Fara beint í efnið

Ísland.is

Fyrir Grindavík

Upplýsingar fyrir íbúa Grindavíkur

header

Nýr rafstrengur lagður til Grindavíkur til bráðabirgða

5. júní 2024

Nýr rafstrengur verður lagður til Grindavíkur til bráðabirgða í því skyni að koma á rafmagni í bænum. Rafstrengir höfðu gefið sig í yfirstandandi jarðhræringum við Sundhnjúksgíga.

Framkvæmdir í Grindavík

Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur telur brýnt að tryggja rafmagn til bæjarins. Nefndin hefur því gert tillögu til innviðaráðherra um að um heimila og fjármagna neyðartengingu. Tillagan var kynnt á ríkisstjórnarfundi í gær. Nefndin tók formlega til starfa um mánaðamótin og er þetta meðal fyrstu verkefna hennar.

Útfærsla á bráðabirgðatengingu var unnin í samvinu við HS Veitur en talið er að framkvæmdir við slíka tengingu taki allt að sex daga.

Áfram verður fjallað um leiðir til að koma á varanlegri eða endanlegra tengingu milli flutningskerfis Landsnets og Grindavíkur.

Nánari lýsing á bráðabirgðatengingunni

Helming leiðarinnar, þar sem bráðabirgðatengingin verður lögð, verður notast við eldri streng sem liggur frá Svartsengi að borplani HS Orku. Nýr hluti verði plægður í vegkant borholuvegar og strengur dysjaður þar sem ekki er unnt að ná fullri dýpt.

Nýr jarðstrengur verður tengdur í jarðstöð á Borholuplani HS Orku og síðan í dreifistöð DRE-154 við Matorku og þannig er verið að nýta þá innviði sem fyrir eru. Frá dreifistöðinni liggja strengir til Grindavíkur og nærliggjandi fyrirtækja. Nýja hraunið eyðilagði hluta strengs sem liggur frá DRE-154 til Grindavíkur. Á þeim hluta leiðarinnar þarf að leggja nýjan streng meðfram nýja hrauninu og inn í Grindavík.

Gert er ráð fyrir að hægt sé að flytja allt að 4-5 MW um strenginn.