Upplýsingar fyrir fósturforeldra
Handleiðsla og stuðningur
Góður stuðningur við fósturforeldra þegar barn er komið á heimilið er gífurlega mikilvægur og hefur mikil áhrif á það hvort markmið fóstursins náist.
Stuðningur
Misjafnt er milli fósturráðstafana og fósturforeldra hvaða stuðningur er nauðsynlegur hverju sinni. Barnaverndarþjónusta sem ráðstafar barni í fóstur á að veita barni og fósturforeldrum nauðsynlegan stuðning á meðan fóstur varir.
Fósturráðstöfun er teymisvinna þeirra aðila sem koma að umönnun og stuðningi við barnið. Í því teymi gegna fósturforeldrar mikilvægu hlutverki og geta sótt þangað ráðgjöf og stuðning.
Í hverjum fóstursamningi er útfært nánar í hverju stuðningur er fólginn og hvernig árangur verður metinn af hverju og einu úrræði, inngripi eða þjónustu.
Meðal atriða sem gætu verið nefnd í fóstursamningi eru:
Möguleg meðferð, til dæmis viðtöl hjá sálfræðingi eða öðrum
Nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, lyfjameðferð eða þjálfun
Hvernig handleiðslu við fósturforeldra verður háttað
Fyrirkomulag reglulegs samráðs þeirra sem koma að máli barnsins
Heimsóknir fulltrúa barnaverndar á fóstuheimili meðan á fóstri stendur
Önnur stuðningsúrræði eftir því sem við á, til dæmis í skóla barnsins eða með auknu vinnuframlagi fósturforeldra
Handleiðsla
Handleiðsla er eitt form stuðnings við fósturforeldra sem fer fram í gegnum einstaklings- eða hópviðtöl.
Í handleiðslu geta fósturforeldrar rætt hlutverk sitt við utanaðkomandi fagaðila sem er ekki hluti af fósturferlinu, eða hjá starfsmanni barnaverndar sem fer með mál fósturbarns. Hafi fósturforeldrar hug á að fá utanaðkomandi handleiðslu geta þeir óskað eftir því hjá barnavernd.
Markmið handleiðslu er meðal annars að fósturforeldrar styrkist í hlutverki sínu, fái speglun og endurgjöf, sjái áskoranir frá öðru sjónarhorni og finni hentugar leiðir til að takast á við hlutverk sitt.
Fósturforeldrar mæta ýmsum áskorunum í hlutverki sínu og geta upplifað ýmsar tilfinningar og hugsanir sem getur verið gott að fá að ræða. Hluti handleiðslu er að gera fósturforeldra meðvitaða um hvernig líðan, hugsanir og hegðun þeirra sjálfra hafi áhrif á aðstæðurnar.
Þeir geta líka fengið viðeigandi leiðbeiningar við að takast á við áskoranir í hlutverki sínu, við að brjóta upp neikvæð samskiptamynstur milli fjölskyldumeðlima og að takast á við samskipti við önnur kerfi með árangursríkum hætti.
Handleiðsla er fyrirbyggjandi fyrir kulnun og getur unnið á samkenndarþreytu.
Önnur ráðgjöf
Einnig geta fósturforeldrar leitað ráðgjafar hjá sérfræðingum fósturteymis Barna- og fjölskyldustofu.
Þjónustuaðili
Barna- og fjölskyldustofaTengd stofnun
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála