Að gerast fósturforeldri
Hæfnismat og leyfi
Fósturforeldrar þurfa að geta veitt barni sem kemur úr ótryggum aðstæðum eða hefur átt við erfiðleika að etja, trygga umönnun og öryggi.
Mat á hæfi fósturforeldra
Barna- og fjölskyldustofa (BOFS) hefur það hlutverk að meta hæfi verðandi fósturforeldra. Fyrst er kannað hvort fósturforeldrar standist almennar kröfur í samræmi við barnaverndarlög. Í því felst að fósturforeldrar:
Séu við góða almenna heilsu
Búi við stöðugleika
Búi við fjárhagslegt og félagslegt öryggi
Ef þessar kröfur eru uppfylltar er hæfni fósturforeldra metin. Það mat fer að mestu leyti fram í gegnum fósturforeldranámskeið Barna- og fjölskyldustofu.
Algengt er að þeir sem sækja um að gerast fósturforeldrar hafi áður fengið leyfi sem vistforeldrar eða stuðningsfjölskylda, en til fósturforeldra eru gerðar meiri kröfur.
Í matsferlinu eru könnuð almenn viðhorf umsækjenda, svo sem hvaða væntingar umsækjandi hefur til þess að taka barn í fóstur, reynsla umsækjanda og viðhorf til barna. Sérstök áhersla er á hæfni umsækjenda til að:
Geta annast og alið upp barn
Koma til móts við þarfir barns og takast á við misfellur í þroskaferli þess
Styðja tengsl milli barns og fjölskyldu þess eftir því sem við á
Stuðla að því að barn geti myndað traust, varanleg og þroskandi tengsl
Eiga samvinnu við barnavernd, kynforeldra og aðra sem koma að umönnun barns.
Ef umsækjendur vilja annast barn sem á við að stríða verulega hegðunarerfiðleika vegna geðrænna, tilfinningalegra eða skyldra vandamála, er gerð krafa um að umsækjandi sé reiðubúinn að vinna að sérstakri umönnun og þjálfun á heimili sínu. Miðað er við að fósturforeldrar í því hlutverki búi yfir frekari reynslu og þekkingu.
Útgáfa og endurnýjun leyfis
Ef umsækjandi fær jákvæða umsögn tekur Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) lokaákvörðun um útgáfu leyfis og getur gefið út leyfi til fósturforeldra í allt að fimm ár.
Leyfin eru almenn, þannig að ekki er sótt um leyfi með hverju barni eins og áður var gert. GEV getur þó gefið út skilyrt leyfi sem einskorðast við ákveðið barn ef ástæða er til.
Áður en leyfi rennur út þurfa fósturforeldrar að sækja um endurnýjun. Gott er að gera það með nokkurra mánaða fyrirvara þar sem ferlið getur verið tímafrekt. Við endurnýjun kallar GEV eftir upplýsingum frá viðkomandi barnaverndarþjónustum og BOFS.
Samþykki og næstu skref
Þegar fósturleyfi berst frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála fara fósturforeldrar á lista hjá Barna- og fjölskyldustofu.
Í hæfnismatinu hafa fósturforeldrar fengið kynningu á ólíkum tegundum fósturs og tekið ákvörðun um hvers konar ráðstöfun þeir gætu boðið. Þar hefur til dæmis verið rætt um hvort ákveðinn aldur henti fósturfjölskyldunni frekar en annar og um hegðun barna og sérþarfir.
Barnaverndarþjónusta sækir um fósturheimili fyrir börn til Barna- og fjölskyldustofu. Starfsmenn fósturteymis fara þá yfir listann og sjá hvaða fósturforeldrar gætu hentað barninu út frá ýmsum þáttum. Haft er samband við þá fósturforeldra sem til greina koma og kannað hvort mögulegt sé að taka við barni inn á heimilið á þeim tímaramma sem um ræðir.
Ef fósturforeldrar samþykkja fóstur hefur viðkomandi barnaverndarþjónusta samband með nánari upplýsingar og aðlögun að fóstri hefst.
Fósturforeldrar hafa rétt á því að neita fósturráðstöfuninni og fara þá aftur á lista hjá Barna- og fjölskyldustofu.
Þjónustuaðili
Barna- og fjölskyldustofaTengd stofnun
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála