Fara beint í efnið

Prentað þann 26. des. 2024

Stofnreglugerð

804/2004

Reglugerð um fóstur.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Almennt um fóstur.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi fjallar um ráðstöfun barns í fóstur samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga um fósturforeldra, fóstursamning, réttindi barns og skyldur barnaverndaryfirvalda meðan fóstur varir og um lok fósturs.

2. gr. Gildissvið.

Barnaverndarnefnd er skylt að ráðstafa barni í fóstur í samræmi við XII. kafla barnaverndarlaga þegar könnun leiðir í ljós að fósturráðstöfun er nauðsynleg og eitthvað af eftirtöldu liggur fyrir:

  1. foreldrar afsala sér forsjá eða umsjá og samþykkja fósturráðstöfun,
  2. kveðinn hefur verið upp úrskurður um heimild til að fóstra barn utan heimilis þegar samþykki foreldra og barns eftir atvikum liggur ekki fyrir,
  3. foreldrar hafa verið sviptir forsjá með dómi,
  4. barn er forsjárlaust vegna andláts forsjáraðila eða
  5. barn sem komið hefur til landsins án forsjáraðila sinna fær hæli eða dvalarleyfi á Íslandi.

3. gr. Skilgreining á hugtökum.

  1. Fóstur.
    Um fóstur er að ræða þegar aðstæður eru eins og segir í 2. gr. og barnaverndarnefnd felur fósturforeldrum umsjá og/eða aðrar forsjárskyldur í að minnsta kosti þrjá mánuði.
    Fóstur getur verið þrenns konar, tímabundið fóstur, styrkt fóstur og varanlegt fóstur.
  2. Tímabundið fóstur.
    Með tímabundnu fóstri er átt við að fóstur vari í afmarkaðan tíma. Tímabundið fóstur á við þegar ætla má að unnt verði að bæta aðstæður þannig að barnið muni geta snúið aftur til foreldra sinna án verulegrar röskunar á högum sínum. Einnig er heimilt að ráðstafa barni í tímabundið fóstur þegar áætlað er að annað úrræði taki við innan afmarkaðs tíma.
    Markmið tímabundins fósturs er að búa barni tryggar uppeldisaðstæður þann tíma sem fóstri er ætlað að vara og skapa aðstæður til að veita barninu og foreldrum þess þegar það á við nauðsynlegan stuðning þannig að barnið muni geta snúið aftur til foreldra sinna.
  3. Styrkt fóstur.
    Með styrktu fóstri er átt við að mælt sé fyrir um sérstaka umönnun og þjálfun á fósturheimili í tiltekinn tíma. Styrkt fóstur á við þegar barnið á við verulega hegðunarerfiðleika að stríða vegna geðrænna, tilfinningalegra og annarra vandamála af því tagi og uppfyllt eru skilyrði til að vista barnið á heimili eða stofnun skv. 79. gr. barnaverndarlaga, en nauðsynlegt þykir að koma barninu í fóstur í stað þess að vista það á heimili eða stofnun.
    Markmið með styrktu fóstri er að barn njóti sérstakrar umönnunar þannig að mætt verði þörfum barnsins og barnið aðstoðað við að ná tökum á vandamálum sínum svo og að veita barninu og foreldrum þess þegar það á við nauðsynlegan stuðning þannig að barnið muni geta snúið aftur til foreldra sinna.
  4. Varanlegt fóstur.
    Með varanlegu fóstri er átt við að fóstur haldist þar til forsjárskyldur falla niður samkvæmt lögum. Barni skal komið í varanlegt fóstur þegar fyrirsjáanlegt þykir að ekki verði unnt að bæta aðstæður barns með öðrum hætti. Að jafnaði skal ekki gerður samningur um varanlegt fóstur fyrr en að liðnum reynslutíma.
    Markmið með varanlegu fóstri er að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika í lífi barns innan fósturfjölskyldu.
  5. Reynslufóstur.
    Með reynslufóstri er átt við að fóstur vari til reynslu í tiltekinn tíma áður en gerður er samningur um varanlegt fóstur. Reynslutími skal að jafnaði eigi vera lengri en þrír mánuðir og aldrei lengri en eitt ár.
    Markmið með reynslufóstri er að kanna hvort aðstæður séu með þeim hætti á væntanlegu fósturheimili að þær henti þörfum og hagsmunum barns. Að reynslutíma loknum skal meta hvort það samræmist þörfum og hagsmunum barnsins að alast upp á fósturheimilinu.
  6. Fóstursamningur.
    Fóstursamningur er samningur milli barnaverndarnefndar og fósturforeldra um fóstur á tilteknu barni. Gera skal skriflegan fóstursamning í öllum tilvikum þegar barnverndarnefnd ráðstafar barni í fóstur.
  7. Foreldrar.
    Með foreldrum er í reglugerðinni að jafnaði átt við þá sem fara með forsjá barns.

