Tryggingastofnun: Uppgjör og innheimta
Þarf dánarbú eða erfingjar þess að endurgreiða skuld vegna ofgreiddra réttinda?
Samkvæmt lögum verður við andlát einstaklings til sjálfstæður lögaðili, dánarbú, sem tekur tímabundið við öllum réttindum og skyldum hins látna.
Erfingjum ber að hlutast til um skipti dánarbús hjá sýslumönnum innan fjögurra mánaða frá andláti. Ábyrgð á skuldbindingum búsins fer eftir því hvernig skiptum er háttað.
Skiptum getur almennt lokið með ferns konar hætti:
Einkaskiptum: Erfingjar gangast undir óskipta ábyrgð á skuldbindingum búsins.
Eftirlifandi maki fær leyfi til setu í óskiptu búi: Eftirlifandi maki ber ábyrgð á skuldbindingum búsins.
Opinberum skiptum: Skiptastjóri er skipaður af héraðsdómi og fer með forræði búsins. Erfingjar geta ábyrgst skuldbindingar þess.
Sýslumaður lýsir yfir eignaleysi dánarbúsins: Enginn er í ábyrgð fyrir skuldum búsins.
Mikilvægt er að umboðsmenn dánarbúa eða erfingjar skili skattframtali vegna óendurreiknaðra ára til RSK svo endurreikningur TR byggi á réttum forsendum.