Upplýsingar fyrir fósturbörn
Fóstur er þegar barn þarf að búa á öðru heimili í lengri eða styttri tíma vegna þess að foreldrar geta ekki veitt barni sínu þá umönnun sem það þarf.
Barn er ekki í fóstri lengur en þarf og það á að skoða reglulega hvort nauðsynlegt er að halda því áfram.
Barn á rétt á því að tjá sig og segja sína skoðun varðandi það að fara í fóstur og hvernig því líður í fóstri.
Barn í fóstri hefur starfsmann hjá barnavernd sem fylgist með barninu og getur svarað spurningum þess.
Við höfum tekið saman nokkrar dæmigerðar spurningar fósturbarna og svör við þeim.
Spurningar fósturbarna um það að fara í fóstur
Þegar barn fer í fóstur skipta þarfir þess og óskir miklu máli.
Þú getur komið með óskir eða hugmyndir um hvað skiptir þig máli. Til dæmis hvar á landinu þú vilt búa eða ef þú ert að æfa einhverjar íþróttir.
Talaðu við þau sem eru að vinna í þínu máli hjá barnavernd og láttu þau vita.
Ef búið er að ákveða að börn fara í fóstur þýðir það að búið er að reyna allar aðrar leiðir.
Þú átt rétt á því að vita hvers vegna þú ert að fara í fóstur og hvað er áætlað að gerist í framtíðinni.
Þú mátt segja hvað þér finnst og ef þú ert eldri en 15 ára þarf að fá samþykki þitt áður en þú ferð í fóstur.
Talaðu við þau sem eru að vinna í þínu máli hjá barnavernd og láttu þau vita.
Það fer eftir því hver staðan er hjá þér.
Ef þú neitar er líklega byrjað á að skoða aðra möguleika, en ef barnavernd er viss um að fóstur sé besta lausnin fyrir þig getur verið að þau biðji um að aðrir úrskurði í málinu og taki ákvörðun fyrir þig.
Það er alltaf reynt að hafa systkini á sama fósturheimili ef það er best fyrir ykkur öll.
Ef eitthvað veldur því að það er ekki hægt þá átt þú rétt á því að tala reglulega við systkini þín og hitta þau.
Þú mátt taka með þér hluti sem þú átt. Það þarf samt að ræða við fósturforeldra og foreldra þína hvað þú tekur með.
Talaðu við þau sem eru að vinna í þínu máli hjá barnavernd og fáðu þau til að hjálpa þér að ákveða hvað þú vilt taka með þér.
Þú og fósturforeldrar þínir þurfið helst að ákveða í sameiningu hvaða reglur gilda um símanotkun á fósturheimilinu.
Ef þér finnst erfitt að ræða þetta við fósturforeldra þína getur þú talað við einhvern hjá barnavernd sem hjálpar þér.
Spurningar fósturbarna um réttindi sín í fóstri
Mikilvægt er að hlustað sé á börn sem eru í fóstri.
Þú mátt segja frá þínum skoðunum á málinu hjá barnavernd, annað hvort í samtali eða skriflega. Barnavernd á að taka tillit til skoðana barna við úrlausn mála.
Þú átt rétt á talsmanni sem kemur þínum skoðunum til skila, til dæmis varðandi umgengni við fjölskyldu og vini.
Ef þér líður þannig að þú viljir ekki lengur vera í fóstri, skaltu ræða það við starfsmann hjá barnavernd. Þið getið skoðað saman hvað veldur því og hvaða lausnir koma til greina.
Þið getið líka rætt um ástæður þess að þú ert í fóstri og hvað þarf að breytast til að þú þurfir þess ekki lengur.
Stundum þurfa börn meiri stuðning til að þeim líði vel. Þá er það hlutverk barnaverndar að skoða hvað hægt er að gera.
Ef þú ert 15 ára eða eldri ert þú formlegur aðili að þínu máli. Það þýðir meðal annars að þú þarft að samþykkja að vera í fóstri og að þú getur skipt um skoðun. Ef þú neitar að vera í fóstri er líklega byrjað á að skoða aðra möguleika, en ef barnavernd er viss um að fóstur sé besta lausnin fyrir þig getur verið að þau biðji um að aðrir úrskurði í málinu og taki ákvörðun fyrir þig.
Þegar þú ert í fóstri á að vera til samkomulag hjá barnavernd um það hverja þú mátt umgangast og hvernig það er gert. Almennt eiga börn rétt á að tala við eða hitta foreldra sína, systkini og aðra nána ættingja. Börn mega segja sína skoðun á því hverja þau vilja hitta.
Þegar börn eru orðin 15 ára eða eldri geta þau gert kröfu um hverja þau vilja umgangast. Hafðu samband við starfsmann barnaverndar ef það er einhver sem þig langar að hitta meðan þú ert í fóstri og athugaðu hvort það sé hægt að verða við því. Barnavernd metur það síðan út frá hagsmunum þínum hvort það sé hægt að verða við því.
Þú átt rétt á því að hitta eða vera í sambandi við foreldra þína og aðra nákomna ættingja. Ef þú vilt ekki hitta þá skaltu segja starfsmanni barnaverndar hvernig þú vilt hafa umgengnina. Barnavernd skoðar þá hvað hægt er að gera.
Barnavernd ákveður hvort það megi vera umgengni á milli fósturheimila. Ákvörðun um það hvort þið getið hist, hversu oft og hvernig er tekin út frá ykkar hagsmunum. Fáðu fósturforeldra þína til að aðstoða þig með þetta ef þarf.
