Fara beint í efnið

Ef ungmenni starfa á vinnustaðnum skal skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði taka mið af því. Við gerð áhættumats, sem er liður í skriflegri áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þarf að meta sérstaklega hvaða hættur geta ógnað öryggi ungs starfsfólks.

Þá skal við val og skipulagningu starfa þeirra leggja áherslu á að líkamlegu og félagslegu öryggi þeirra og heilbrigði sé ekki hætta búin og að vinnan hafi ekki truflandi áhrif á menntun þeirra eða þroska.

Áhættumat

Við mat á áhættu skal sérstaklega taka tillit til hættunnar sem getur stafað af reynsluleysi ungmenna og þess að þau hafa ekki náð fullum þroska. Ástæðan er sú að þau eru oft ekki í stakk búin að gera sér grein fyrir öllum áhættuþáttum í vinnuumhverfinu. Við mat á varúðarráðstöfunum skal jafnframt taka tillit til líkamlegra, lífrænna, efnafræðilegra og sálrænna áhrifa sem ungmenni geta orðið fyrir til lengri eða skemmri tíma á vinnustaðnum.

Við gerð áhættumats vegna starfa ungmenna þarf meðal annars að greina og meta:

  • hvaða verkefni ungmenni mega ekki vinna, til dæmis við hættulegar vélar og tæki, með hættuleg efni eða aðstæður sem hæfa ekki líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra

  • hvaða verkefni þau mega einungis vinna undir eftirliti

  • skipulag vinnutíma, það er daglegan og vikulegan vinnutíma, lengd vinnuvakta og frídaga

  • þörf fyrir verkstjórn og fyrirkomulag hennar

  • þörf fyrir upplýsingar, leiðbeiningar og þjálfun og hvernig því er sinnt

  • forvarnir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi

  • hvort tekið er tillit til allra þarfa ungmenna með fötlun eða sérþarfir

Viðbrögð við niðurstöðum áhættumats

Þegar niðurstaða áhættumats liggur fyrir þarf að meta hver viðbrögð atvinnurekanda þurfa að vera til að tryggja öryggi og heilbrigði ungmennanna sem þar vinna. Atvinnurekandi kann að þurfa að bæta vinnuumhverfið með því annaðhvort að koma í veg fyrir áhættuna eða draga úr henni eins og frekast er unnt. Áætlun um heilsuvernd og forvarnir þarf að taka mið af þessu.

Þá þarf sérstaklega að gæta að:

  • hvorki sé um að ræða störf sem ungmenni mega ekki sinna né aðstæður sem hæfa ekki aldri þeirra og þroska

  • tryggja að ungmenni fái fullnægjandi kennslu og leiðbeiningar

  • eiga viðræður við fulltrúa starfsfólks, það er félagslegan trúnaðarmann og/eða öryggistrúnaðarmann, sem og ungmennin sjálf, um fyrirkomulag starfa þess

  • upplýsa foreldra og forráðamenn ungmenna um áhættu í starfi og forvarnaaðgerðir

  • tryggja að ungt starfsfólk njóti fullnægjandi heilsu– og öryggisverndar án tillits til ráðningarforms, starfshlutfalls eða ráðningartíma

Verkstjórn þegar ungmenni eru á vinnustað

Stjórnandi, til dæmis verkstjóri, þarf að tryggja að starfsfólk fari eftir þeim öryggisreglum sem gilda á vinnustaðnum ásamt því að ganga úr skugga um að starfsfólkið skilji þær og átti sig á mikilvægi þess að farið sé eftir þeim. Á þetta sérstaklega við þegar ungmenni starfa innan vinnustaðarins. Enn fremur þarf að gæta þess að stjórnandi sé orðinn 18 ára. Hann gengur ávallt á undan með góðu fordæmi og hefur nægilega innsýn í eðli starfanna.

Góð verkstjórn felst meðal annars í að: 

  • meta færni nýs starfsfólks til að framkvæma starfið

  • úthluta verkefnum í samræmi við getu hvers og eins

  • upplýsa og fræða um góð vinnubrögð

  • sýna réttar vinnuaðferðir, á hægum hraða ef með þarf

  • fylgjast með frammistöðu starfsmannsins og endurtaka sýnikennsluna til að auka skilning á verkinu ef með þarf

  • koma á varúðarráðstöfunum til að koma í veg fyrir slys, til dæmis að nota öryggishlífar, girða af hættusvæði, setja starfsreglur og hafa reglubundið eftirlit

  • hlusta á ungmennin, ráðgast við þau og deila með þeim upplýsingum, til dæmis með því að láta þau aðstoða við gerð áhættumats.

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið