Fara beint í efnið

Talað er um fósturlok þegar fóstursamningur rennur út í lok umsamins tíma. Mikilvægt er að fósturlok séu vel undirbúin til að lágmarka óvissu hjá fósturbarni um framtíðina.

Fósturlok í tímabundnu fóstri

Fóstur er ýmist tímabundið eða varanlegt. Með tímabundnu fóstri er átt við að fóstur vari í ákveðin tíma og ætla má að hægt sé að bæta aðstæður þannig að barn geti snúið aftur til foreldra sinna. Misjafnt er hversu langir tímabundnir fóstursamningar eru, allt frá 3 mánuðum upp í eitt ár.

Mánuði áður en fóstri lýkur ber barnaverndarþjónustu að taka ákvörðun um áframhaldandi meðferð máls barnsins og þá hvort samningur við fósturforeldra verði framlengdur eða aðrar ráðstafanir gerðar. Áður hefur staða barnsins verið metin og hvort markmiðum með fóstri hafi verið náð.

Ef fósturbarn upplifir óvissu um framtíðina getur það valdið kvíða sem gæti komið fram sem neikvæð hegðun og erfiðleikar í skóla. Það er því mikilvægt að fósturforeldrar taki þátt í því með barnaverndarþjónustu að undirbúa næstu skref, gjarnan með nokkurra mánaða fyrirvara.

Við lok fósturs ber barnaverndarþjónustu að undirbúa barn undir viðskilnað frá fósturforeldrum og það sem tekur við að fóstri loknu. Mikilvægt er að heimkoma barnsins aftur til kynforeldra sé vandlega undirbúin.

Uppsögn eða breyting á samningi

Ef fóstursamningur er gerður til 12 mánaða eða skemmri tíma getur hvor aðili sagt upp samningi og skal miða við eins mánaðar gagnkvæman uppsagnarfrest nema annars sé sérstaklega getið í fóstursamningi. Uppsögn skal berast skriflega og miðast við næstu mánaðarmót.

Ef fóstursamningur er gerður til lengri tíma en 12 mánaða getur hvor aðili óskað þess að breyta samningi eða fella samning úr gildi. Ef ekki næst samkomulag milli barnaverndarþjónustu og fósturforeldra getur barnaverndarþjónustan með rökstuddum úrskurði breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi. Úrskurður er kæranlegur til Úrskurðarnefndar Velferðarmála.

Þrátt fyrir að varanlegur fóstursamningur sé gerður getur barnaverndarþjónusta sagt upp samningnum hafi kynforeldri sýnt fram á að það geti tekið aftur við barni sínu og ástæður fóstursins ekki lengur til staðar.

Ótímabær fósturlok (fósturrof)

Fósturrof er þegar markmið fósturúrræðis gengur ekki upp og fóstursamningi er sagt upp áður en gildistíma hans lýkur.

Hvor aðili um sig getur tafarlaust rift fóstursamningi ef um verulega vanefnd er að ræða af hálfu hins aðilans.

Veruleg vanefnd telst meðal annars vera fyrir hendi ef:

  1. óhæfilegur dráttur verður á umsömdum greiðslum frá barnaverndarþjónustu til fósturforeldra,

  2. fósturforeldri fremur brot á ákvæðum almennra hegningarlaga eða XVIII. kafla barnaverndarlaga gagnvart fósturbarni eða öðru barni,

  3. fósturforeldri fremur alvarlegt brot á ákvæðum almennra hegningarlaga eða annarra laga eða

  4. fósturbarn býr við slæman aðbúnað hjá fósturforeldri. 

Ef barnaverndarþjónusta telur fósturforeldri hafa vanefnt samning verulega og ekki næst samkomulag milli þjónustunnar og fósturforeldra getur þjónustan gripið til neyðarráðstöfunar skv. 31. gr. barnaverndarlaga og tekið barnið af fósturheimilinu. Barnavernd getur í kjölfarið fellt fóstursamning úr gildi með rökstuddum úrskurði. Úrskurður er kæranlegur til Úrskurðarnefnar Velferðarmála.

Breyttar forsendur eða breytingar á högum fósturforeldra

Ef aðstæður fósturforeldra breytast meðan fóstur varir, svo sem vegna skilnaðar, andláts, búferlaflutninga eða heilsubrests, ber fósturforeldrum að tilkynna það þeirri barnaverndarþjónustu sem ráðstafaði barni í fóstur.

Barnaverndarþjónustan metur hvort þörf er á að endurskoða fóstursamning vegna breytinga á högum fósturforeldra. Ef ekki næst samkomulag milli barnaverndarþjónustu og fósturforeldra getur barnaverndarþjónustan með rökstuddum úrskurði breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi. Úrskurður er kæranlegur til Úrskurðarnefndar Velferðarmála.

Get ég fengið annað barn í fóstur ef ótímabær fósturlok hafa orðið?

Ótímabær fósturlok útiloka ekki að fósturforeldrar geti fengið annað barn í fóstur. Skoða þarf hvað varð til fósturloka og hvort taka þurfi tillit til einhverra þátta við nýja vistun.

Barn óskar eftir að fóstri ljúki

Barnavernd skal taka tillit til skoðana barns. Ef barn óskar eftir því að fóstri ljúki skoðar barnavernd ástæður þess og hvort hægt sé að bæta úr áður en fóstur er rofið.

Barn eldra en 15 ára er aðili máls og þarf að samþykkja vistun utan heimilis. Ef barn dregur samþykki sitt til baka þarf barnavernd að taka ákvörðun um hvort úrskurðað verði í málinu. 

Fósturlok þegar barn verður 18 ára

Varanlegu fóstri lýkur almennt við 18 ára aldur barnsins.

Heimilt er að framlengja fóstursamning til 20 ára aldurs óski barnið eftir því. Þrátt fyrir að fóstri sé lokið er markmið með varanlegu fóstri að barnið dvelji hjá fósturforeldrum þar til það sjálft getur staðið á eigin fótum og byggt upp sjálfstætt líf.

Ef þörf er á frekari stuðningi og þjónustu fyrir fósturbarn eftir 18 ára aldur skal það undirbúið af barnaverndarþjónustu að flytja mál til félagsþjónustu í viðkomandi sveitarfélagi þannig að samfella verði á þjónustu.

Sé þörf á búsetuúrræði vegna langvarandi stuðningsþarfa skal stuðningsteymi bera ábyrgð á því að framtíðarþjónusta og búsetuþörf sé metin við 17 ára aldur.