Hlutverk BOFS í fósturmálum
Fóstur er eitt af umfangsmestu stuðningsúrræðum í barnaverndarstarfi og fósturráðstafanir fela í sér samstarf á milli viðkomandi barnaverndarþjónustu, Barna- og fjölskyldustofu (BOFS) og Gæða og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV).Hlutverk Barna- og fjölskyldustofu í fósturmálum er bundið í lögum um stofnunina og Barnaverndarlögum.
Starfandi er fósturteymi innan BOFS sem fylgir eftir meginhlutverkunum:
Umsögn um hæfni
Þegar umsækjendur hafa sent umsókn til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um leyfi til að taka barn í fóstur þá sendir GEV beiðni um umsögn til Barna- og fjölskyldustofu.
BOFS byrjar á því að óska eftir afstöðu barnaverndarþjónustu í heimilisumdæmi umsækjanda. Þegar afstaða er komin fara sérfræðingar fósturteymis yfir öll gögn og boða umsækjendur í forviðtal þar sem metnar eru almennar kröfur til fósturforeldra. Umsækjendur sem standast almennu kröfurnar fá boð um að mæta á grunnnámskeið fyrir fósturforeldra þar sem hæfni þeirra er metin. Að loknu námskeiði fara sérfræðingar fósturteymis í heimsókn á heimili umsækjanda þar sem gerð er úttekt á aðstæðum ásamt því að taka seinna viðtal.
Þegar umsögnin er tilbúin er hún send til GEV sem tekur ákvörðun um leyfisveitinguna og upplýsir umsækjanda og BOFS um niðurstöðu sína.
Fræðsla og faglegur stuðningur
BOFS sinnir fræðslu til fósturforeldra og heldur námskeið ætluð þeim. Einnig miðla sérfræðingar fósturteymis fróðleik til fagaðila og styðja þá í sínum störfum.
Skrá um fósturforeldra og fósturbörn
BOFS heldur skrá yfir börn í fóstri, þá sem hafa leyfi til að taka börn í fóstur og hvaða börn hafa verið á hverju heimili. Þá eru upplýsingar hjá BOFS um hæfni fósturforeldra og hvaða þarfir barna þeir hafa færni í að koma til móts við. Barnaverndarþjónustum ber að senda tilkynningu um gerð fóstursamnings og um fósturlok til að BOFS geti gegnt hlutverki sínu sem skyldi.
Ábendingar um fósturheimili
Barnaverndarþjónustur senda inn umsóknir um fósturheimili til BOFS. Í umsóknunum eru tilteknar þarfir barns, þættir í lífi þess sem er mikilvægt að séu áfram til staðar og hvað er ætlast til af fósturforeldrum að sinna. Þá koma þar fram óskir barnanna til fósturheimilisins.
Sérfræðingar fósturteymis BOFS fara yfir umsóknirnar og finna fósturheimili sem henta, byggt á umsókn og þeim upplýsingum sem hafa komið í gegnum samskipti við barnaverndarstarfsmann sem fer með mál barnsins. Ef óskað er eftir greiðsluþátttöku ríkisins vegna verulegs hegðunarvanda barns er það metið sérstaklega af sérfræðingum fósturteymis.
Ráðgjöf
Barna- og fjölskyldustofa gegnir ráðgjafar- og leiðbeiningarhlutverki fyrir almenning, velferðarþjónustu og stjórnvöld.
Fósturteymið veitir ráðgjöf um mál þar sem börn eru í fóstri eða líkur eru á að þau þurfi á fóstri að halda. Fagaðilar og fósturforeldrar geta fengið ráðgjöf frá starfsmönnum teymisins varðandi alla vinnslu fósturmála, til að mynda hvort tími sé kominn á að barn fari í fóstur, um umsóknarferlið og hvaða gögnum þurfi að skila með umsóknum.
Ráðgjafar fósturteymis skipta með sér verkum og svara spurningum, en í málum sem þegar eru í vinnslu hjá fósturteymi veitir sá ráðgjöfina sem fer með viðkomandi mál.
Bent er á að ef málið varðar leyfisveitingar fósturforeldra eða eftirlit, þá fer Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála með það hlutverk.
Ráðgjöf í fósturmálum
Hægt er að óska eftir fundi til að ræða einstaka mál, ýmist rafrænt eða á skrifstofum Barna- og fjölskyldustofu. Hægt er að óska eftir ráðgjöf í gegnum síma 530-2600, netfangið fostur@bofs.is eða netföng einstakra starfsmanna eftir því sem við á.