4. gr. Fósturbarn og réttindi þess.

Við ráðstöfun barns í fóstur skal barnaverndarnefnd ávallt hafa hagsmuni barns í fyrirrúmi og taka tillit til sjónarmiða og óska barns eftir því sem aldur þess og þroski gefur tilefni til. Stuðla ber að því að stöðugleiki verði í uppvexti og sem minnst röskun á lífi barnsins.

Barn í fóstri á rétt á góðum aðbúnaði hjá fósturforeldrum sínum og að þeir annist það af fyllstu umhyggju og nærgætni og svo sem best hentar hag þess og þörfum.

Barni skal tryggð vitneskja um hvers vegna því var komið í fóstur og hvaða áform barnaverndarnefnd hefur um framtíð þess, allt eftir því sem aldur og þroski barns gefur tilefni til.

Ungmenni sem hefur verið í fóstri getur farið fram á við barnaverndarnefnd að ráðstöfun nefndarinnar haldist eftir að fóstri lýkur við 18 ára aldurinn, allt til 20 ára aldurs.

Um réttindi barns að öðru leyti, svo sem rétt til umgengni og rétt til stuðnings, fer samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga og reglugerðar þessarar.

II. KAFLI Leyfi til að taka barn í fóstur.

5. gr. Umsókn um leyfi til að taka barn í fóstur.

Þeir sem óska eftir að taka barn í fóstur skulu beina umsókn sinni til Barnaverndarstofu á sérstökum eyðublöðum sem Barnaverndarstofa útbýr. Í umsókn skal taka fram hvort væntanlegir fósturforeldrar óska eftir að taka barn í tímabundið fóstur, styrkt fóstur eða varanlegt fóstur.

6. gr. Almennar kröfur til fósturforeldra.

Fósturforeldrar skulu vera í stakk búnir til þess að veita barni trygga umönnun og öryggi og til að mæta þörfum barns sem búið hefur við ótryggar aðstæður eða átt við erfiðleika að etja. Fósturforeldrar þurfa að vera við góða almenna heilsu, búa við stöðugleika auk fjárhagslegs og félagslegs öryggis sem stuðlað getur að jákvæðum þroskamöguleikum barns.

Ekki er skilyrði að umsækjandi sé í sambúð eða hjónabandi en hjón eða sambúðarfólk skulu sækja um leyfi saman.

Þeim sem brotið hafa gegn ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um kynferðisbrot er óheimilt að taka barn í fóstur ef brot beindist gegn einstaklingi sem ekki hafði náð 18 ára aldri.

7. gr. Vottorð, umsagnir og önnur gögn.

Umsókn skal fylgja:

  1. hjúskapar-/sambúðarvottorð ef við á,
  2. læknisvottorð á sérstöku eyðublaði sem Barnaverndarstofa útbýr,
  3. samþykki umsækjanda og annarra heimilismanna sem náð hafa 15 ára aldri fyrir því að Barnaverndarstofa afli upplýsinga úr sakaskrá þar sem sérstaklega komi fram hvort viðkomandi hafi nokkurn tíma hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga gegn einstaklingi sem ekki hefur náð 18 ára aldri,
  4. umsögn ættingja,
  5. umsögn vinnuveitanda,
  6. skattframtöl síðustu tveggja ára og
  7. greinargerð umsækjanda um ástæður þess að óskað er leyfis til að taka barn í fóstur.

Barnaverndarstofa getur aflað frekari gagna og nánari upplýsinga um hagi umsækjanda enda sé umsækjanda gert kunnugt um það.

8. gr. Umsögn barnaverndarnefndar.

