Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Þegar unnið er í hæð þá er mikilvægt að undirbúa verkið vel. Um 10% vinnuslysa sem tilkynnt eru til Vinnueftirlitsins eru vegna falls úr hæð og geta afleiðingar af slíkum slysum verið mjög alvarlegar. Því er mikilvægt að tryggja að allur búnaður sem á að nota sé í lagi og sé notaður rétt miðað við verkið sem á að vinna.

Áhættumat - Taktu fimm 

Áhættumat þarf að gera fyrir alla vinnu. Ef um er að ræða vinnu þar sem aðstæður breytast dag frá degi eða ef unnið er á mismunandi stöðum við mismunandi aðstæður er sérstaklega mikilvægt að staldra við og meta aðstæður. Gefðu þér tíma og taktu fimm til öryggis fyrir þig og þína. 

Skrefin eru: 

  1. Hinkraðu og hugsaðu um verkið sem er framundan. Hentar sú verkáætlun sem við erum með?  Er eitthvað sem kallar á breytingu á áhættumati fyrir verkið? 

  2. Horfðu í kringum þig og áttaðu þig á mögulegum hættum. Hvað ef einhver hrasar á þaki eða á vinnupalli? Hvað ef einhver missir niður verkfæri? 

  3. Leggðu mat á hættuna og hugsaðu hverjir eru í hættu? Hvað er það versta sem getur gerst? Hvað er nú þegar búið að gera til að draga úr áhættunni? Hvað getur þú gert meira til að draga úr áhættunni? 

  4. Stýrðu áhættunni: Getur þú fjarlægt áhættuna alveg? Ef ekki, getur þú dregið úr henni með því að hugsa verkefnið upp á nýtt eða bæta við nauðsynlegum persónuhlífum? 

  5. Byrjaðu að vinna og haltu áfram að fylgjast með mögulegum áhættum í vinnuumhverfinu. 

Við þakvinnu eða vinnu í hæð getur veður haft mikið um það að segja hve mikil áhætta er fólgin í vinnunni. Því er mikilvægt að staldra við og leggja mat á áhættu sem fylgir verkinu með tilliti til veðurs. 

Mikilvægt er að starfsfólk sem þarf að vinna í hæð og stjórnendur þeirra sæki sér fræðslu til þess að allir hafi nauðsynlega þekkingu þannig að öryggi starfsfólks sé tryggt. 

Ef starfsfólki er veruleg hætta búin við vinnu í hæð er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að tryggja öryggi þess. Ef ekki er hægt að koma fyrir almennum öryggisráðstöfunum, svo sem að vinna verk úr lyftu eða koma upp handriði, þá þarf að trygga öryggi starfsfólks með fallvarnarbúnaði. Einnig skiptir miklu máli að nota fallvarnarbúnað rétt og í samræmi við ráðleggingar framleiðenda. 

Stigar, verkpallar, mannkörfur og lyftur eru allt dæmi um búnað sem notaður er til þess að vinna í hæð. Í slíkum búnaði eru innbyggðar öryggisráðstafanir sem eiga að koma í veg fyrir fall úr hæð. Ef þær öryggisráðstafanir eru ekki taldar nægjanlegar þá skal nota persónufallvarnir. Við vinnu í mannkörfum, spjótum og lyftum er góð venja að nýta einnig persónufallvarnir. Persónufallvarnir eru allur búnaður sem ætlað er að verja einstakling fyrir falli eða draga úr áhrifum falls.

Til eru tvær megingerðir persónufallvarna:

  • Annars vegar eru um að ræða taumhaldslínur sem tryggja að viðkomandi starfsmaður kemst aldrei lengra en ákveðna vegalengd til dæmis út að brún en ekki fram af henni.

  • Hins vegar er um að ræða línu með dempara sem ver starfsmanninn fyrir alvarlegum afleiðingum af falli. 

Miklu máli skiptir að velja þann búnað sem hentar best þeim aðstæðum og þeirri vinnu sem á að fara að vinna. 

Hindra fall eða draga úr áhrifum falls

Eitt af því fyrsta sem við þurfum að ákveða þegar við veljum okkur búnað til vinnu í hæð eða á þaki er hvort það henti að nota taumhaldslínu eða línu með dempara. Ef notaður er búnaður sem dregur úr áhrifum falls þá gerir álagið sem hann þarf að þola miklar kröfur til festipunktsins sem búnaðurinn er festur í. Til að setja álagið í samhengi þá má ímynda sér að slíkur festipunktur þurfi að þola að meðalstór bifreið sé hengd lóðrétt í punktinn.  

