Upplýsingar fyrir fósturforeldra
Fóstursamningur og greiðslur
Barnaverndarþjónusta sem ráðstafar barni í fóstur á að gera skriflegan fóstursamning við fósturforeldra áður eða um leið og barn fer í fóstur. Í fóstursamningi kemur m.a. fram hverjar greiðslur til fósturforeldra verða á gildistíma samnings.
Fóstursamningur
Í fóstursamningi eiga ákveðin atriði að koma fram:
Lögheimili barns og dagleg umsjá
Forsjárskyldur – þar með talin lögráð
Áætlaður fósturtími
Framfærsla barns og annar kostnaður
Umgengni barns við kynforeldra og/eða aðra nákomna
Stuðningur barnaverndarþjónustu við barn og fósturforeldra á meðan fóstur varir
Lok fósturs
Hvað felst í sérstakri umönnun og þjálfun þegar það á við
Annað sem skiptir máli
Hluti fóstursamnings er umgengnissamningur sem er unninn í samráði við fósturforeldra. Þar kemur fram hvert hlutverk fósturforeldra er kringum umgengni, til dæmis varðandi ferðalög, stuðning og eftirlit. Lesa má nánar um umgengni í undirkafla um réttindi barna í fóstri.
Sjá 4. kafla í Reglugerð um fóstur 804/2004
Lögheimili og forsjá
Lögheimili barns í varanlegu fóstri flyst til fósturforeldra. Þegar lögheimili flyst til fósturforeldra geta þeir fengið barnabætur og barn er skráð á skattskýrslu þeirra. Þá hafa þeir ýmis réttindi eins og fæðingarorlofsrétt.
Forsjá fósturbarna flyst ekki beint til fósturforeldra. Í tímabundnu fóstri fara kynforeldrar yfirleitt áfram með forsjá barnsins, en í varanlegu fóstri fer barnaverndarþjónusta með forsjána í kjölfar þess að kynforeldrar afsala sér forsjá eða eru sviptir henni.
Fósturforeldrar fara þó með forsjárskyldur og í reynd er hlutverk fósturforeldra barna í varanlegu fóstri sambærilegt við fulla forsjá barns í veigamestu atriðum. Einungis meiri háttar ákvarðanir varðandi barnið, eins og læknisaðgerðir eða flutning til útlanda, skal taka í samráði við barnavernd.
Greiðslur í fóstri
Þegar barni er ráðstafað í fóstur skal ákveða í fóstursamningi hver skuli vera greiðsla með því til fósturforeldra, þ.e. framfærslueyrir, fósturlaun og annar kostnaður.
Lok greiðslna
Barnaverndarþjónusta eða fósturforeldrar geta sagt upp fóstursamningi eða óskað eftir að hann verði felldur úr gildi. Gert er ráð fyrir eins mánaðar gagnkvæmum uppsagnarfresti nema samið sé um annað. Greiðslur falla niður að loknum uppsagnarfresti eða á umsömdum degi.
Ef ekki næst samkomulag milli barnaverndarþjónustu og fósturforeldra um lok greiðslna skal barnaverndarþjónusta úrskurða í málinu. Sú ákvörðun barnaverndarþjónustu er kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Þjónustuaðili
Barna- og fjölskyldustofaTengd stofnun
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála