Fara beint í efnið

Sjúkratryggingar taka þátt í greiðslu á tannlækningum fyrir börn upp að 18 ára og lífeyrisþega.

Til lífeyrisþega teljast

  • aldraðir

  • öryrkjar

  • einstaklingar sem fá endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun

Aðrir greiða sjálfir fyrir tannlæknakostnað samkvæmt gjaldskrá síns tannlæknis.

Skilyrði

Forsenda fyrir greiðsluþátttöku er að börn og lífeyrisþegar séu skráðir hjá heimilistannlækni. Einstaklingar sem fóru til tannlæknis eftir janúar 2017 eru nú þegar skráðir hjá viðkomandi tannlækni.

Hægt er að skrá sig hjá heimilistannlækni á Mínar síður eða hjá tannlækni.

Börn

Árlegt komugjald er 2.500 krónur.

Almennar tannviðgerðir

Sjúkratryggingar greiða allan kostnað fram að 18 ára aldri af bæði almennum tannviðgerðum og svæfingu.

Undanskilið er aðstöðugjald vegna tannviðgerða í svæfingu.

Undir almennar tannlækningar falla m.a. skoðun, greining, röntgenmyndir, reglulegt eftirlit, tannviðgerðir, rótfyllingar, tannholdslækningar, úrdráttur tanna og laus tanngervi skv. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 451/2013.

Fæðingagallar, slys og sjúkdómar

Nauðsynleg meðferð vegna afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma, sem ekki er faglega rétt að veita fyrr en eftir 17 ára aldur, greiðist af Sjúkratryggingum samkvæmt gjaldskrá fyrir tannlækningar barna.

Tannlæknir sendir umsókn rafrænt til Sjúkratrygginga og þarf ákvörðun að liggja fyrir áður en meðferð, önnur en bráðameðferð, hefst

Lífeyrisþegar

Almennar tannviðgerðir

Frá og með 1. febrúar 2024 greiða Sjúkratryggingar 75% af almennum tannviðgerðum.

Undanskilið er aðstöðugjald vegna tannviðgerða í svæfingu.

Undir almennar tannlækningar falla m.a. skoðun, greining, röntgenmyndir, reglulegt eftirlit, tannviðgerðir, rótfyllingar, tannholdslækningar, úrdráttur tanna og laus tanngervi skv. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 451/2013.

Gómar

  • Heilgómar: Sjúkratryggingar greiða 75% af kostnaði, bæði kostnað tannlæknis og tannsmiðs á 6 ára fresti. Einnig er greitt fyrir fóðrun góma á 3ja ára fresti.

  • Gómar á tannplanta: Fyrir góma sem smíðaðir eru á tannplanta er þátttaka Sjúkratrygginga í efri gómi allt að fjórum tannplöntum og neðri góm tveimur tannplöntum, bæði tannlæknir og tannsmiður.

Tannlæknir sendir umsókn rafrænt og bíður svars áður en meðferð hefst.

Brýr

Vegna brúarsmíði á tannplanta í stað heilgóma á þá, greiða Sjúkratryggingar samsvarandi upphæð og greidd er vegna gómasmíði en einstaklingur greiðir sjálfur umframkostnað.

Krónur eða tannplantar

60 þúsund króna styrkur er veittur vegna krónu eða tannplanta á hverju 12 mánaða tímabili. Ekki þarf að sækja um styrkinn. Tannlæknir lækkar reikninginn þinn sem honum nemur.

Fæðingagallar, slys og sjúkdómar

Ef um meðfædda galla, sjúkdóma eða slys er að ræða greiða Sjúkratryggingar 80%. Tannlæknir sendir umsókn rafrænt og bíður svars áður en meðferð hefst.

Langveikir

Til langveikra teljast andlega þroskahamlaðir með staðfesta sjúkdómsgreiningu F70-73 samkvæmt ICD-10. Sækja þarf um aukna greiðsluþátttöku til Sjúkratrygginga.

Tannviðgerðir og gómar

Sjúkratryggingar greiða 100% af almennum tannviðgerðum og gómum, bæði kostnað tannlæknis og tannsmiðs.

Fyrir góma sem smíðaðir eru á tannplanta er þátttaka Sjúkratrygginga í efri gómi allt að fjórum tannplöntum og neðri góm tveimur tannplöntum.
Tannlæknirinn sendir umsókn rafrænt og bíður svars áður en meðferð hefst.

Krónur og tannplantar

80 þúsund króna styrkur er veittur vegna krónu eða tannplanta á hverju 12 mánaða tímabili. Ekki þarf að sækja um styrkinn. Tannlæknir lækkar reikninginn þinn sem honum nemur.

Fæðingagallar, slys og sjúkdómar

Ef um meðfædda galla, sjúkdóma eða slys er að ræða greiða Sjúkratryggingar kostnað tannlæknis (tannsmiðs) upp að ákveðnu hámarki.
Tannlæknir sendir umsókn rafrænt og bíður svars áður en meðferð hefst.

Ungmenni 18 - 23 ára

Fæðingagallar, slys og sjúkdómar

Sjúkratryggingar greiða 100% vegna nauðsynlegra meðferða hjá tannlækni vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa sem upp koma fyrir 18 ára aldur en ekki er faglega rétt að sinna fyrr en eftir að fullum beinþroska er náð.
Tannlæknir sendir umsókn rafrænt og bíður svars áður en meðferð hefst.

Aðrir

Fæðingagallar, slys og sjúkdómar

Ef um alvarlegar afleiðingar meðfæddra galla, sjúkdóma eða slysa í frístundum er að ræða og slys er ekki greitt af þriðja aðila/tryggingafélagi, greiða Sjúkratryggingar 80% af gjaldskrá sem samið hefur verið um. Tannlæknir sendir umsókn rafrænt og bíður svars áður en meðferð hefst.

Reglur slysatrygginga gilda um tanntjón í vinnuslysum. Í alvarlegum tilvikum sem tilgreind eru í reglugerð 451/2013 kafla IV greiða Sjúkratryggingar 95% kostnaðar af gjaldskrá tannlæknis.

Dæmi: skarð í efri tannboga, klofinn gómur, heilkenni (Craniofacial Syndromes/Deformities) sem getur valdið alvarlegri tannskekkju, meðfædd vöntun fjögurra eða fleiri fullorðinstanna framan við 12 ára jaxla eða alvarlegt misræmi í vexti beina í höfuðkúpu og kjálka þar sem meðferð krefst kjálkafærsluaðgerðar.

Tannlæknir sendir umsókn rafrænt og bíður svars áður en meðferð hefst.

Hægt er að senda fyrirspurnir undir Hafðu samband

Þjónustuaðili

Sjúkra­trygg­ingar