Fara beint í efnið

Prentað þann 27. jan. 2022

Stofnreglugerð

858/2013

Reglugerð um greiðslur vegna barna í fóstri.

I. KAFLI Almennt um greiðslur vegna barna í fóstri.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi fjallar um greiðslur sveitarfélaga vegna barna í fóstri skv. 2. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, og hlut ríkisins í kostnaði vegna styrkts fósturs á grundvelli 4. mgr. 65. gr. sömu laga.

Þegar barnaverndarnefnd ráðstafar barni í fóstur í samræmi við XII. kafla barnaverndarlaga fer um greiðslur vegna þeirrar ráðstöfunar samkvæmt reglugerð þessari.

2. gr. Skilgreining á hugtökum.

 1. Fóstur.

  Um fóstur er að ræða þegar barnaverndarnefnd er skylt að ráðstafa barni í fóstur í samræmi við XII. kafla barnaverndarlaga þegar könnun leiðir í ljós að fósturráðstöfun er nauðsynleg og eitthvað af eftirtöldu liggur fyrir:

  1. foreldrar hafa afsalað sér forsjá eða umsjá og samþykkt fósturráðstöfun,
  2. kveðinn hefur verið upp úrskurður um heimild til að fóstra barn utan heimilis þegar samþykki foreldra og barns eftir atvikum liggur ekki fyrir,
  3. foreldrar hafa verið sviptir forsjá með dómi,
  4. barn er forsjárlaust vegna andláts forsjáraðila eða
  5. barn sem komið hefur til landsins án forsjáraðila sinna er í umsjá barnaverndarnefndar eða fær hæli eða dvalarleyfi á Íslandi.

  Í framangreindum tilvikum felur barnaverndarnefnd fósturforeldrum umsjá og/eða aðrar forsjárskyldur í að minnsta kosti þrjá mánuði.

  Fóstur getur verið þrenns konar, þ.e. tímabundið fóstur, styrkt fóstur eða varanlegt fóstur. Um skilgreiningar á tegundum fósturs vísast til reglugerðar um fóstur sem sett er skv. 78. gr. barnaverndarlaga.

 2. Fóstursamningur.

  Fóstursamningur er skriflegur samningur milli barnaverndarnefndar og fósturforeldra sem gerður er þegar barnaverndarnefnd ráðstafar barni í fóstur.

 3. Framfærslueyrir.

  Með framfærslueyri er átt við greiðslu til að mæta kostnaði vegna daglegrar framfærslu barns. Af framfærslueyri ber fósturforeldrum að standa straum af öllum almennum kostnaði sem felst í því að hafa umsjá barns, svo sem að sjá barninu fyrir fullnægjandi aðstöðu á heimili, mat, endurnýjun á fatnaði, almennri læknisþjónustu, daglegum ferðalögum, mötuneytiskostnaði í skóla, venjubundnum útbúnaði í skóla og almennum tómstundum.

 4. Fósturlaun.

  Með fósturlaunum er átt við umönnunarlaun fósturforeldra.

 5. Annar fyrirsjáanlegur kostnaður.

  Með öðrum fyrirsjáanlegum kostnaði er átt við kostnað sem fyrirsjáanlegt er að verði um að ræða á meðan fóstur varir, svo sem greiðslu vasapeninga, ferðakostnað vegna umgengni barns við nákomna, kostnað við leikskóla eða aðra gæslu, sérstakan námskostnað eða mikinn kostnað vegna tómstunda, kostnað vegna ferminga, útgjöld vegna meiri háttar tannlækninga eða umtalsverðrar heilbrigðisþjónustu, svo sem vegna alvarlegra eða langvarandi sjúkdóma, og umtalsverðan ferðakostnað í tengslum við nauðsynlega þjónustu sem barn þarf að sækja, svo sem heilbrigðisþjónustu.

 6. Ófyrirséður kostnaður.

  Með ófyrirséðum kostnaði er átt við allan kostnað vegna fóstursins sem ekki var fyrirsjáanlegt að yrði um að ræða þegar fóstursamningur var gerður, svo sem sérstakan námskostnað eða verulegan kostnað vegna tómstunda eða tannlækninga, eða umtalsverða heilbrigðisþjónustu og umtalsverðan ferðakostnað í tengslum við nauðsynlega þjónustu sem barn þarf að sækja, svo sem heilbrigðisþjónustu.

II. KAFLI Greiðslur vegna barna í fóstri.

3. gr. Greiðslur til fósturforeldra.

Þegar barni er ráðstafað í fóstur skal ákveða í fóstursamningi hver skuli vera greiðsla með því til fósturforeldra, þ.e. framfærslueyrir, fósturlaun og annar kostnaður. Greiðslur samkvæmt fóstursamningi skulu greiddar eftir á nema samið sé um annað. Fósturlaun greiðast vegna barna í tímabundnu fóstri og styrktu fóstri og einungis í algjörum undantekningartilvikum vegna barna í varanlegu fóstri, sbr. 4. mgr. 5. gr.

