-content/uploads/2021/09/581_1995.pdf
Mikilvægt er að auðvelt sé að stilla vinnuborð bæði fyrir sitjandi og standandi vinnuhæð.
Gott ráð er að miða vinnuhæð við eðli verkefna.
Of há eða of lág vinnuhæð getur valdið álagi á axlir, bak og háls.
Vinnustóll þarf að henta því verkefni sem unnið er og því starfsfólki sem notar hann.
Mælst er til að stólar séu auðstillanlegir til að auka fjölbreytni og draga úr þreytu.
Það er á ábyrgð notanda stólsins að nýta sér möguleika hans og sjá til þess að stóllinn sé ávallt stilltur í samræmi við þau verkefni sem unnin eru.
Til eru stólar með óhefðbundinni lögun til dæmis jafnvægisstólar og stand- og tyllistólar. Nýta má þessa stóla sem tilbreytingu við hefðbundna skrifstofustóla.
Stillingar á stól
Best er að stilla stólinn meðan setið er í honum.
Stólsetan: mælt er með að setjan styðji vel undir læri. Fætur eiga að geta hvílt á gólfinu án þess að frambrún stólsetu þrýsti undir læri eða hnésbætur. Ef starfsfólk situr á stól og nær ekki niður á gólf með allan fótinn er gott að nota fótskemil. Gott er að miða við að koma um það bil þremur til fimm fingrum milli frambrúnar stólsetu og hnésbóta. Einnig þarf setan að vera nægilega rúm svo hægt sé að hreyfa sig óhindrað og sitja í þægilegri stöðu.
Stólbakið: þarf að gefa góðan stuðning, sérstaklega við mjóbakið. Á flestum stólum er hægt að hæðarstilla stuðninginn þannig að hann henti hverjum og einum.
Armar: þurfa að vera stillanlegir ef þeir eiga að nýtast sem stuðningur undir framhandleggi. Misjafnt er hvort hentar að nota stólarma þannig að gott er að velja stóla sem eru með örmum sem auðvelt er að taka af eða stóla þar sem auðvelt er að færa arma aftur þannig að þeir rekist ekki í vinnuborðið.
Stólfætur: ef stóllinn er á hjólum þarf að gæta þess að hjólin hæfi undirlaginu.
Þegar tölvubúnaður er valinn og vinnuumhverfi hannað og skipulagt þarf að taka tillit til þess hversu lengi er unnið við tölvuna.
Mikilvægt er að hægt sé að aðlaga búnað að því starfsfólki sem notar hann svo það geti unnið stöðum sem valda því hvorki verk né vanlíðan.
Mikilvægt er að taka reglulega hlé frá tölvuvinnu eða breyta um líkamsstöðu til að forðast einhæft álag.
Tölvuskjár
Skjár skal vera með skörpum og skýrum táknum og laus við flökt.
Tölvuskjá þarf að vera auðvelt að hæðarstilla, snúa og halla til samræmis við þarfir þess sem notar hann.
Það er mikilvægt að sjá til þess að starfsfólk kunni að stilla skjáinn.
Fyrir marga hentar að stilla hæðina þannig að bein sjónlína sé á efri hluta skjássins.
Þeir sem eru með tví- eða margskipt gleraugu þurfa að stilla skjá eftir sínum þörfum.
Best er að staðsetja skjá þannig að birta frá glugga komi frá hlið. Einnig er mikilvægt að lágmarka glampa og endurskin frá skjánum.
.
Einnig má finna ýmiskonar fróðleik um skjávinnu í reglum um skjávinnu.
Fartölva
Skjárinn á fartölvum er yfirleitt of lágur sem getur valdið álagi á axlir, háls og bak. Því er mælt með að tengja fartölvu við annan skjá og/eða lyklaborð og tölvumús ef hægt er.
Það er ekki æskilegt að vinna heilan vinnudag eingöngu við fartölvu því þá er ekki hægt að aðlaga skjáinn og lyklaborð að einstaklingnum.
Lyklaborð
Hafa skal í huga að til eru nokkrar gerðir af lyklaborðum og mismunandi gerðir geta hentað við mismunandi vinnu.
Mælt er með að lyklaborð séu með mattri áferð til að minnka glampa.
Einnig er mælt með því að lyklaborð standi flatt á borði því halli á lyklaborði gæti valdið auka álagi á hendur.
Tölvumús
Það er best að hafa músina ekki of innarlega á borði þannig að ekki þurfi að teygja sig of langt í hana.
Einnig er hægt að nýta flýtitakka á lyklaborði til að hvíla notkun á mús.
Spjaldtölva og snjallsími
Ekki er æskilegt að vinna lengi í einu við spjaldtölvu.
Gæta þarf að því að spjaldtölvur séu ekki of þungar eða stórar ef halda þarf á þeim við vinnuna. Stærri spjaldtölvur eru þægilegri fyrir sjónina en eru að sama skapi þyngri og fyrirferðameiri. Það getur verið álag á fingur, hendur og axlir að halda lengi á spjaldtölvu og því er gott að athuga hvort hægt sé að leggja spjaldtölvuna á borð eða annan sléttan flöt.
Einnig eru til ýmsar gerðir af stillanlegum hulstrum utan um spjaldtölvur, sum hver með lyklaborði þannig að vinnan verður auðveldari og valdi minna álagi á líkamann.
Handverkfæri eru notuð í allt frá fínni nákvæmnisvinnu til grófra verka sem útheimta mikinn kraft.
Gott handverkfæri er með handfangi sem gerir starfsfólki kleift að vinna án þess að leggja mikið álag á hendur.
Handfang þarf að passa sem flestum ef margir nota sömu verkfæri.
Huga þarf að því hvort verkfærið valdi titringi í höndum og/eða líkama. Titringur getur valdið bæði óþægindum og varanlegum skaða.
Ávallt skal leitast við að gera skipulagsráðstafanir og/eða nota léttibúnað þannig að komist verði hjá því að starfsfólk þurfi að lyfta þungu.
Ef ekki verður komist hjá því að lyfta hlutum skal nota léttitæki sem hæfa vinnunni.
Velja skal léttitæki sem hæfa starfinu og passa inn í vinnurýmið.
Veita þarf starfsfólki þjálfun og fræðslu um notkun þeirra og rétta líkamsbeitingu.
Léttitæki eru í grunninn þau tæki og tól sem létta okkur vinnu.
Dæmi um léttitæki eru lyftarar, vagnar á hjólum, sjúklingalyftur, segl, snúningslök, flutningsbelti og snúningsdiskar, góð handföng og margt fleira.
Algengustu ástæður þess að tæknibúnaður eða lyftitæki eru ekki notuð á vinnustað:
Viðeigandi tæknibúnaður er ekki til staðar
Tæknibúnaður eða lyftitæki eru of fá miðað við þörf
Fræðslu skortir um notkun viðeigandi lyftitækja eða tæknibúnaðar
Þjálfun vantar í notkun viðeigandi lyftitækja eða tæknibúnaðar
Þrengsli
Tímaskortur
Neikvætt viðhorf til lyftitækja og tæknibúnaðar.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið