Fara beint í efnið

Fóstur og fósturfjölskyldur

Hugtakið fóstur er notað um það þegar fósturforeldrum er falin umsjá barns til lengri eða skemmri tíma af barnaverndarþjónustu. 

Fóstur er eitt af umfangsmestu stuðningsúrræðum í barnaverndarstarfi og gripið er til þess þegar önnur inngrip duga ekki til. Ástæðurnar geta verið erfiðleikar barns eða að uppeldisaðstæður þess séu ekki nægilega góðar.

Litið er á fóstur sem hjálp og stuðning, bæði við barn og foreldra þess. Fóstur er tækifæri fyrir barn til að ná sér á strik eftir erfiðleika og ná að þroskast og dafna.

Tegundir fósturráðstafana

Það ræðst af aðstæðum barns hvers konar fóstur hentar best þörfum þess.

Barni er komið í tímabundið fóstur ef talið er að hægt sé að bæta úr aðstæðum þess innan tiltölulega skamms tíma þannig að barnið geti snúið aftur til foreldra sinna.

Ef aðstæður kalla á að barn þurfi að alast upp hjá öðrum en foreldrum sínum fer það í varanlegt fóstur til að tryggja því viðeigandi uppeldisaðstæður þar til það verður sjálfráða.

Ef barn á við verulega hegðunarerfiðleika að stríða, til dæmis vegna geðrænna eða tilfinningalegra vandamála, geta fósturforeldrar skuldbundið sig til að veita því sérstaka umönnun og þjálfun á heimili. Þá gegna fósturforeldrar auknu umönnunarhlutverki til að aðstoða barnið við að ná tökum á vandamálum sínum í stað þess að barnið sé vistað á stofnun.

Hlutverk fósturforeldra

Fósturforeldrar þurfa að fara í gegnum formlegt ferli og fá leyfi til að geta tekið barn í fóstur. Fósturfjölskyldur geta verið allskonar, enda eru aðstæður og þarfir barna margbreytilegar.

Fósturforeldrar þurfa að geta veitt barni trygga umönnun og öryggi. Þeir þurfa líka að mæta þörfum barns sem hefur búið við ótryggar aðstæður eða átt við erfiðleika að etja.

Börn sem þurfa á fóstri að halda geta verið á öllum aldri, en eiga það sameiginlegt að eiga að baki erfiðleika og áföll. Það að sinna fósturbarni getur verið krefjandi en jafnframt gefandi hlutverk.

Fósturforeldrar gegna forsjárskyldum, en fara ekki með formlega forsjá barns. Hægt er að líta á fósturfjölskyldu sem eins konar viðbótarfjölskyldu barnsins, en henni er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir upprunafjölskyldu.

Hlutverk barnaverndaryfirvalda

Fóstur er ráðstöfun sem barnaverndarþjónusta getur gripið til ef ljóst er að önnur inngrip dugi ekki til. Barnaverndarþjónusta finnur þá barni fóstur við hæfi og gerir formlegan fóstursamning við fósturforeldra, þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur þeirra.

Ef um tímabundið fóstur er að ræða vinnur barnavernd með foreldrum til að bæta úr aðstæðum þannig að barnið geti snúið aftur. Í aðdraganda að varanlegu fóstri er fyrst gripið til tímabundinna ráðstafana.

Barnaverndarþjónusta hefur eftirlit með aðstæðum barns og styður við fósturforeldra eftir þörfum.

Þær stofnanir sem koma að fósturmálum auk barnaverndarþjónustu eru Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) og Barna- og fjölskyldustofa (BOFS):

  • Gæða- og eftirlitsstofnun tekur við og vinnur úr umsókum um leyfi til að gerast fósturforeldrar.

  • Barna- og fjölskyldustofa tekur þátt í mati á umsækjendum, sér um fræðslu til fósturforeldra og heldur skrá yfir þá sem hafa leyfi til að taka börn í fóstur.

  • Barnaverndarþjónusta sendir inn umsókn um fósturheimili fyrir tiltekið barn til BOFS og unnið er úr þeim í samráði við barnaverndarþjónustu og aðra fagaðila.

Lestu nánar um hlutverk BOFS í fósturmálum.

Lestu nánar um hvernig sótt er um leyfi til að taka barn í fóstur.