Sama hvaða búnað við veljum þá skiptir öllu máli að nota búnaðinn nákvæmlega eins og hann er hannaður til með því að kynna sér vel leiðbeiningar framleiðanda. Eins þarf að huga að því hvort ein taumhaldslína sé nægjanleg miðað við staðsetningu á festipunkti. Alltaf þarf að spyrja sig: Hvað gerist ef starfsfólk fellur? 

Það skapar mjög mikla hættu fyrir starfsfólk ef búnaður er ekki notaður rétt eða festipunktar sem valdir eru hafa ekki nægan styrk miðað við það álag sem óhjákvæmlega verður ef starfsfólk fellur í fallvarnarbúnaði. 

Fallhæð og vegalengd líflínu

Tökum dæmi: Starfsmaður er með tveggja metra líflínu með dempara sem gefur hámarkseftirgjöf upp á 1,75 metra. Við ákveðum að starfsmaður má aldrei fara nær jörðu en einn metra ef hann fellur. 

Ef starfsmaðurinn festir línu með dempara fyrir neðan sig í staðinn fyrir ofan þá skapast mikil hætta því þá er lengd línunnar orðin lengri en sem nemur vegalengdinni til jarðar. Starfsmaðurinn lendir því á jörðinni áður en að búnaðurinn kemur að gagni.

Ef fallvegalengdin er styttri en lengd línu ásamt dempara þá kemur fallvarnarbúnaður ekki að gagni og starfsmaðurinn lendir á jörðinni. 

Ef lengd línu ásamt dempara er lengri en hæðin niður á jörðu, og ekki er möguleiki á að færa festingu fyrir fallvarnarbúnað hærra þá þarf að nota taumhaldslínu í stað línu sem dregur úr áhrifum falls. 

Hvað segja leiðbeiningarnar?

Beltin og allur tengdur búnaður sem er ætlaður sem taumhald eða fallvörn skal vera af viðurkenndri gerð. Með beltunum og öllum tengdum búnaði eiga að fylgja leiðbeiningar. Það er á ábyrgð verkstjóra/atvinnurekanda að leiðbeiningarnar séu til staðar fyrir þá sem nota búnaðinn. Vinnueftirlitið leggur mikla áherslu á að farið sé í einu og öllu eftir leiðbeiningum framleiðanda. 

Notkun

Afar mikilvægt er að nota búnaðinn eins og leiðbeiningar framleiðanda segja til um. Það getur valdið stórhættu fyrir starfsfólk ef búnaður er notaður með öðrum hætti en leiðbeiningar framleiðanda segja til um. 

Geymsla

Ef búnaður til fallvarna er ekki geymdur rétt getur það valdið skemmdum á búnaði og orðið til þess að mikil áhætta skapist fyrir starfsfólk sem notar búnaðinn. Því skal ávallt fylgja leiðbeiningum framleiðanda um geymslu á búnaðinum.  

Neyðaráætlun

Starfsfólk sem hangir í fallvarnarbeltum getur hlotið meiðsli á skömmum tíma. Því þarf að liggja fyrir neyðaráætlun ef starfsfólk fellur í fallvarnarbúnaði. Við gerð slíkrar neyðaráætlunar þarf að leggja mat á hve langt er í sérhæfða aðstoð ef til þess kemur að starfsfólk fellur. 

Undir áætlun um öryggi og heilbrigði má finna sniðmát fyrir neyðaráætlun.

Mikilvægir öryggispunktar

Mikilvægt er við vinnu á þaki/í hæð að temja sér að gera öryggisráðstafanir sem farið er eftir. 

  • Áhættumat á alltaf að liggja fyrir.  

  • Tökum fimm og skoðum hvort áhættumatið eigi við verkið og veðuraðstæður á verkstað. 

  • Endurskoðum áhættumatið ef aðstæður breytast 

  • Notum alltaf viðurkenndan búnað og notum hann rétt. 

  • Notum alltaf búnað sem er í góðu lagi og tryggjum að leiðbeiningum leiðbeinanda um geymslu, viðhald og skoðanir hefur verið fylgt. 

  • Vinnum aldrei ein/n á þaki eða í hæð. 

Vinnueftirlitið leggur áherslu á að verkstjórnendur og öll sem koma nærri vinnu í hæð eða á þökum afli sér nægilegrar þekkingar til þess að vera betur í stakk búin til þess að tryggja öryggi á vinnustað svo öll komi heil heim.

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið