Fara beint í efnið

Að gerast fósturforeldri

Meðan barn er í fóstri fara fósturforeldrar með daglega umsjá þess.

Fóstur getur varið í lengri eða skemmri tíma, allt eftir aðstæðum barns. Það er mikilvægt fyrir þá sem eru að hugsa um að gerast fósturforeldrar að kynna sér vel hlutverk fósturforeldra, skyldur þeirra og réttindi.

Hverjir geta orðið fósturforeldrar?

Mismunandi börn þurfa mismunandi fósturheimili, þess vegna geta ólíkar fjölskyldur og einstaklingar sótt um. Fósturforeldrar geta verið giftir, ógiftir, sambýlisfólk, einstæðir, gagnkynhneigðir og samkynhneigðir, svo dæmi séu nefnd.

Til að gerast fósturforeldri þarf að sækja um leyfi til að taka barn í fóstur.

Skilyrði fyrir leyfisveitingu eru að uppfylla almennar kröfur sem gerðar eru til fósturforeldra og að standast hæfniskröfur. Þeim sem brotið hafa gegn ákvæðum laga um kynferðisbrot er óheimilt að taka barn í fóstur.

Hvernig er að vera fósturforeldri?

Það að vera fósturforeldri getur bæði verið krefjandi og afskaplega gefandi.

Sem fósturforeldri ertu þátttakandi í því að veita þær öruggu aðstæður sem börn þarfnast.

Litið er á fóstur sem hjálp og stuðning, bæði við barn og foreldra þess. Fóstur er tækifæri fyrir barn til að ná sér á strik eftir erfiðleika og ná að þroskast og dafna. Hægt er að líta á fósturfjölskyldu sem eins konar viðbótarfjölskyldu barnsins, en henni er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir upprunafjölskyldu.

Börn í fóstri eru mismunandi, bæði í aldri og persónuleika og þurfa mismunandi utanumhald.

Það er mikil breyting bæði fyrir barnið og fjölskylduna að byrja að kynnast hvert öðru og takast saman á við hversdagsleikann. Stundum er þörf á því að minnsta kosti annað fósturforeldrið taki sér frí frá vinnu þegar fósturbarnið flytur inn á heimilið, en algengt er að báðir séu útivinnandi.

Skyldur og réttindi fósturforeldra

Fósturforeldrar fara ekki með forsjá fósturbarns og því hafa þeir í raun aldrei sömu réttarstöðu og kynforeldri sem fer með forsjá samkvæmt barnalögum.

Fósturforeldrar geta ekki afsalað skyldum sínum til annarra, geta ekki tekið meiri háttar ákvarðanir um hagsmuni fósturbarns og þurfa að tilkynna um ýmsar breytingar sem verða á högum þeirra til barnaverndarþjónustu. 

Barnaverndarþjónusta hefur eftirlit með fósturbarni og fósturforeldrum á meðan fóstrið varir.

Fósturforeldrum ber að:

  • Fara með daglega umsjá fósturbarns og ráða persónulegum högum þess í samráði við barnaverndarþjónustu. 

  • Gegna umsjár- og uppeldisskyldum sínum sem best hentar hag og þörfum barnsins og taka tillit til uppruna, menningar og trúar barnsins eftir því sem við á.

  • Sýna barninu umhyggju og nærfærni og leitast við að efla andlegan og líkamlegan þroska þess. 

  • Sjá um að barnið fái lögboðna fræðslu, aðra menntun eða starfsþjálfun og geti stundað tómstundir í samræmi við hæfileika þess og áhugamál.

  • Sjá um að barnið njóti almennrar heilbrigðisþjónustu.

  • Hafa samráð við fósturbarn varðandi persónuleg málefni þess eins og gerlegt er, til dæmis með tilliti til þroska barnsins.

  • Stuðla að því að barn í fóstri njóti réttinda til jafns við önnur börn.