Fara beint í efnið

Það er mikilvægt að fósturforeldrar þekki vel rétt barna í fóstri til þess að geta stutt fósturbarnið í samræmi við þau markmið sem koma fram í fóstursamningi.

Tryggja þarf að barn viti af hverju það er í fóstri og hvaða áform barnaverndarþjónusta hefur um framtíð þess, eins og aldur og þroski barnsins leyfir.

Það er hlutverk barnaverndarþjónustu að undirbúa barnið eins vel og hægt er undir viðskilnað frá foreldrum, meðal annars með því að sjá til þess að barnið hafi það meðferðis sem á þarf að halda.

Helstu réttindamál barna í fóstri eru:

Skólaganga

Fósturbörn hafa rétt á því að sækja skólavist í lögheimilissveitarfélagi fósturforeldra og er það á ábyrgð sveitarfélagsins að þau njóti sömu þjónustu og skólavistar til jafns við önnur börn þar.

Barnaverndarþjónusta ber ábyrgð á því að innrita fósturbarn í grunnskóla með upplýsingum um fyrri skólagöngu og stuðningsþarfir, auk þess að tryggja möguleika viðkomandi grunnskóla til að koma til móts við þarfir barnsins.

Umgengni

Barn í fóstri á rétt til umgengni við kynforeldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni er átt við samveru og önnur samskipti.

Við ákvörðun umgengni við barn í fóstri skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best, með það fyrir augum að ná því markmiði sem stefnt er að með ráðstöfun barnsins í fóstur.

Barn í fóstri á rétt á að tekið sé tillit til menningar þess og hafa tækifæri til að halda tengslum við uppruna sinn og menningarbakgrunn.

Barn sem er 15 ára og eldra getur sjálft gert kröfu um umgengni.

Gengið er frá fyrirkomulagi um umgengni sem hluta af fóstursamningi. Hægt er að óska eftir breytingum á samningi um umgengni ef ástæða þykir til.

Aðbúnaður  

Barn í fóstri á rétt á góðum aðbúnaði hjá fósturforeldrum og að þeir annist það af fyllstu umhyggju og nærgætni í samræmi við hag þess og þarfir.

Stuðningur við barnið

Barn í fóstri á rétt á stuðningi frá barnaverndarþjónustu og að fylgst sé með aðbúnaði þess og líðan. Þarfir fósturbarna fyrir stuðning geta verið breytilegar eftir aldri og þroska auk þess sem þarfir þeirra geta breyst eftir því hversu lengi þau hafa dvalið í fóstri og eftir hugmyndum þess um fósturráðstöfunina. 

Fósturbarn á rétt á því að vera í samskiptum við málstjóra hjá barnaverndarþjónustu sem á að upplýsa barnið um það hvernig hægt er að hafa samband við hann.

Barn verður 18 ára

Ungmenni sem hefur verið í fóstri getur farið fram á við barnaverndarþjónustu að ráðstöfun þjónustunnar haldist eftir að fóstri lýkur við 18 ára aldurinn, allt til 20 ára aldurs.

Kvörtun

Barn hefur rétt á því að kvarta undan fósturráðstöfun ef því líður illa, ef fósturforeldrar koma illa fram við það, eða ef það er ósátt við vinnslu málsins af hálfu barnaverndar. Fyrsta skref er að ræða slíkt við fulltrúa barnaverndar, en formleg kvörtun er send til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV).

Sjá: Kvörtun vegna velferðarþjónustu.