Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Hlutverk barnaverndarþjónustu í fósturmálum

Þegar stuðningur við foreldra og barn hefur ekki skilað þeim árangri sem þarf til að foreldrar geti annast barn sitt geta barnaverndarþjónustur vistað barn utan heimilis, frá þremur mánuðum og þar til barn er 20 ára. Fóstur er því aldrei fyrsta úrræði sem horft er til. Barnavernd byrjar ávallt á að veita stuðning við heimilið, foreldra og börnin til að þau geti búið heima. En ef af einhverjum ástæðum barn þarf að fara í fóstur er það hlutverk barnaverndarþjónustu að: 

  • Ákveða að barn fari í fóstur  

  • Annast framkvæmd og bera ábyrgð á ráðstöfuninni  

  • Velja fósturforeldra í samráði við Barna- og fjölskyldustofu

  • Gera fóstursamning, sjá um greiðslur, handleiðslu og stuðning við fósturforeldra  

  • Gera samning við skóla um menntun barns, tilhögun og annað sem þarf  

  • Ákveða samskipti og umgengni barns við kynforeldra og aðra nákomna  

Þegar barni hefur verið ráðstafað í fóstur fer barnaverndarþjónusta með hlutverk gagnvart mati og eftirliti með gæðum úrræðisins og vistun barnsins utan heimilis: 

  • Fylgist náið með aðbúnaði og líðan barns

  • Fylgist náið með að ráðstöfun nái tilgangi sínum

  • Aflar nauðsynlegra upplýsinga eins og ástæða þykir til í því skyni að sinna þessu hlutverki

  • Leitast við að vera í reglubundnu sambandi við barn sem vistað er utan heimilis

  • Gefur barni kost á að tjá sig um aðbúnað og líðan sína í samræmi við aldur og þroska

  • Heimsækir börn á fósturheimili eins oft og ástæða þykir til, þó eigi sjaldnar en tvisvar sinnum fyrsta árið sem ráðstöfunin varir og einu sinni eftir það

  • Grípur til viðeigandi ráðstafana vegna barns, svo sem að rifta samningi um fóstur, ef í ljós kemur að meðferð barnsins í fóstri er óviðunandi eða aðstæður hafa breyst þannig að ekki sé hægt að sýna fram á að aðbúnaður og öryggi barnsins sé tryggt.