Framfærslueyrir og fósturlaun skulu miðast við margfeldi af fjárhæð barnalífeyris eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar.

4. gr. Greiðsla framfærslueyris.

Þegar barnaverndarnefnd ráðstafar barni í fóstur skal ávallt greiða fósturforeldrum framfærslueyri til að mæta kostnaði vegna daglegrar framfærslu barns. Framfærslueyrir vegna barns í fóstri skal nema þreföldum barnalífeyri.

Greiðslur sem fósturforeldrar fá frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum eða öðrum aðilum vegna framfærslu fósturbarns dragast frá framfærslueyri samkvæmt ákvæði þessu.

5. gr. Greiðsla fósturlauna.

Þegar barn er í tímabundnu fóstri greiðir barnaverndarnefnd fósturforeldrum sérstök fósturlaun auk framfærslueyris skv. 4. gr. Lágmark fósturlauna tekur mið af aldri barns á hverjum tíma og skal ekki nema lægri fjárhæð en:

 1. Þreföldum barnalífeyri vegna barna 0-6 ára.
 2. Fjórföldum barnalífeyri vegna barna 6-12 ára.
 3. Fimmföldum barnalífeyri vegna barna 12 ára og eldri.

Þegar fjárhæð fósturlauna skv. 1. mgr. er ákveðin skal barnaverndarnefnd meta málið með hliðsjón af þörfum barnsins í hverju tilviki, svo sem hversu mikillar umönnunar barnið þarfnast. Fósturlaun skulu að jafnaði ekki nema meira en tíföldum barnalífeyri.

Barnaverndarnefnd greiðir ekki fósturlaun vegna barna sem ráðstafað er tímabundið til foreldris skv. 67. gr. a og 67. gr. b barnaverndarlaga nema í algjörum undantekningartilvikum.

Barnaverndarnefnd getur í algjörum undantekningartilvikum ákveðið að greiða fósturlaun vegna barns í varanlegu fóstri þegar sýnt þykir að umönnun barnsins muni verða sérstaklega krefjandi. Eru slík fósturlaun tímabundin og skal endurskoða eigi sjaldnar en árlega.

Við mat á fjárhæð fósturlauna má taka tillit til greiðslna sem fósturforeldrar kunna að eiga rétt á samkvæmt öðrum lögum, sbr. 13. gr. Við matið má jafnframt taka tillit til annarra greiðslna sem barnaverndarnefnd greiðir fósturforeldrum skv. 7. gr.

Barnaverndarnefnd getur sett sér viðmiðunarreglur varðandi það hvaða sjónarmið koma til skoðunar við nánari ákvörðun fósturlauna, þ. á m. til hvaða þarfa barns skuli líta, sbr. 2. mgr., og í hvaða tilvikum kemur til álita að greiða fósturlaun auk framfærslulífeyris skv. 3. og 4. mgr.

6. gr. Greiðslur í styrktu fóstri.

Ef Barnaverndarstofa samþykkir að barn fari í styrkt fóstur þá greiða barnaverndarnefnd sem ráðstafar barninu og Barnaverndarstofa að jafnaði framfærslueyri og fósturlaun sem svara allt að átjánföldum barnalífeyri.

Ef fyrirsjáanlegt er að umönnunarþörf barns í styrktu fóstri sé sérstaklega mikil og ljóst er að gera þurfi meiri kröfur til fósturforeldra en greiðslur skv. 1. mgr. ákvæðisins gera ráð fyrir geta barnaverndarnefnd sem ráðstafar barninu og Barnaverndarstofa í algjörum undantekningartilvikum ákveðið í sameiningu að greiða allt að átjánföldum barnalífeyri í fósturlaun til viðbótar við greiðslur skv. 1. mgr. Sá hluti fósturlaunanna skal vera í samræmi við aukið vinnuframlag fósturforeldra og bundinn ákveðnum skilyrðum, svo sem sérstakri þjálfun, menntun eða aukinni handleiðslu til fósturforeldra, sem Barnaverndarstofa og barnaverndarnefnd ákveða í sameiningu og fram koma í fóstursamningi.

Barnaverndarstofa getur sett viðmiðunarreglur varðandi það hvaða sjónarmið koma til skoðunar þegar metið er í hvaða tilvikum forsendur eru fyrir greiðslu hærri fósturlauna í styrktu fóstri og hvaða skilyrði hægt er að setja fyrir slíkum greiðslum að öðru leyti.

Greiðslur samkvæmt ákvæði þessu skiptast jafnt milli barnaverndarnefndar og Barnaverndarstofu.

7. gr. Greiðslur vegna annars fyrirsjáanlegs kostnaðar.

Ef fyrirsjáanlegt er að um sérstakan annan kostnað verði að ræða á meðan fóstur varir, sbr. 5. lið 2. gr., skal ákveða í fóstursamningi hver verði greiðsla til fósturforeldra vegna þess kostnaðar.

8. gr. Greiðslur vegna ófyrirséðs kostnaðar.