Barnaverndarstofa óskar umsagnar barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi umsækjanda áður en stofan leggur endanlegt mat á hæfni til að taka barn í fóstur. Í umsögn barnaverndarnefndar skal fyrst og fremst leggja áherslu á að lýsa heimilishögum, fjölskyldusögu, umhverfi og aðstæðum væntanlegra fósturforeldra, svo sem menntun, atvinnu, fjármálum, heilsufari og áhugamálum þeirra. Sérstaklega skal kanna hvort viðkomandi hafi önnur leyfi eða sinni öðrum verkefnum samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga eða sinni umönnun eða umsjá einstaklinga samkvæmt ákvæðum annarra laga. Þá skal kanna með almennum hætti hvernig skólamálum er háttað í skólahverfi umsækjenda.

Við gerð umsagnar skal fara a.m.k. einu sinni á heimili væntanlegra fósturforeldra. Að lokinni könnun skal starfsmaður skrifa greinargerð um hagi umsækjanda og gera tillögu um afgreiðslu málsins. Gefa skal umsækjanda kost á að koma að athugasemdum við greinargerð og tillögur. Að því loknu afgreiðir barnaverndarnefnd umsögn með bókun.

Barnaverndarstofa gefur út nánari leiðbeiningar um þau atriði sem þarf að kanna og fram þurfa að koma í umsögn barnaverndarnefndar.

9. gr. Námskeið.

Umsækjanda ber að sækja námskeið á vegum Barnaverndarstofu áður en leyfi er veitt.

Markmið með námskeiði er annars vegar að leggja mat á hæfni umsækjanda og hins vegar að veita umsækjanda nauðsynlega þjálfun og undirbúa hann undir hlutverk sitt.

10. gr. Mat á hæfni fósturforeldra.

Mat á hæfni væntanlegra fósturforeldra sem fram fer á námskeiði Barnaverndarstofu felur í sér könnun á almennum viðhorfum, svo sem hvaða væntingar umsækjandi hefur til þess að taka barn í fóstur, reynslu umsækjanda og viðhorf til barna. Sérstök áhersla er lögð á hæfni umsækjanda til:

  1. að annast og ala upp barn,
  2. að koma til móts við þarfir barns og taka á misfellum í þroskaferli barnsins,
  3. að styðja tengsl milli barnsins og fjölskyldu þess eftir því sem við á,
  4. að stuðla að því að barnið geti myndað traust, varanleg og þroskandi tengsl og
  5. samvinnu við barnaverndarnefnd, kynforeldra eftir því sem við á og aðra sem koma að umönnun barns.

Við mat á hæfni þeirra sem óska eftir að taka barn í styrkt fóstur skal leggja áherslu á sérstaka eiginleika til að annast börn sem þurfa á styrktu fóstri að halda og gerð er sú krafa að fósturforeldri sé reiðubúið til að vinna við sérstaka umönnun og þjálfun barns á heimili sínu.

Námskeiði lýkur með samantekt um mat á hæfni og árangur þjálfunar auk tillögu að afgreiðslu á umsókn væntanlegra fósturforeldra. Gefa skal þeim kost á að koma að athugasemdum við samantekt áður en umsókn er afgreidd.

11. gr. Undanþága frá kröfu um námskeið.

Barnaverndarstofu er heimilt við sérstakar aðstæður að veita umsækjanda leyfi til að taka barn í fóstur þó hann hafi ekki lokið námskeiði skv. 9. gr. Í þeim tilvikum metur Barnaverndarstofa sérstaklega þau atriði sem annars felast í hæfnismati á námskeiði.

12. gr. Leyfi til að taka barn í fóstur.

Barnaverndarstofa gefur út leyfi til að taka barn í fóstur.

Í hvert sinn sem fósturforeldrar óska eftir að taka barn í fóstur þá skulu þeir sækja um að nýju til Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa metur hvaða gagna er aflað í hvert sinn. Þó skulu ætíð liggja fyrir upplýsingar úr sakaskrá ef liðin eru meira en tvö ár frá því að slíkar upplýsingar voru veittar auk þess sem fulltrúi barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi umsækjanda skal þá fara á heimilið.

Ef fósturforeldrar vilja taka barn í annars konar fóstur en leyfi hefur verið veitt fyrir skal sækja um að nýju til Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa metur hvaða gagna skuli aflað og hvers konar mat fer fram í hvert sinn.

13. gr. Leyfi fellur niður.

Ef leyfishafa hefur ekki verið falið barn í fóstur innan tveggja ára frá því að leyfi var síðast gefið út þá fellur leyfið niður en unnt er að sækja um leyfi að nýju.

14. gr. Skrá um fósturforeldra.

Barnaverndarstofa heldur skrá yfir þá sem hafa leyfi til að taka börn í fóstur.

III. KAFLI Ráðstöfun barns í fóstur.

15. gr. Beiðni um fósturheimili.

Barnaverndarnefnd sem vill ráðstafa barni í fóstur sendir beiðni um fósturheimili til Barnaverndarstofu. Beiðni skal fylgja:

  1. greinargerð um niðurstöðu könnunar í máli barns skv. 23. gr. barnaverndarlaga,
  2. gögn sem aflað var við könnun og varpað geta nánara ljósi á stöðu og þarfir barnsins,
  3. áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga,
  4. áætlun um trygga umsjá barnsins skv. 33. gr. barnaverndarlaga,
  5. samþykki forsjáraðila og barns ef við á skv. 48. gr. barnaverndarlaga,
  6. úrskurður barnaverndarnefndar eða dómstóls um heimild til að ráðstafa barni í fóstur ef við á og
  7. dómur um sviptingu forsjár ef við á.

16. gr. Val á fósturforeldrum fyrir barn.

Barnaverndarnefnd velur fósturforeldra úr hópi þeirra sem hafa leyfi til að taka barn í fóstur í samráði við Barnaverndarstofu. Barnaverndarnefnd ber að velja fósturforeldra af kostgæfni og með tilliti til þarfa og hagsmuna barnsins sem í hlut á. Leitast skal við að taka tillit til sjónarmiða barns við val á fósturforeldrum í samræmi við aldur þess og þroska.

Við val á fósturforeldrum skal miða að því að tryggja stöðugleika í lífi barns og að röskun á högum þess verði sem minnst. Ávallt skal leitast við að finna systkinum sameiginlegt fósturheimili nema sérstakar ástæður hamli.

Ef barnaverndarnefnd óskar eftir því að ráðstafa barni í styrkt fóstur þá velur Barnaverndarstofa fósturforeldra í samvinnu við barnaverndarnefnd.

17. gr. Réttarstaða foreldris sem ekki fer með forsjá barns.

Ef aðeins annað kynforeldra fer með forsjá barns þegar úrskurður eða svipting á sér stað eða foreldri sem fer eitt með forsjá afsalar sér umsjá eða forsjá til barnaverndarnefndar skal nefndin kanna grundvöll þess að ráðstafa barni til hins kynforeldrisins.

Sé talið barni fyrir bestu að ráðstöfunin til hins kynforeldris sé tímabundin fer um hana eftir þeim reglum sem gilda um fóstur.

Barnaverndarnefnd er heimilt, ef hún telur hagsmuni barns best tryggða með þeim hætti, að afsala forsjá þess til hins kynforeldrisins. Í þeim tilvikum metur barnaverndarnefndin hæfni foreldrisins og gerir skriflegan samning um breytta forsjá. Eftir að gerður er samningur um breytingu á forsjá samkvæmt þessari málsgrein fer um réttarstöðu foreldra og barns samkvæmt ákvæðum barnalaga.

Áður en barni er ráðstafað í fóstur skal barnaverndarnefnd ávallt leita umsagnar kynforeldris sem ekki fer með forsjá barns.

18. gr. Beiðni nákominna ættingja um að taka barn í fóstur.

Ef nákominn ættingi sem fengið hefur leyfi Barnaverndarstofu óskar eftir að taka barn í fóstur ber barnaverndarnefnd að meta hvort það þjóni hagsmunum barnsins best að ráðstafa því í fóstur til viðkomandi.

Nákominn ættingi getur skotið synjun barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála.

19. gr. Undirbúningur barns og fósturforeldra fyrir fóstur.

Barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur ber að undirbúa barn undir viðskilnað frá kynforeldrum. Barnaverndarnefnd ber einnig að undirbúa barn fyrir væntanlegt fóstur og meðal annars sjá til þess að barnið hafi meðferðis nauðsynlegan útbúnað.

Barnaverndarnefnd ber á sama hátt, áður en fóstur hefst, að undirbúa hina væntanlegu fósturforeldra undir hlutverk þeirra, svo sem með upplýsingagjöf, viðtölum og öðru því sem að gagni má koma. Barnaverndarnefnd skal upplýsa hina væntanlegu fósturforeldra um persónulega hagi barnsins og önnur atriði sem nefndin telur máli skipta með tilliti til markmiða fóstursins.

20. gr. Samvinna um fósturráðstöfun.

Barnaverndarnefnd skal leitast við að koma á góðu samstarfi og efla jákvæð samskipti milli kynforeldra, fósturforeldra og barns við fósturráðstöfun og meðan fóstur varir með hliðsjón af markmiðum fóstursins.

IV. KAFLI Fóstursamningur.

21. gr. Gerð fóstursamnings.

Barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur skal gera skriflegan fóstursamning við fósturforeldra áður eða um leið og barn fer í fóstur. Ef gert er ráð fyrir hlutdeild ríkisins í kostnaði vegna styrkts fósturs eru ákvæði í fóstursamningi sem að þessu lúta háð samþykki Barnaverndarstofu.

Í fóstursamningi skal meðal annars kveðið á um:

  1. lögheimili barns og daglega umsjá,
  2. forsjárskyldur, þar með talin lögráð,
  3. áætlaðan fósturtíma, sbr. 2. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga,
  4. framfærslu barns og annan kostnað,
  5. umgengni barns við kynforeldra og/eða aðra nákomna,
  6. stuðning barnaverndarnefndar við barn og fósturforeldra meðan fóstur varir,
  7. lok fósturs,
  8. sérstaka umönnun og þjálfun, sbr. 4. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga, þegar það á við og
  9. annað sem máli skiptir.

22. gr. Lögheimili, umsjá og forsjárskyldur.

Fósturforeldrar fara jafnan með daglega umsjá fósturbarns og ráða persónulegum högum þess í samráði við barnaverndarnefnd.

Fósturforeldrum ber að annast fósturbarn og sýna því umhyggju og virðingu. Þeim ber að gegna umsjár- og forsjárskyldum svo sem best hentar hag og þörfum fósturbarnsins og taka tillit til uppruna, menningar og trúar barnsins eftir því sem við á. Fósturforeldrum ber að vernda fósturbarnið gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.

Við ákvörðun um það hvar barn skuli eiga lögheimili og hvort og að hvaða marki fósturforeldrar skulu fara með forsjárskyldur vegna barns, þar með talin lögráð þess (sjálfræði og fjárræði), skal taka mið af því hversu lengi fóstri er ætlað að vara, þörfum og hagsmunum barns, aðstæðum fósturforeldra og öðrum atvikum.

23. gr. Fósturtími.

Fóstri skal alltaf markaður tiltekinn tími með tilliti til markmiðs fóstursins. Við ákvörðun um fósturtíma, tegund fósturs og endurnýjun fóstursamnings ber barnaverndarnefnd að hafa sérstaklega í huga aldur barns, þörf barns fyrir stöðugleika og hagsmuni og þarfir barns að öðru leyti.

Ekki skal gera samning um tímabundið fóstur til lengri tíma en eins árs í senn. Ekki skal endurnýja samning um tímabundið fóstur oftar en einu sinni nema í algerum undantekningartilvikum.

Samning um styrkt fóstur skal gera til allt að eins árs í senn. Barnaverndarstofa getur veitt leyfi til að endurnýja samning um styrkt fóstur í sérstökum tilvikum.

Ef foreldrar samþykkja, afsala sér forsjá eða hafa verið sviptir forsjánni er heimilt að ákveða í fóstursamningi að fóstur skuli vara þar til barn verður lögráða.

24. gr. Greiðslur til fósturforeldra.

Þegar barni er ráðstafað í fóstur skal ákveða í fóstursamningi hver skuli vera greiðsla með því til fósturforeldra, þ.e. framfærslueyrir, fósturlaun og annar kostnaður.

