Upplýsingar fyrir fósturforeldra
Undirbúningur og aðlögun að heimili
Mikilvægt er að undirbúa komu barns á fósturheimili vel og getur sá undirbúningur haft áhrif á velgengni fóstursins. Áskoranir geta komið fram í upphafi fósturs sem gott er fyrir fósturforeldra að vera undirbúnir fyrir.
Fósturbarn er yfirleitt að koma úr erfiðum aðstæðum og inn á nýtt ókunnugt heimili. Starfsfólk barnaverndar sér um að undirbúa bæði barn og fósturforeldra vel áður en að aðlögun á fósturheimili hefst.
Undirbúningur fyrir fóstur
Áður en fósturbarn kemur á heimilið er það hlutverk barnaverndarþjónustu að undirbúa fósturforeldra fyrir hlutverk þeirra og upplýsa um persónulega hagi barns og önnur atriði sem talið er að skipti máli í samræmi við markmið fósturs.
Dæmi um upplýsingar sem gæti verið gott fyrir fósturforeldra að fá:
Fjölskylduaðstæður og uppeldissaga barns
Uppáhaldsmatur barns, morgun-, dag-, kvöld- og næturrútína
Áföll sem barn hefur orðið fyrir, eftir því sem við á
Vandi foreldra og afstaða þeirra til fósturs
Nákvæm heilsufarssaga barns
Heilsugæsla og heimilislæknir barns
Lyfjagjöf og meðferð
Möguleg ofnæmi
Greiningar sem liggja fyrir eða verið er að vinna að
Áhugamál barns og styrkleikar þess
Félags- og námsleg staða barns
Áætlun um trygga umsjá, samkvæmt barnaverndarlögum
Sá hluti áætlunar um meðferð máls sem snýr beint að fósturforeldrum.
Samningur um fóstur
Barnaverndarþjónusta undirbýr líka barnið eins vel og kostur er með tilliti til aldurs og þroska, meðal annars með gerð lífsbókar sem barnið tekur með sér í fóstrið og fósturforeldrar halda áfram að uppfæra á meðan barnið er í fóstri.
Aðlögun
Mikilvægt er að góð aðlögun eigi sér stað og að bæði barn og fósturforeldrar séu vel undirbúin áður en aðlögun á fósturheimili hefst.
Börn eru mismunandi og því þarf að taka tillit til hvers barns fyrir sig þegar aðlögun fer fram. Aðlögun tekur alltaf tillit til aldurs barns, þroska og þátta eins og fyrri áfalla, persónuleika, aðlögunarhæfni, styrkleika og veikleika.
Hér er dæmi um aðlögunaráætlun frá barnaverndarþjónustu:
Fósturforeldrar koma í stutta heimsókn. Ef um eldra barn er að ræða getur hentað að barnið eigi myndsímtal við fósturforeldra.
Fósturforeldrar koma í lengri heimsókn.
Barn fer með umönnunaraðila í stutta heimsókn á fósturheimili.
Barn fer með umönnunaraðila í lengri heimsókn á fósturheimili og umönnunaraðili heldur sig til hlés eða er ekki með ef um eldra barn er að ræða. Umönnunaraðili gefur fósturforeldrum og barni tækifæri til þess að leika og tengjast.
Ef vel gengur þá fer barn með umönnunaraðila í heimsókn og umönnunaraðili fer eftir smá tíma. Ef barnið þarf lengri tíma þá er skrefið á undan endurtekið.
Ef vel gengur er hægt að fara með barnið alfarið til fósturforeldra.
Það er eðlilegt að barn geti átt í erfiðleikum með fóstur til að byrja með. Það sem fósturforeldri getur gert til að auðvelda barninu þessa umbreytingu er að skapa umhverfi sem býður barnið velkomið, sýna því þolinmæði, halda væntingum í hófi, leyfa barninu að ræða tilfinningar sínar, vera samkvæm sjálfum sér varðandi hegðun og reglur, styðja barnið og leita eftir sérfræðiaðstoð ef þörf er á.
Þjónustuaðili
Barna- og fjölskyldustofaTengd stofnun
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála