Greiðsluþátttaka vegna tannlækninga
Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði við almennar tannlækningar barna að 18 ára aldri og lífeyrisþega, aðrar en tannréttingar, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 766/2024 og 20. gr. laga nr. 112/2008, í samræmi við samning um tannlækningar og með þeim takmörkunum sem þar koma fram.
Jafnframt taka Sjúkratryggingar þátt í kostnaði við nauðsynlegar tannlækningar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma, sbr. 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 766/2024 og 20. gr. laga nr. 112/2008.
Börn
Barn: Einstaklingur yngri en 18 ára.
Sjúkratryggingar greiða allan kostnað (100%) fram að 18 ára aldri af bæði almennum tannviðgerðum og svæfingu í samræmi við samning um tannlækningar og með þeim takmörkunum sem þar koma fram.
Undir almennar tannlækningar falla meðal annars skoðun, greining, röntgenmyndir, reglulegt eftirlit, tannviðgerðir, rótfyllingar, tannholdslækningar og úrdráttur tanna. Undanskilið er aðstöðugjald vegna tannviðgerða í svæfingu.
Árlegt komugjald er 3.500 krónur.
Skilyrði greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga er að barn sé skráð hjá heimilistannlækni. Hlutverk heimilistannlæknis er m.a. að boða börn í reglulegt eftirlit eftir þörfum hvers og eins, eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti, og skrá ástand tanna og munnhols. Hann sér jafnframt um forvarnir og nauðsynlegar tannlækningar þeirra. Fyrirkomulag þetta kemur þó ekki í veg fyrir að annar tannlæknir geti sinnt barninu.
Hægt er að skrá sig hjá heimilistannlækni á tannlæknastofu eða á Mínum síðum undir Heilsa - Heilsugæsla.
Ungmenni
Sjúkratryggingar greiða 100% vegna nauðsynlegra meðferða hjá tannlækni vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa sem upp koma fyrir 18 ára aldur en ekki er faglega rétt að sinna fyrr en eftir að fullum beinþroska er náð. Heimild þessi gildir þó að jafnaði ekki lengur en til 30 ára aldurs. Tannlæknir sendir Sjúkratryggingum umsókn rafrænt áður en meðferð hefst.
Endajaxlaúrdráttur ungmenna
Sjúkratryggingar hafa heimild til að taka þátt í hluta kostnaðar vegna úrdráttar endajaxla ef þeir hafa, eða eru líklegir til að valda alvarlegum vanda.
Heimilt er að fjarlægja innilokaðan endajaxl með skurðaðgerð á grundvelli 6. og 7. gr. hjá einstaklingum 18 ára og eldri með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga sem nemur styrk sem miðast við gjaldskrárnúmer 501 án fyrirfram samþykktrar umsóknar ef um er að ræða:
Innilokaðan endajaxl með langvinnan pericoronitis eða nýlega sögu um bráðan pericoronitis, þegar ljóst er að tönnin mun ekki ná að komast fram í eðlilega stöðu munni.
Innilokaðan endajaxl sem líklegar eru til þess að valda skaða, eða hefur valdið skaða á nærliggjandi fullorðinstönnum eða stoðvefjum þeirra, eða hindrað framkomu þeirra
Tannlæknir metur hvort skilyrði 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2024 séu uppfyllt. Ekki þarf því að sækja um styrkinn, heldur lækkar tannlæknir reikninginn sem því nemur.
Hægt er að sjá gjaldskrá tannlækninga frá 1. júlí 2025 á heimasíðu Sjúkratrygginga, undir Gjaldskrár - Bótafjárhæðir
Lífeyrisþegar
Til lífeyrisþega teljast öryrkjar og aldraðir.
Öryrki: Sá sem metinn hefur verið til a.m.k. 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins. Sama rétt og öryrkjar hafa þeir sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.
Aldraður: Sá sem náð hefur 67 ára aldri eða er á aldrinum 60-66 ára og nýtur ellilífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 17. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.
Sjúkratryggingar greiða 75% af almennum tannviðgerðum í samræmi við samning um tannlækningar og með þeim takmörkunum sem þar koma fram. Undir almennar tannlækningar falla m.a. skoðun, greining, röntgenmyndir, reglulegt eftirlit, tannviðgerðir, rótfyllingar, tannholdslækningar, úrdráttur tanna og laus tanngervi.
Gervigómar
Sjúkratryggingar greiða 75% af bæði kostnað tannlæknis og tannsmiðs vegna smíði gervigóma (heilgóma, plantagóma eða stálparta) lífeyrisþega á sex ára fresti. Einnig er greitt fyrir fóðrun góma á þriggja ára fresti.
Greiðist án umsóknar fyrir lífeyrisþega en annars aðeins að undangenginni samþykkt á umsókn.
Föst tanngervi og tannplantar í tenntan góm
Heimilt er að taka þátt í kostnaði lífeyrisþega vegna tannplanta eða annars fasts tanngervis í tenntan góm.
Tenntur gómur: Ein eða fleiri eigin tennur í efri góm eða neðri góm.
144.872 króna styrkur er veittur vegna tannplanta eða annars fasts tanngervis í tenntan góm framan við 12 ára jaxla á hverju 12 mánaða tímabili sem miðast við meðferðardag.
Ekki þarf að sækja um styrkinn. Tannlæknir lækkar reikninginn sem honum nemur.
Þeir einstaklingar sem fullnýtt hafa eldri styrk vegna smíði fastra tanngerva og tannplanta fyrir 1. júlí 2024 geta átt rétt á mismun á þessari fjárhæð og því sem þeir hafa áður fengið greitt, enda sé um nýja meðferð að ræða (á öðrum tönnum/tannstæðum en áður var styrkt) og sú meðferð veitt eftir 1. júlí 2024.
Sjúkratryggingar taka ekki þátt í kostnaði við endurgerð tannplanta eða fastra tanngerva ef minna en tíu ár eru liðin frá því að tannplanti eða fast tanngervi var sett á sömu tönn eða tannstæði.
Tannplantar í tannlausan góm
Heimilt er að taka þátt í 75% af kostnaði lífeyrisþega við ísetningu tannplanta í tannlausan góm til stuðnings tanngervis. Einnig er heimilt er að taka þátt í kostnaði við fast tanngervi.
Tannlaus gómur: Engin eigin tönn í efri eða neðri góm.
Greiðsluþátttakan takmarkast við tvo fyrstu tannplanta í neðri góm og fjóra fyrstu tannplanta í efri góm, að undangenginni samþykktri umsókn.
Sjúkratryggingar taka ekki, á sama 12 mánaða tímabili, þátt í kostnaði við ísetningu tannplanta í tenntan og tannlausan góm.
Tannlækningar og tannréttingar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma
Sjúkratryggingar taka þátt í 80% kostnaðar samkvæmt gjaldskrá og með þeim takmörkunum sem þar koma fram við nauðsynlegar tannlækningar og tannréttingar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Aðkeyptur tannsmíðakostnaður og rannsóknir greiðast í saman hlutfalli og vinna tannlæknis að ákveðnu hámarki.
Ef um tannréttingar er að ræða er skilyrði að þjónustan sé veitt af sérfræðingi í tannréttingum. Ef kjálkafærsluaðgerð er nauðsynleg vegna tannréttinga er skilyrði að sú meðferð sé veitt af sérfræðingi í munn- og kjálkaskurðlækningum.
Nauðsynlegt er að sækja um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga vegna þess áður en meðferð, önnur en bráðameðferð hefst. Tannlæknar senda umsóknir til Sjúkratrygginga fyrir skjólstæðinga sína.
Tannlækningar, aðrar en tannréttingar, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla og sjúkdóm
Sjúkratryggingar taka þátt í 80% kostnaðar samkvæmt gjaldskrá og með þeim takmörkunum sem þar koma fram vegna nauðsynlegra tannlækninga, annarra en tannréttinga, vegna eftirtalinna atvika, enda sé um að ræða alvarlegar afleiðingar meðfæddra galla eða sjúkdóma:
Meðfæddrar vöntunar einnar eða fleiri fullorðinstanna framan við 12 ára jaxla, sbr. þó 12. gr.