Með framfærslueyri er átt við greiðslu til að mæta kostnaði vegna daglegrar framfærslu barns. Af framfærslueyri ber fósturforeldrum að standa straum af öllum almennum kostnaði sem felst í því að hafa umsjá barns, svo sem að sjá barninu fyrir fullnægjandi aðstöðu á heimili, mat, endurnýjun á fatnaði, almennri læknisþjónustu, daglegum ferðalögum, mötuneytiskostnaði í skóla, útbúnaði í skóla, vasapeningum og almennum tómstundum.

Með fósturlaunum er átt við umönnunarlaun fósturforeldra.

Framfærslueyrir og fósturlaun skulu miðast við margfeldi af fjárhæð barnalífeyris eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar og skulu nema samanlagt að lágmarki tvöföldum barnalífeyri. Fjárhæð framfærslueyris og fósturlauna ber að öðru leyti að meta með hliðsjón af þörfum barns í hverju tilviki. Við þetta mat má taka tillit til greiðslna sem fósturforeldrar kunna að eiga rétt á samkvæmt öðrum lögum.

Ef Barnaverndarstofa samþykkir að barn fari í styrkt fóstur þá greiðir barnaverndarnefnd sem ráðstafar barninu að jafnaði framfærslueyri og fósturlaun sem svara sjöföldum barnalífeyri. Ríkið greiðir fósturforeldrum fósturlaun til viðbótar sem svarar allt að tíföldum barnalífeyri.

Ef fyrirsjáanlegt er að um sérstakan annan kostnað verði að ræða meðan fóstur varir, svo sem ferðakostnað vegna umgengni barns við nákomna, kostnað við leikskóla eða aðra gæslu, sérstakan námskostnað eða mikinn kostnað vegna tómstunda, útgjöld vegna meiri háttar tannlækninga, eða umtalsverðrar heilbrigðisþjónustu, svo sem vegna alvarlegra eða langvarandi sjúkdóma, skal ákveða í fóstursamningi hver verði greiðsla til fósturforeldra.

Fósturforeldrar geta farið fram á greiðslur á ófyrirséðum kostnaði með rökstuddri beiðni til þeirrar barnaverndarnefndar sem ráðstafaði barninu í fóstur. Beiðni skal koma fram innan sex mánaða frá því að fósturforeldrum var kunnugt um útgjöldin. Ef ekki næst samkomulag milli barnaverndarnefndar og fósturforeldra um greiðslur á ófyrirséðum kostnaði skal afgreiða málið með rökstuddri bókun. Sú ákvörðun barnaverndarnefndar er kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála.

25. gr. Umgengni í fóstri.

Barn í fóstri á rétt til umgengni við kynforeldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni er átt við samveru og önnur samskipti.

Kynforeldrar eiga rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun barnsins í fóstur. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Barn sem er 15 ára og eldra getur sjálft gert kröfu um umgengni.

Við ráðstöfun barns í fóstur skal barnaverndarnefnd eiga frumkvæði að því að gera tillögur um umgengni barns við kynforeldra og aðra nákomna þegar það á við. Leitast skal við að ná samkomulagi við þá sem umgengni eiga að rækja og ganga frá skriflegum samningi um fyrirkomulag umgengninnar. Ef ekki næst samkomulag úrskurðar barnaverndarnefnd um ágreiningsefni er varða umgengni barns við kynforeldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengni eða framkvæmd.

Barnaverndarnefnd ber að kanna viðhorf fósturforeldra áður en gengið er frá samningi eða kveðinn er upp úrskurður um umgengni. Ákvæði samnings eða úrskurðar skulu tekin upp í fóstursamning.

Við ákvörðun umgengni við barn í fóstri skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best með það fyrir augum að ná markmiði sem stefnt er að með ráðstöfun barnsins í fóstur.

Að öðru leyti fer um umgengni í fóstri skv. 74. gr. barnaverndarlaga, svo sem um synjun, breytingu á fyrri ákvörðun og málskot.

26. gr. Stuðningur barnaverndarnefndar við barn og fósturforeldra meðan fóstur varir.

Barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur veitir barni og fósturforeldrum nauðsynlegan stuðning á meðan fóstur varir. Ber að útfæra nánar í fóstursamningi í hverju stuðningur er fólginn en taka skal afstöðu til eftirtalinna atriða:

  1. meðferðar fyrir barnið, svo sem viðtala við sálfræðing, geðlækni eða aðra, sérstaklega þegar um styrkt fóstur er að ræða,
  2. frekari þjónustu við barnið, svo sem heilbrigðisþjónustu, lyfjameðferðar og þjálfunar,
  3. annarra stuðningsúrræða,
  4. handleiðslu fyrir fósturforeldra,
  5. reglubundinna samráðsfunda þar sem taka þátt eftir atvikum barn, kynforeldrar, fósturforeldrar, fulltrúi barnaverndarnefndar, handleiðari, meðferðaraðili og/eða aðrir og
  6. heimsókna fulltrúa barnaverndarnefndar á fósturheimili meðan fóstur varir.

27. gr. Samvinna um stuðning við barn í fóstri.

Barnaverndarnefnd skal leita eftir samstarfi við þá aðila sem nefndin telur rétt að veiti barni stuðning á fósturheimili, svo sem starfsfólk leikskóla, skóla og heilsugæslu og þá sem sinna þjónustu við fatlaða.

28. gr. Tilkynning um gerð fóstursamnings.

Barnaverndarnefnd skal tilkynna Barnaverndarstofu um gerð fóstursamnings. Barnaverndarnefnd tilkynnir einnig um gerð fóstursamnings til annarra opinberra aðila eftir því sem við á.

29. gr. Skrá yfir börn í fóstri.

Barnaverndarstofa heldur skrá yfir börn í fóstri.

V. KAFLI Lok fósturs.

30. gr. Fóstursamningur rennur út.

Barnaverndarnefnd ber, að jafnaði eigi síðar en mánuði áður en fóstri lýkur, að gera skriflega áætlun skv. 23. gr. barnaverndarlaga um áframhaldandi meðferð máls barnsins. Við undirbúning og gerð áætlunar skal barnaverndarnefnd, að höfðu samráði við kynforeldra og fósturforeldra eftir atvikum, meta stöðu barnsins og að hvaða leyti markmið með fóstri hafi náðst.

Við lok fósturs ber barnaverndarnefnd að undirbúa barn undir viðskilnað frá fósturforeldrum og það sem tekur við að fóstri loknu.

31. gr. Breytingar á högum fósturforeldra.

Ef aðstæður fósturforeldra breytast meðan fóstur varir, svo sem vegna skilnaðar, andláts, búferlaflutninga eða heilsubrests, ber fósturforeldrum að tilkynna það þeirri barnaverndarnefnd sem ráðstafaði barni í fóstur.

Fósturforeldrum ber með sama hætti að tilkynna barnaverndarnefnd ef þeir taka að sér umönnunarhlutverk á heimili sínu samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga eða annarra laga, svo sem laga um félagsþjónustu sveitarfélaga eða laga um málefni fatlaðra.

Barnaverndarnefnd metur hvort þörf er á að endurskoða fóstursamning vegna breytinga á högum fósturforeldra. Ef ekki næst samkomulag milli barnaverndarnefndar og fósturforeldra getur barnaverndarnefnd með rökstuddum úrskurði breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi. Úrskurður er kæranlegur til kærunefndar barnaverndarmála.

32. gr. Slit fóstursamnings.

Fóstursamning skal ætíð gera með þeim fyrirvara að hann falli úr gildi ef krafa kynforeldris um endurskoðun á ráðstöfun barnaverndarnefndar nær fram að ganga.

Ef fóstursamningur er gerður til 12 mánaða eða skemmri tíma getur hvor aðili sagt upp samningi og skal miða við eins mánaðar gagnkvæman uppsagnarfrest nema annars sé sérstaklega getið í fóstursamningi. Uppsögn skal berast skriflega og miðast við næstu mánaðamót.

Ef fóstursamningur er gerður til lengri tíma en 12 mánaða getur hvor aðili óskað þess að breyta samningi eða fella samning úr gildi. Ef ekki næst samkomulag milli barnaverndarnefndar og fósturforeldra getur barnaverndarnefnd með rökstuddum úrskurði breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi. Úrskurður er kæranlegur til kærunefndar barnaverndarmála.