Áður en þú fórst í fóstur var ákveðið hvaða stuðning þú áttir að fá. Ræddu við starfsmann barnaverndar og athugaðu hvaða stuðning var ákveðið að þú ættir að fá. Ef þér finnst eitthvað vanta og þú vilt fá meiri stuðning láttu þá barnavernd vita.
Ef þú vilt stunda einhverja tómstund skaltu ræða við fósturforeldra þína. Þau geta hjálpað þér með það hvað þú getur gert. Þú getur líka talað við starfsmann barnaverndar um þetta, sem styður þig við að finna út úr þessu.
Ef þú vilt taka bílprófið skaltu ræða við fósturforeldra þína. Þau geta hjálpað þér að skoða hvað þú getur gert. Þú getur líka talað við starfsmann barnaverndar um þetta, sem styður þig við að finna út úr þessu.
Þú skalt byrja á því að heyra í barnavernd og tala við þann starfsmann sem er þinn málstjóri. Ef þér finnst óþægilegt að ræða þetta við barnavernd skaltu láta fósturforeldra þína vita og þau geta hjálpað þér. Ráðgjafar hjá Barna- og fjölskyldustofu geta líka ráðlagt þér, til dæmis ef þú sendir tölvupóst á netfangið fostur@bofs.is eða hringir í síma 530 2600.
Ef staðan batnar ekki við að ræða málið getur þú sent kvörtun yfir þjónustu barnaverndar til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.
Þú skalt byrja á því að heyra í barnavernd og tala við starfsmann þar sem getur hjálpað þér. Ráðgjafar hjá Barna- og fjölskyldustofu geta líka ráðlagt þér, til dæmis ef þú sendir tölvupóst á netfangið fostur@bofs.is eða hringir í síma 530 2600.
Ef staðan batnar ekki við að ræða málið getur þú sent kvörtun yfir fósturheimilinu til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.
Spurningar um það hvernig fóstri lýkur
Almennt lýkur fóstri þegar ekki er lengur þörf á því, annað hvort vegna þess að aðstæður hafa breyst eða barn í fóstri er orðið fullorðið (að minnsta kosti 18 ára).
Það er barnavernd sem ræður því hvenær fóstri lýkur og fóstur ætti ekki að standa lengur en nauðsynlegt er. Ef þú vilt fara aftur heim úr fóstri þarf barnavernd að skoða hvort aðstæður hafi breyst nægilega mikið eða hvort eitthvað meira þurfi að breytast.
Talaðu við einhvern hjá barnavernd sem getur skoðað með þér hvað hægt er að gera.
Þú skalt byrja á því að tala við fósturforeldra þína og segja þeim hvað þig langar, síðan skaltu tala við einhvern hjá barnavernd um hvernig þér líður.
Það er að lokum barnavernd sem ákveður hvort þú getur verið áfram á fósturheimilinu eftir að hafa talað við fósturforeldra þína.
Talaðu við fósturforeldra þína og segðu þeim frá því að þig langi að halda áfram sambandi við þá. Finnið út úr því saman hvort og hvernig það gæti gerst. Þú getur líka talað við starfsmann barnaverndar sem getur stutt við þig í þessu.
Það er margt sem hefur áhrif á hvað gerist þegar þú verður 18 ára og verður formlega sjálfráða. Þú gætir til dæmis viljað standa á eigin fótum eða biðja um að lengja fóstrið þar til þú verður 20 ára.
Barnavernd á að ræða málin við þig með góðum fyrirvara og fara yfir það með þér hvaða möguleikar eru í boði.
Ef þú, fósturforeldrar þínir og barnavernd eruð sammála er hægt að ákveða að fóstrið haldi áfram þar til þú verður 20 ára.
Það er barnavernd sem tekur lokaákvörðun og ef þú ert ósammála þeirri ákvörðun getur þú beðið um úrskurð frá Úrskurðarnefnd velferðarmála.
Eftir 18 ára aldur færð þú sjálfræði og getur tekið ákvörðun um hvað tekur við.
Það er mikilvægt að hafa það í huga að flestir þurfa stuðning þegar kemur að því að flytja að heiman. Ræddu það við starfsmann barnavernd hvernig hægt er að liðsinna þér ef þú ákveður að flytja í eigið húsnæði.
Ef þú hefur þörf fyrir sérstakan stuðning eða búsetuúrræði, til dæmis vegna fötlunar, hjálpar starfsmaður barnaverndar þér að sækja um þá þjónustu sem þarf. Athugaðu að það getur verið bið eftir því að fá stuðning af þessu tagi og því er mikilvægt að þú ræðir tímanlega við barnavernd.
Það er misjafnt hvað gerist eftir að fóstri lýkur eftir 20 ára aldur. Sumir búa áfram hjá fósturforeldrum sínum, aðrir fara í sjálfstæða búsetu eða annars konar búsetu.
Ef þú vilt fá að vita hvað tekur við er gott að taka það samtal við fósturforeldra þína og starfsmann barnaverndar sem geta hjálpað þér að taka ákvörðun um hvað hentar þörfum þínum best.
Barnavernd lýkur aðkomu sinni að þínu máli þegar þú verður 20 ára. Ef þú þarft á því að halda getur barnavernd stutt þig við að sækja þjónustu og stuðning hjá Félagsþjónustu.
Ef þú hefur einhverjar fleiri spurningar er hægt að hafa samband við fostur@bofs.is eða í síma 530 2600 til að fá ráðgjöf frá Barna- og fjölskyldustofu.