Fósturforeldrar geta farið fram á greiðslur á ófyrirséðum kostnaði, sbr. 6. lið 2. gr., með rökstuddri beiðni til þeirrar barnaverndarnefndar sem ráðstafaði barninu í fóstur. Beiðnin skal koma fram áður en til útgjalda kemur. Ef um er að ræða útgjöld sem ekki þola bið á beiðnin að koma fram eins fljótt og kostur er og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að fósturforeldrum varð kunnugt um útgjöldin.

Ef ekki næst samkomulag milli barnaverndarnefndar og fósturforeldra um greiðslur á ófyrirséðum kostnaði skal barnaverndarnefndin afgreiða málið með rökstuddri bókun.

9. gr. Endurskoðun fósturlauna.

Barnaverndarnefnd getur ákveðið í fóstursamningi að fjárhæð fósturlauna skuli endurskoðuð ef líklegt þykir að þarfir barns kunni að breytast á meðan fóstur varir.

Fósturforeldrar geta óskað eftir að barnaverndarnefnd endurskoði fjárhæð fósturlauna ef þeir telja að umönnunarþörf barns hafi breyst frá því að fóstursamningur var gerður.

Ef ekki næst samkomulag milli barnaverndarnefndar og fósturforeldra um endurskoðun fósturlauna skal barnaverndarnefnd úrskurða í málinu. Sú ákvörðun barnaverndarnefndar er kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála.

10. gr. Lok greiðslna fósturlauna.

Ef barnaverndarnefnd segir fóstursamningi upp eða óskar eftir að hann verði felldur úr gildi falla greiðslur niður að loknum uppsagnarfresti eða á því tímamarki sem aðilar eru sammála um að samningur falli úr gildi. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur skal vera einn mánuður nema samið sé um annað.

Ef fósturforeldrar segja fóstursamningi upp eða óska eftir að samningur verði felldur úr gildi falla greiðslur niður á sama tímamarki og kveðið er á um í 1. mgr. að því gefnu að fósturforeldrar sinni skyldum sínum samkvæmt fóstursamningi þar til uppsagnarfresti lýkur eða samningur hefur fallið úr gildi.

Ef samningi er rift vegna verulegra vanefnda falla greiðslur niður við riftun samningsins.

Ef ekki næst samkomulag milli barnaverndarnefndar og fósturforeldra um lok greiðslna skal barnaverndarnefnd úrskurða í málinu. Sú ákvörðun barnaverndarnefndar er kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála.

III. KAFLI Ábyrgð á kostnaði vegna fósturs.

11. gr. Framfærsluskylda foreldra.

Foreldrar barns sem ráðstafað er í fóstur eru framfærsluskyldir gagnvart því nema foreldri hafi verið svipt forsjá barnsins eða afsalað sér forsjá þess til barnaverndarnefndar.

Barnaverndarnefnd krefur foreldra um framfærslueyri með barni meðan á vistun stendur. Barnaverndarnefnd getur ákveðið að slík krafa verði ekki gerð með hliðsjón af þörfum barnsins og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra. Með sömu sjónarmiðum getur barnaverndarnefnd ákveðið að aðstoða foreldra við kostnað vegna umgengni við barn í fóstri að hluta til eða öllu leyti.

Ef ekki næst samkomulag um greiðslur skv. 2. mgr. skal afgreiða málið með rökstuddri bókun.

Um viðmið við ákvörðun og innheimtu framfærslueyris fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum barnalaga.

12. gr. Kostnaður samkvæmt fóstursamningi.

Barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur greiðir þann kostnað við fóstur sem leiðir af fóstursamningi. Ef foreldrum er ætluð kostnaðarhlutdeild vegna fósturs, svo sem greiðsla framfærslueyris eða greiðsla ferðakostnaðar vegna umgengni við barn, greiðir barnaverndarnefnd fósturforeldrum þann kostnað og endurkrefur foreldra, sbr. 10. gr.

Þegar um styrkt fóstur er að ræða fer um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga skv. 2. mgr. 75. gr. og 2. mgr. 88. gr. barnaverndarlaga og 7. gr. reglugerðarinnar. Hlutur ríkisins greiðist þegar fóstursamningur hefur verið sendur Barnaverndarstofu.

13. gr. Annar kostnaður vegna fósturbarns.

Fósturforeldrar og fósturbarn eiga rétt á öllum almennum greiðslum samkvæmt lögum og fer um kostnað vegna þeirrar þjónustu samkvæmt þeim lögum sem gilda á hverju sviði, svo sem lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, leikskóla, grunnskóla, málefni fatlaðs fólks, almannatryggingar, sjúkratryggingar o.s.frv.

14. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 1. mgr. 75. gr. og 2. mgr. 88. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, öðlast þegar gildi.

Fóstursamningar sem gerðir hafa verið fyrir gildistöku reglugerðar þessarar halda gildi sínu.

Velferðarráðuneytinu, 10. september 2013.

Eygló Harðardóttir
félags- og húsnæðismálaráðherra.

Þorgerður Benediktsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.