Hvor aðili um sig getur tafarlaust rift fóstursamningi ef um verulega vanefnd verður að ræða af hálfu hins aðilans. Veruleg vanefnd telst meðal annars vera fyrir hendi ef:

  1. óhæfilegur dráttur verður á umsömdum greiðslum frá barnaverndarnefnd til fósturforeldra,
  2. fósturforeldri fremur brot á ákvæðum almennra hegningarlaga eða XVIII. kafla barnaverndarlaga gagnvart fósturbarni eða öðru barni,
  3. fósturforeldri fremur alvarlegt brot á ákvæðum almennra hegningarlaga eða annarra laga eða
  4. fósturbarn býr við slæman aðbúnað hjá fósturforeldri.

Ef barnaverndarnefnd telur fósturforeldri hafa vanefnt samning verulega og ekki næst samkomulag milli nefndarinnar og fósturforeldra getur nefndin gripið til neyðarráðstöfunar skv. 31. gr. barnaverndarlaga og tekið barnið af fósturheimilinu. Barnaverndarnefnd getur í kjölfarið fellt fóstursamning úr gildi með rökstuddum úrskurði. Úrskurður er kæranlegur til kærunefndar barnaverndarmála.

33. gr. Tilkynning um lok fóstursamnings.

Barnaverndarnefnd skal tilkynna Barnaverndarstofu um lok fósturs. Ef fóstursamningur er felldur úr gildi fyrr en áætlað var skal barnaverndarnefnd einnig senda greinargerð um ástæður samningsslita.

VI. KAFLI Eftirlit barnaverndarnefndar meðan fóstur varir.

34. gr. Eftirlit með fóstri.

Barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur fer með mál barnsins meðan ráðstöfun varir. Barnaverndarnefnd skal fylgjast með aðbúnaði og líðan barnsins og því að ráðstöfun nái tilgangi sínum.

Barnaverndarnefnd skal heimsækja fósturheimili eigi sjaldnar en einu sinni á ári og oftar ef ástæða þykir til.

35. gr. Samstarf barnaverndarnefnda.

Barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur getur farið fram á að barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi fósturforeldra taki að sér tilteknar skyldur. Um slíkt skal gera skriflegan samning og hans getið í fóstursamningi.

36. gr. Tilkynningar um aðbúnað fósturbarns hjá fósturforeldrum.

Tilkynningar skv. 16.–18. gr. barnaverndarlaga sem varða aðstæður barns hjá fósturforeldri, svo og upplýsingar um að fósturforeldri vanræki hlutverk sitt, skulu berast til barnaverndarnefndar sem ráðstafaði barni í fóstur. Er nefndinni skylt að kanna málið tafarlaust og grípa til viðeigandi ráðstafana.

VII. KAFLI Ábyrgð á kostnaði vegna fósturs.

37. gr. Framfærsluskylda foreldra.

Foreldrar barns sem ráðstafað er í fóstur eru framfærsluskyldir gagnvart því nema foreldri hafi verið svipt forsjá barnsins.

Barnaverndarnefnd getur krafið foreldra um framfærslueyri með barni meðan á vistun stendur með hliðsjón af þörfum barnsins og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra. Barnaverndarnefnd úrskurðar um fjárhæð framfærslueyris. Úrskurðurinn er kæranlegur til kærunefndar barnaverndarmála.

Um viðmið við ákvörðun og innheimtu framfærslueyris fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum barnalaga.

38. gr. Kostnaður samkvæmt fóstursamningi.

Barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni greiðir þann kostnað við fóstur sem leiðir af fóstursamningi. Þegar um styrkt fóstur er að ræða fer um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga skv. 2. mgr. 88. gr. barnaverndarlaga og 5. mgr. 24. gr. reglugerðarinnar.

39. gr. Annar kostnaður vegna fósturbarns.

Fósturforeldrar og fósturbarn eiga rétt á allri almennri þjónustu samkvæmt lögum og fer almennt um kostnað vegna þeirrar þjónustu samkvæmt þeim lögum sem gilda á hverju sviði, svo sem lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, leikskóla, grunnskóla o.s.frv.

Ef barn fer í tímabundið fóstur skal sveitarfélag sem ráðstafar barni í fóstur greiða kostnað vegna grunnskóla meðan ráðstöfun varir.

40. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 1. og 3. mgr. 66. gr., 75. gr. og 78. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytinu, 27. september 2004.

Árni Magnússon.

Þorgerður Benediktsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.