Að gerast fósturforeldri
Umsóknarferli
Þau sem hafa áhuga á því að gerast fósturforeldrar þurfa að sækja um leyfi og fara í gegnum mat á hæfni. Umsóknarferlið er unnið í samstarfi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, Barna- og fjölskyldustofu og viðkomandi barnaverndarþjónustu.
Umsóknarferlið
Umsækjandi sækir um leyfi til að taka barn í fóstur til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) og skilar fylgigögnum.
GEV sendir beiðni um umsögn til Barna- og fjölskyldustofu (BOFS).
BOFS kallar eftir afstöðu barnaverndarþjónustu í heimilisumdæmi umsækjanda.
Ef fyrsta mat á umsókn er jákvætt boðar Barna- og fjölskyldustofa umsækjanda í forviðtal til þess að meta hvort viðkomandi uppfylli almennar kröfur til fósturforeldra.
Ef umsækjendur standast almennar kröfur fá þeir boð á námskeið fyrir fósturforeldra hjá BOFS. Mat á hæfni fósturforeldra fer fram samhliða því námskeiði.
Þegar umsækjandi hefur lokið námskeiði er tekið annað viðtal ásamt úttekt á heimili.
Að loknu mati BOFS er umsögn um umsækjanda skilað til GEV.
GEV tekur ákvörðun um útgáfu leyfis og upplýsir umsækjanda um niðurstöðu leyfisveitingu.
Þeir umsækjendur sem fá útgefið leyfi fara á skrá yfir fósturforeldra sem BOFS heldur utan um.
Sérfræðingur úr fósturteymi Barna- og fjölskyldustofu fylgir hverjum umsækjanda í gegnum allt ferlið og er honum innan handar varðandi ráðgjöf og fræðslu, meðal annars hvaða tegund af fóstri hentar umsækjanda.
Námskeið fyrir fósturforeldra
Allir umsækjendur þurfa að sækja námskeið á vegum Barna- og fjölskyldustofu áður en leyfi er veitt. Námskeiðið er fjórir dagar, kennt í tveimur staðlotum. Kennslan er í formi fyrirlestra, umræðna, hópvinnu, æfinga og heimaverkefna.
Samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga ber verðandi fósturforeldrum að sækja námskeið þar sem annars vegar er lagt mat á hæfni umsækjanda og hins vegar er veitt nauðsynleg þjálfun og undirbúningur fyrir hlutverk fósturforeldra.
Ef um hjón eða sambýlisfólk er að ræða er skilyrði að báðir sæki námskeiðið. Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu en þátttakendur standa straum af ferðakostnaði og uppihaldi á meðan námskeið stendur yfir.
Ekki er hægt að skrá sig á námskeiðið fyrr en umsókn liggur fyrir og forviðtali er lokið. Sérfræðingur fósturteymis skráir umsækjendur á námskeið í samráði við þá.
Námskeiðið er bandarískt að uppruna, byggt á Foster Pride, en hefur verið staðfært fyrir Ísland og í samræmi við það sem þekkist á Norðurlöndum.
Þjónustuaðili
Barna- og fjölskyldustofaTengd stofnun
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála