Tryggingastofnun: Uppgjör og innheimta
Tekjur sem komu til fyrir töku lífeyris, eiga þær nokkuð að koma til lækkunar greiðslna?
Almenna reglan er sú að allar tekjur ársins eiga að liggja til grundvallar útreikningi lífeyrisgreiðslna.
Hins vegar er heimilt þegar einstaklingur leggur inn nýja umsókn um lífeyri að miða útreikning lífeyris eingöngu við þær tekjur sem áætlað er að aflað verði eftir að lífeyrisréttur stofnast.
Unnt er að beita heimildinni um nýja umsókn um örorkulífeyri/endurhæfingarlífeyri og um nýja umsókn um ellilífeyri, sé ekki um samfellt greiðslutímabil að ræða.
Heimildinni verður eingöngu beitt einu sinni um útreikning ellilífeyris. Þegar um endurhæfingar-eða örorkulífeyrisþega er að ræða telst umsókn vera ný ef liðin eru meira en tvö ár frá því að síðasta örorkumat rann út eða viðkomandi einstaklingur var í virkri endurhæfingu og/eða fékk greiðslur frá Tryggingastofnun.
Staðgreiðsluskyldar tekjur: Byggt er á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar. Eingöngu er litið til tekna þeirra mánaða sem lífeyrisréttur var til staðar.
Aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar: Almenna reglan er sú að aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar tekjur skulu hafa áhrif á endurreikning lífeyrisréttinda í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem réttur var til staðar.