Vansköpunar fullorðinstanna framan við 12 ára jaxla sem leiðir til alvarlegra útlitsgalla eða starfrænna truflana tyggingarfæra.
Rangstæðra tanna, þ.m.t. endajaxla, sem tengdar eru meini (cystu eða æxli), kjálkabeindrepi, eða vegna kjálkafærsluaðgerðar.
Tanna, annarra en endajaxla, sem líklegar eru til þess að valda skaða eða hafa valdið skaða á nærliggjandi fullorðinstönnum eða stoðvefjum þeirra eða hindra uppkomu þeirra.
Alvarlegra einkenna frá kjálkaliðum eða tyggivöðvum.
Alvarlegrar sýrueyðingar glerungs og tannbeins fullorðinstanna framan við 12 ára jaxla.
Alvarlegs niðurbrots á stoðvefjum tanna framan við 12 ára jaxla.
Alvarlegra tannskemmda, framan við 12 ára jaxla sem leiða af varanlega alvarlega skertri munnvatnsframleiðslu af völdum geislameðferðar, Sjögrenssjúkdóms eða lyfja.
Annarra sambærilegra alvarlegra tilvika.
Nauðsynlegt er að sækja um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga vegna þess áður en meðferð, önnur en bráðameðferð hefst. Tannlæknar senda umsóknir til Sjúkratrygginga fyrir skjólstæðinga sína.
Tannlækningar, þ.m.t. tannréttingar, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla og sjúkdóma
Sjúkratryggingar greiða 95% kostnaðar samkvæmt gjaldskrá með þeim takmörkunum sem þar koma fram vegna nauðsynlegra og tímabærra tannlækninga og tannréttinga vegna eftirtalinna tilvika:
Alvarlegrar tannskekkju vegna skarðs í efri tannboga eða klofins góms.
Heilkenna (Craniofacial Syndrome/Deformity) sem valda tannvanda sambærilegum við alvarleg tilvik sem falla undir fyrsta tölulið.
Meðfæddrar vöntunar einnar eða fleiri framtanna eða augntanna í efri gómi eða vöntunar tveggja samliggjandi fullorðinstanna framan við 12 ára jaxla.
Misræmis í vexti beina í höfuðkúpu og kjálkum sem hefur valdið tannvanda sambærilegum við alvarleg tilvik sem falla undir ofangreinda töluliði. Þá er það forsenda greiðsluþátttöku að kjálkafærsluaðgerð sé þáttur í meðferðaráætluninni og að aðgerðin feli í sér að bein séu tekin sundur og fest á nýjum stað í sömu aðgerð.
Nauðsynlegt er að sækja um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga vegna þess áður en meðferð, önnur en bráðameðferð hefst. Tannlæknar senda umsóknir til Sjúkratrygginga fyrir skjólstæðinga sína.
Langveikir
Sjúkratryggingar greiða 100% kostnaðar samkvæmt gjaldskrá þeirra sem falla undir skilgreiningu langveikra. Sama rétt eiga einstaklingar með andlega þroskahömlun 18 ára og eldri.
Til langveikra teljast öryrkjar og aldraðir sem eru langsjúkir og dveljast á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum eða hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum.
Langsjúkur: Elli- eða örorkulífeyrisþegi sem dvelst lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum og dvölin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Sama á við ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða.
Til langveikra teljast einnig andlega þroskahamlaðir með staðfesta sjúkdómsgreiningu F70-73 samkvæmt ICD-10. Sækja þarf um aukna greiðsluþátttöku til Sjúkratrygginga vegna þeirra.
Andleg þroskahömlun: ICD-10 sjúkdómsgreining F70-73.
Tannlækningar

Þjónustuaðili
Sjúkratryggingar