Fara beint í efnið

Áður en fósturforeldrar taka að sér fósturbarn er gott að þeir séu í samráði við vinnuveitenda varðandi svigrúm í vinnu til að geta sinnt skyldum sínum gagnvart fósturbarni. Einnig getur verið gott að ræða við stéttarfélag um möguleg réttindi.

Fæðingarorlof

Fósturforeldrar eiga ekki rétt á fæðingarorlofi fyrr en gerður hefur verið varanlegur fóstursamningur vegna barns yngra en 8 ára. Þá er fæðingarorlof 12 mánuðir, hvort foreldri um sig á rétt á 6 mánuðum og eru 6 vikur framseljanlegar. 

Lesa nánar um rétt til fæðingarorlofs á vef Vinnumálastofnunnar.

Foreldraorlof

Foreldri á innlendum vinnumarkaði á rétt á foreldraorlofi í 4 mánuði til að annast barn sitt.

Réttur til foreldraorlofs stofnast við töku barns í varanlegt fóstur og er miðað við þann tíma þegar barnið kom inn á heimilið, eins og staðfest er af barnaverndarþjónustu. Réttur til foreldraorlofs fellur niður þegar barnið nær átta ára aldri.

Hafi réttur til foreldraorlofs fallið niður ónýttur að hluta eða öllu leyti við átta ára aldur barns verður sá réttur virkur aftur komi til þess að barn greinist síðar með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, en áður en það verður fullra átján ára.

Lesa nánar um foreldraorlof á vef Vinnumálastofnunar.

Veikindi fósturbarns

Foreldrar geta átt rétt á launuðu leyfi vegna veikinda barna sinna yngri en 13 ára. Reglur þar um eru breytilegar eftir kjarasamningum.

Ef veikindi barns standa lengur en réttur til launa nær, getur foreldri átt rétt á sjúkradagpeningum úr sjúkrasjóði síns stéttarfélags.

Hvað varðar réttindi fósturforeldra þá heyra þau undir löggjöf um vinnurétt og æskilegast er að leita til viðkomandi stéttarfélags fósturforeldra varðandi túlkun á þeim.

Réttur samkvæmt kjarasamningi BHM

Í kjarasamningi SA og aðildarfélaga BHM segir að fyrstu sex mánuði í starfi hjá vinnuveitanda er foreldri heimilt að verja tveimur dögum fyrir hvern unninn mánuð til aðhlynningar sjúkum börnum sínum undir 13 ára aldri. Í sama kjarasamningi er tekið fram að með foreldri sé einnig átt við fósturforeldri eða forráðamann. Ekki er vitað til þess að fósturforeldrar séu nefndir sérstaklega í öðrum kjarasamningum.

Lesa nánar um veikindarétt vegna barna á vef BHM.