Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Um fóstur og fósturráðstafanir

Um fóstur er að ræða þegar barnaverndarþjónusta felur fósturforeldrum umsjá barns til lengri eða skemmri tíma. Fóstur er eitt af umfangsmestu stuðningsúrræðum í barnaverndarstarfi og gripið er til þess þegar önnur inngrip duga ekki til. Ástæðurnar geta verið erfiðleikar barns eða að uppeldisaðstæður þess séu ekki nægilega góðar. Litið er á fóstur sem hjálp og stuðning bæði við barn og foreldra þess. Fóstur er tækifæri fyrir barn til að ná sér á strik eftir erfiðleika og ná að þroskast og dafna.

Barnaverndarþjónusta getur ráðstafað barni í fóstur þegar fyrir liggur að:  

  • Foreldrar hafa afsalað sér forsjá eða umsjá og samþykkt fósturráðstöfun. 

  • Kveðinn hefur verið upp úrskurður um heimild til að fóstra barn utan heimilis þegar samþykki foreldra, og barns eftir atvikum, liggur ekki fyrir. 

  • Foreldrar hafa verið sviptir forsjá með dómi. 

  • Barn er forsjárlaust vegna andláts forsjáraðila. 

  • Barn hefur komið til landsins án forsjáraðila sinna og er í umsjá barnaverndarþjónustu eða fær alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á Íslandi.  

Markmið fósturs er að tryggja barni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum þess. 

Barni skal tryggður góður aðbúnaður hjá fósturforeldrum og þeir skulu sýna fósturbarni umhyggju og nærfærni og leitast við að efla andlegan og líkamlegan þroska þess. Fósturfjölskylda er einskonar viðbótarfjölskylda barns en er ekki ætluð til að koma í staðinn fyrir upprunafjölskyldu. 

Gerður er fóstursamningur við fósturforeldra þar sem nánar skal kveðið á um réttindi og skyldur þeirra. 

Tegundir fósturráðstafanna

Tímabundið fóstur

Í tímabundnu fóstri er markmiðið að barn fari til foreldra aftur eftir að tímabili fóstursins lýkur. Tímabundið fóstur getur verið frá þremur mánuðum upp í ár, að hámarki tvö ár. Á þessum tíma vinnur barnavernd með foreldrum að bæta úr aðstæðum þannig að barnið geti snúið aftur til foreldra sinna. Tímabundinn fóstursamningur er ekki gerður til lengri tíma en eins árs í einu. Þegar vista á barn á fósturheimili skal alltaf byrja á að gera tímabundinn fóstursamning.

Varanlegt fóstur

Um varanlegt fóstur er að ræða þegar barni er komið í fóstur þar til það verður sjálfráða. Barni skal komið í varanlegt fóstur þegar aðstæður þess kalla á að það alist upp hjá öðrum en foreldrum sínum. Markmiðið með slíkri ráðstöfun er að tryggja fósturbarni viðeigandi uppeldisaðstæður og gefa því tækifæri á að mynda varanleg tengsl við fósturforeldra.

Sérstök umönnun og þjálfun á heimili vegna verulegs hegðunarvanda

Ef barn, sem ráðstafað er í fóstur, á við verulega hegðunarerfiðleika að stríða vegna geðrænna, tilfinningalegra og annarra vandamála og uppfyllir kröfur um vistun á meðferðarheimili er heimilt að mæla fyrir um sérstaka umönnun og þjálfun á fósturheimili í stað þess að vista það á stofnun. Um er að ræða tímabundna fósturráðstöfun með auknum greiðslum þar sem fósturforeldrarnir skuldbinda sig í aukið umönnunarhlutverk við að aðstoða barnið að ná tökum á vandamálum sínum þannig að það geti snúið aftur til foreldra sinna. Fósturforeldrar í þessu hlutverki þurfa að uppfylla ríkari kröfur en almennir fósturforeldrar. Fósturforeldrar skuldbinda sig þá til að sinna sérfræðiþjónustu og öðru sem kveðið er á um í fóstursamningi, ásamt því að sækja reglulega handleiðslu í samráði við barnaverndarþjónustu.